Íslenski boltinn

Sjáðu mörkin þegar Blikar rústuðu FH-ingum og markið í toppslagnum á Dalvík

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fylkismenn fagna einu þriggja marka sinna gegn Skagamönnum.
Fylkismenn fagna einu þriggja marka sinna gegn Skagamönnum. vísir/Hulda Margrét

Þrettán mörk voru skoruð í leikjum gærdagsins í Pepsi Max-deild karla. Þá fóru fjórar vítaspyrnur forgörðum.

Valur vann toppslaginn gegn KA á Dalvík, 0-1. Patrick Pedersen skoraði eina mark leiksins á 77. mínútu. Helgi Mikael Jónasson dæmdi þrjár vítaspyrnur í leiknum en þær fóru allar forgörðum.

Breiðablik rúllaði yfir FH, 4-0, á Kópavogsvelli. Kristinn Steindórsson, Jason Daði Svanþórsson, Viktor Karl Einarsson og Árni Vilhjálmsson (víti) skoruðu mörk Blika sem hafa unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum. FH-ingar hafa aftur á móti aðeins fengið eitt stig í síðustu fimm leikjum sínum.

Keflavík vann sinn annan leik í röð þegar liðið sigraði Leikni, 1-0, í nýliðaslag suður með sjó. Joey Gibbs skoraði eina mark leiksins en hann hefur skorað fimm mörk í síðustu fjórum leikjum Keflvíkinga.

Fylkir lenti undir eftir fjórar mínútur gegn ÍA í Árbænum en kom til baka og vann 3-1 sigur. Helgi Valur Daníelsson, Óskar Borgþórsson og Dagur Dan Þórhallsson skoruðu mörk Fylkismanna. Þetta voru fyrstu mörk Óskars og Dags í efstu deild. Gísli Laxdal Unnarsson skoraði mark Skagamanna.

Þá vann Stjarnan HK, 2-1. Hilmar Árni Halldórsson og Emil Atlason skoruðu mörk Stjörnumanna í fyrri hálfleik en Stefan Alexander Ljubicic minnkaði muninn fyrir HK-inga. Arnar Freyr Ólafsson, markvörður HK, varði vítaspyrnu frá Hilmari Árna í seinni hálfleik.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×