„Þetta er langt fram úr okkar væntingum og alveg sturluð viðbrögð,“ segir Auðunn Blöndal í samtali við Vísi.
Lagið er fjórða þjóðhátíðarlag FM95BLÖ og heitir Komið er að því. Þess má geta að lagið er jafnframt fyrsta þjóðhátíðarlag þeirra sem er frumsamið.
„Við settumst bara með snillingnum Ásgeiri Orra og bentum honum á hvað við vildum í nýjasta laginu. Hann tók það langt fram úr okkar björtustu væntingum.“
Vita hvernig stemmningu fólk vill í dalnum
Farið þið sjálfir alltaf á Þjóðhátíð í Eyjum?
Já, við höfum haft þann sið að vera með fyrsta þátt okkar af FM95BLÖ eftir sumarfrí í beinni frá Þjóðhátíð og höfum svo skemmt á stóra sviðinu kvöldið eftir.
Við fórum alltaf reglulega áður en við byrjuðum að skemmta þarna sjálfir og vitum því nákvæmlega hvernig stemmningu fólk vill í dalnum. Svo myndast þessi sturlaða stemmning, fólk finnur að okkur finnst þetta jafn gaman og þeim.
Hvernig kom það til að þið byrjuðuð að gefa út ykkar eigið þjóðhátíðarlag?
„Við höfum reynt að koma með þjóðhátíðarlag á tveggja ára fresti til að peppa aðeins stemminguna en við erum alltaf með atriði á laugardagskvöldinu.“
Ásamt FM95BLÖ flytja lagið stórsöngvararnir og góðvinir þáttarins þau Jóhanna Guðrún og Sverrir Bergmann.
Fyrir þá sem vilja koma sér í extra mikið þjóðhátíðarskap er hægt að nálgast fyrri þjóðhátíðarlög FM95BLÖ og tónlistarmyndbönd hér fyrir neðan.