Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi. Hann segir rannsókn málsins ganga vel og verið sé að yfirheyra vitni að árásinni.
Maðurinn sem varð fyrir hnífstungunni á aðfarnótt sunnudags fyrir utan veitingastaðinn Fjallkonuna í miðbæ Reykjavíkur er á batavegi. Manninum var haldið sofandi í þrjá daga eftir árásina og hann talinn í lífshættu. Hann er nú vaknaður en lögregla hefur ekki náð að tala við hann í tengslum við málið.
„Við erum að stefna að því að gera það eins fljótt og mögulegt er,“ segir Grímur.
Þá er enn til rannsóknar hvort tveir bílbrunar, annars vegar í Kópavogi og hins vegar í Árbæ, tengist málinu. Þá hefur lögreglan tvo hnífa til skoðunar og rannsakar hvort þeir séu vopnið sem notað var í árásinni. Annar hnífurinn fannst á vettvangi fyrir utan Fjallkonuna á aðfarnótt sunnudags og hinn fannst á bílaplaninu þar sem bíllinn í Árbæ brann.