Innlent

Kallar eftir um­ræðu um frjálsan opnunar­tíma skemmti­staða: „Ég vil meira frelsi í Reykja­vík“

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins vill meira frelsi í Reykjavík.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins vill meira frelsi í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins kallar eftir umræðu um frjálsan opnunartíma skemmtistaða í Reykjavík.

Hún segir enga ástæðu vera til þess að ætla að í frjálsu umhverfi verði opnunartími skemmtistaða ótakmarkaður, að ofbeldisglæpir aukist eða fólk sigli lífi sínu í strand. „Boð og bönn verða aldrei alhliða lausn á hvers kyns samfélagsmeinum,“ skrifar Hildur á Facebook-síðu sinni.

Hildur segist óttast það að í kjölfar samkomutakmarkana hafi skapast frjór jarðvegur fyrir stjórnlyndi hérlendis. Þá tekur hún fram að hún sé algjörlega andsnúin þeim hugmyndum sem fulltrúar lögreglunnar hafi viðrað síðustu dag um að takmarka opnunartíma skemmtistaða og banna rafhlaupahjól um helgar. Hún sér ekki ástæðu til þess að takmarka athafnafrelsi fólks og fyrirtækja neitt frekar.

Hildur bendir hversu veigamikill þáttur næturhagkerfið er í menningar- og skemmtanalífi borgarinnar. Hún segir það löngu tímabært að taka umræðu um framtíð næturlífsins í Reykjavík, hvernig styðja megi betur við atvinnurekstur í miðborg og hvernig þróa megi skemmtanalífið til framtíðar í góðri sátt við íbúa.

„Möguleikarnir eru endalausir: Eigum við að leyfa næturklúbba á Grandasvæðinu eða krár í íbúðahverfum? Eigum við að treysta atvinnurekendum til að taka ábyrgð á eigin rekstri – og fólki til að taka ábyrgð á eigin lífi? Ég vil meira frelsi í Reykjavík.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×