Innlent

Lúxussnekkjan kveður Ísland

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Snekkjan Sailing Yacht A hefur yfirgefið Reykjavíkurhöfn.
Snekkjan Sailing Yacht A hefur yfirgefið Reykjavíkurhöfn. SKjáskot

Lúxussnekkjan Sailing Yacht A sem vakið hefur talsverða athygli víðs vegar um land síðustu vikur, hefur nú siglt á brott og er leiðinni haldið til Gíbraltar.

Snekkjan sem er ein sú dýrasta í heiminum, er í eigu auðjöfursins Andrey Melnichenko. Hann er talinn vera áttundi ríkasti maður Rússlands og númer 102 í heiminum öllum.

Melnichenko hefur dvalið hér á landi með fjölskyldu sinni í þó nokkurn tíma. Snekkjan sást fyrst á Akureyri í apríl. Hún sást svo við höfn í Reykjanesbæ, áður en hún sigldi að Reykjavíkurhöfn þann 6. júní.

Snekkjan lagði af stað frá Reykjavíkurhöfn fyrr í kvöld. Samkvæmt vef Marine Traffic er stefnan tekin á Gíbraltar þar sem snekkjan mun sigla í höfn næsta föstudag.

Óhætt er að segja að snekkjan hafi vakið mikla athygli en hún einkennist af þremur háum möstrum. Mörgum þykir mikið til hennar koma, á meðan aðrir virðast ekki hafa smekk fyrir þessari dýru snekkju.


Tengdar fréttir

Lúxussnekkjur rússneskra auðjöfra í Reykjavíkurhöfn

Tvær lúxussnekkjur rússneskra auðjöfra eru nú í Reykjavíkurhöfn. Þar er annars vegar komin snekkjan Sailing Yacht A, sem komið hefur víða við á landinu síðustu vikur, og hins vegar glæsifleyið Le Grand Bleu.

Drónamyndband sýnir lúxussnekkjuna í allri sinni dýrð á Akureyri

Ein stærsta snekkja í heimi, sem ber nafnið Sailing Yacht A og er í eigu rússneska auðjöfursins Andrey Melnichenko, hefur nú verið á Akureyri í viku. Drónamyndband, sem tekið var af snekkjunni við bæinn í gær og nálgast má neðst í fréttinni, sýnir skipið í allri sinni dýrð.

Ein stærsta lúxussnekkja heims á Akureyri

Ein stærsta snekkja í heimi, sem ber nafnið Sailing Yacht A og er í eigu rússneska auðjöfursins Andrey Melnichenko, sigldi inn Eyjafjörð í kvöld og er stödd við Akureyri. Að því er greint er frá á akureyri.net í kvöld verður snekkjan í Krossanesvíkinni á næstunni, jafnvel í einhverjar vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×