Innlent

Kærir fjölmiðlanefnd fyrir að hlíta ekki eigin reglum

Jakob Bjarnar skrifar
Hafliði telur það skjóta skökku við að Fjölmiðlanefnd vilji skikka þá sem reka hlaðvörp til að skrá sig sem fjölmiðla þegar Fjölmiðlanefnd telur ekki ástæðu til að gera það með sitt eigið hlaðvarp sem heitir Fjórða valdið. Elfa Ýr Gylfadóttir er framkvæmdastjóri nefndarinnar.
Hafliði telur það skjóta skökku við að Fjölmiðlanefnd vilji skikka þá sem reka hlaðvörp til að skrá sig sem fjölmiðla þegar Fjölmiðlanefnd telur ekki ástæðu til að gera það með sitt eigið hlaðvarp sem heitir Fjórða valdið. Elfa Ýr Gylfadóttir er framkvæmdastjóri nefndarinnar. visir/Egill/HEIÐA DÍS BJARNADÓTTIR

Hafliði Breiðfjörð, framkvæmdastjóri fótbolti.net, hefur sent inn kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna þess sem hann telur óásættanlega og mótsagnakennda framgöngu fjölmiðlanefndar.

Umkvörtun Hafliða snýr að því að fjölmiðlanefnd, sem hefur velgt ýmsum sem halda úti hlaðvarpi undir uggum með því að krefjast þess að þeir skrái hlaðvarp sitt sem fjölmiðil, hafi nú sjálf stofnað til hlaðvarps. Og sé þar með komið í samkeppni við þá sem nefndin vill skilgreina sem fjölmiðla og það sem meira er; þá hafi nefndin látið undir höfuð leggjast að skrá sitt eigið hlaðvarp sem slíkt. Það er svo kaldhæðnislegt að hlaðvarp sitt hefur fjölmiðlanefnd kosið að kalla „Fjórða valdið“.

Í bréfi Hafliða til Umboðsmanns er tíundað að fjölmiðlanefnd hafi það hlutverk með höndum að hafa eftirlit með fjölmiðlum hefur stofnað sinn eigin fjölmiðil í hlaðvarpi sem er út fyrir hennar hlutverk. Nefndin hafi ekki sinnt skyldum sínum að skrá þann fjölmiðil hjá Fjölmiðlanefnd. Hún hafi svo þann 25. mái síðastliðinn ráðið til starfamann úr fjölmiðlageiranum sem heldur úti hlaðvarpinu í nafni nefndarinnar.

„Með þessu er nefndin komin í samkeppni um efni við fjölmiðla sem hún á að veita eftirlit og þar með komin langt út fyrir sitt hlutverk,“ segir meðal annars í bréfi Hafliða.

Hafliði segir ljóst að starfsmaður sá sem heldur „Fjórða valdinu“ fyrir hönd Fjölmiðlanefndar starfi hjá nefndinni og þar með er skýrt í reglum nefndarinnar að skrá skuli hlaðvarpið sem fjölmiðil á vef hennar.

„Ef nefndin hefði farið eftir eigin skilaboðum hvað þetta varðar þá hefði hún sett fordæmi og verið fyrsta hlaðvarpið á skrá hjá Fjölmiðlanefnd.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×