Innlent

Ólíkir ráð­herrar saman á fundi NATO fyrir hönd Ís­lands

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Katrín á fundinum í dag. Guðlaugur Þór situr fyrir aftan hana.
Katrín á fundinum í dag. Guðlaugur Þór situr fyrir aftan hana. stjórnarráðið

Leið­togar At­lants­hafs­banda­lagsins (NATO) funduðu í höfuð­stöðvum þess í Brussel í dag. Tveir ráðherrar Íslands sátu fundinn en þeir hafa nokkuð misjafna sýn á hlutverk bandalagsins og hvort Ísland eigi í raun heima þar.

Við­horf ráð­herranna til banda­lagsins er mjög ólíkt en Katrín hefur marg­sinnis gefið það út að hún vilji ekki að Ís­land sé með­limur þess. Guð­laugur Þór er hins vegar ein­lægur tals­maður þess að Ís­land sé í NATO.

Katrín með sömu áherslur og síðast

Fundurinn virðist hafa verið nokkuð hefð­bundinn í dag og breyttust á­herslur Katrínar lítið sem ekkert milli ára. Hún lagði þannig á­herslu á lofts­lagsmál og af­vopnunar­mál í ár rétt eins og á síðasta leið­toga­fundi banda­lagsins.

Til­lögur Jens Stol­ten­bergs, fram­kvæmda­stjóra NATO, voru til um­fjöllunar á fundinum í dag en þær eiga að miða að því að gera banda­lagið betur í stakk búið til að takast á við „öryggis­á­skoranir og -ógnir“ á næstu árum.

Vísir náði ekki tali af Katrínu í kvöld en í til­kynningu frá for­sætis­ráðu­neytinu er vísað í orð hennar: 

„Stol­ten­berg leggur til breiðari nálgun á öryggis­mál, á­herslu á þær ógnir sem fylgja lofts­lags­breytingum og mikil­vægi þess að takast á við þær. Sömu­leiðis leggur hann ríka á­herslu á við­náms­þol ríkjanna og á að standa vörð um al­þjóða­kerfið. Á fundinum í dag var rík sam­staða um þessar á­herslur. Í inn­leggi mínu lagði ég sér­staka á­herslu á lofts­lags­vána og mikil­vægi þess að við náum árangri í af­vopnunar­málum.“

Í sömu tilkynningu er svo haft eftir Guðlaugi Þór:

„Mikil sam­staða er um að ríkin þétti raðirnar og mæti þeim öryggis­á­skorunum sem við stöndum frammi fyrir í sam­einingu. Þessi sam­staða og ein­dregin skila­boð frá nýjum stjórn­völdum vestan­hafs um stuðning þeirra við At­lants­hafs­tengslin eru að mínu mati mikil­vægustu skila­boðin af fundinum,“ er haft eftir honum í til­kynningu.

Þessar stuttu yfirlýsingar sem ráðherrarnir tveir láta hafa eftir sér eftir fundinn draga kannski misjafnt viðhorf þeirra til bandalagsins ágætlega fram. 

Katrín leggur áherslu á tillögur Stoltenbergs um aðgerðir í loftslagsmálum, viðnámsþol ríkjanna og að standa vörð um alþjóðakerfið á meðan Guðlaugi Þór finnst stuðningur Bandaríkjanna og þétt samstaða aðildarríkja um að mæta ógn á öryggi sem þau standa frammi fyrir mikilvægustu skilaboð fundarins.

Vilja halda yfirburðum sínum

Hernaðar­upp­bygging Rússa og vaxandi um­svif Kín­verja á al­þjóða­vett­vangi virðast eitt helsta á­hyggju­efni leið­toga banda­lagsins og voru þessi at­riði til um­ræðu í dag.

Í til­lögum Stol­ten­bergs er til dæmis lögð á­hersla á að tækni­legu for­skoti aðildar­ríkjanna sé við­haldið.

Leiðtogarnir sem sóttu fundinn. Katrín og Guðlaugur standa lengst til hægri á myndinni fyrir aftan Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.stjórnarráðið

Biden boðar nýja tíma

Fundurinn í dag var sá fyrsti sem Joe Biden Banda­ríkja­for­seti tekur þátt í eftir að hann tók við em­bætti. Svo virðist sem sú tog­streita sem ein­kenndi sam­skipti Banda­ríkjanna við banda­lagið í stjórnar­tíð Donald Trump heyri sögunni til en hann krafðist þess að aðildar­ríkin ykju fram­lög sín til her- og varnar­mála.

Þessa við­horfs­breytingu Banda­ríkja­manna telur Guð­laugur Þór að standi upp úr eftir fundinn.

Katrín átti svo einnig tví­hliða fundi með Janez Jansa, for­sætis­ráð­herra Slóveníu, Kaju Kallas, for­sætis­ráð­herra Eist­lands og með Ur­sulu von den Leyen, for­seta fram­kvæmda­stjórnar ESB.

Guð­laugur fundaði þá með Sigrid Kaag, utan­ríkis­ráð­herra Hollands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×