Sport

Norðmaður sló langlíft heimsmet í Osló - „Metið eldra en ég“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Warholm fagnar eftir hlaup kvöldsins.
Warholm fagnar eftir hlaup kvöldsins. LightRocket via Getty Images/Andrea Staccioli

Norski hlauparinn Karsten Warholm sló í kvöld 29 ára gamalt heimsmet í 400 metra grindahlaupi í móti á Demantamótaröðinni í Osló. Um er að ræða elsta standandi heimsmet í frjálsum íþróttum karla.

Fyrra met átti Bandaríkjamaðurinn Kevin Young sem hljóp metrana 400 á 46,78 sekúndum þegar hann tryggði sér Ólympíugull í Barcelona árið 1992. Það met hafði staðið í 29 ár þar til Warholm, sem er tvöfaldur heimsmeistari, hljóp metrana á 46,70 sekúndum í Osló í kvöld.

Hinn 21 árs gamli Alison dos Santos frá Brasilíu kom annar í mark á 47,38 sekúndum og Kúbverjinn Yasmani Copello, sem þó keppir fyrir Tyrkland, var þriðji.

„Ég hef vitað lengi að ég ætti svo góða tíma í mér, en það er eitt að vera í góðu formi og annað að skila því á brautinni.“ sagði Warholm eftir hlaupið.

„Þetta var bara fullkomið augnablik, allir hafa talað um að þetta heimsmet hefur staðið í fleiri, fleiri ár - það er eldra en ég í rauninni.“ sagði hann enn fremur. Warholm er 25 ára, fæddur 1996, fjórum árum eftir að Young setti metið á sínum tíma.

Warholm þykir líklegur til afreka í greininni á Ólympíuleikunum í Tókýó sem hefjast síðar í þessum mánuði. Talið er að Rai Benjamin frá Bandaríkjunujm og Katarinn Abderrahman Samba muni veita honum harða keppni um gullið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×