Þar skrifar hún að níu ár og fernar kosningar séu liðnar frá því að þjóðin hafi samþykkt með tveimur þriðju hluta atkvæða vilja sinn til að lögfest yrði ný stjórnarskrá, sem í grundvallaratriðum hafi verið samin af þjóðinni sjálfri.
„Hvar í hinum vestræna heimi hefði það verið liðið að þjóðþing myndi hunsa slíkan þjóðarvilja“ spyr Jóhanna, sem var forsætisráðherra í vinstristjórninni 2009-2013 sem lét semja nýja stjórnarskrá á vettvangi stjórnlagaráðs.
Jóhanna gagnrýnir enn fremur að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi ekki viljað samþykkja ráðstafanir sem hefðu gert breytingar á stjórnarskránni á næsta kjörtímabili mögulegar án þess að boða þyrfti til kosninga vegna þeirra.
Ljóst sé að kjósendur geti gengið út frá því að óbreytt ríkisstjórn muni aldrei samþykkja breytingar á stjórnarskránni í anda þjóðarviljans á næsta kjörtímabili.
„Þennan Svarta Pétur taka íhaldsflokkarnir í núverandi ríkisstjórn með sér inní næstu kosningar,“ skrifar Jóhanna. „Þetta er nú meiri ræfildómurinn hjá Alþingi Íslendinga.“
Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá fór fram í október 2012. Þátttaka var 48,9% en um 73.000 af 114.000 sem kusu voru fylgjandi því að leggja ætti tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Það eru um 65%.
Andrés Ingi Jónsson pírati var flutningsmaður tillögu um að halda sérstakan þingfund um stjórnarskrármál í haust. Þar voru einnig Samfylkingarmenn og flokksmenn Flokks fólksins um borð. Sú tillaga var felld í gær og Jóhanna skrifar sína stöðuuppfærslu meðal annars af því tilefni.