Innlent

Vestur­bæingar sjá á eftir bensín­stöðvum sínum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Margir eiga eflaust eftir að sakna þess að mæta á N1 Hringbraut eftir djammið. Nema þar verði áfram starfrækt veitingaþjónusta eftir lokun bensínstöðvarinnar.
Margir eiga eflaust eftir að sakna þess að mæta á N1 Hringbraut eftir djammið. Nema þar verði áfram starfrækt veitingaþjónusta eftir lokun bensínstöðvarinnar. vísir/vilhelm

Bensínstöðvum í íbúðahverfum borgarinnar fækkar allverulega á næstu árum. Eftir lokun þeirra verða nánast eingöngu bensínstöðvar við stærri brautir.

Samningar milli Reykja­víkur­borgar og þriggja stærstu olíu­fé­laganna voru sam­þykktir á fundi borgar­ráðs í morgun þar sem samið er um að fækka bensíndælum í borginni um þriðjung. 

Ekki er til­greint ná­kvæm­lega hve­nær bensínstöðvunum verður lokað; í fundar­gerð borgar­ráðs og til­kynningum borgar­stjóra er að­eins talað um að það verði „á næstu árum“.

Meðal þeirra bensínstöðva sem verður lokað eru allar stöðvar í Vesturbænum, sunnan Hringbrautar, ásamt hinni vin­sælu stöð N1 við Hring­braut, sem margir þekkja ef­laust af skemmtana­lífinu en í sama rými er rekinn veitinga­staðurinn Subway, sem er opinn allan sólar­hringinn og fyllist gjarnan eftir lokun skemmtistaða.

Eftir að þeim bensín­stöðvum verður lokað sem samið var um verða þá heldur engar bensín­stöðvar inni í í­búðar­hverfi í Laugar­dalnum, Hlíðunum eða Foss­vogi.

Í staðinn fyrir bensín­stöðvarnar á að byggja í­búðir og hverfis­tengda þjónustu. Allt er þetta hluti Græna plansins svo­kallaða og lofts­lags­á­ætlunar borgarinnar.

Sam­hliða lokun bensín­stöðvanna gefur borgin lóðar­vil­yrði fyrir fjöl­orku­stöð á Esju­melum og upp­byggingu í Stekkjar­bakka 4-6.

Samningarnir voru gerðir við N1, Skeljung og Orkuna og Olís og OB. 

Þeim bensín­stöðvum sem verður lokað eru:

  • Birkimelur 1
  • Ægisíða 102
  • Álfheimar 49
  • Álfabakki 7
  • Egilsgata 5
  • Hringbraut 12
  • Stóragerði 40
  • Skógarsel 10
  • Skógarhlíð 16



Fleiri fréttir

Sjá meira


×