Það gerðist í tvígang á tímabilinu, árin 2004 og 2005, að sautján ára stúlka sótti um undanþágu til að giftast 31 árs manni. Tvær stúlkur voru sextán ára þegar þær sóttu um en eiginmannsefnin voru 18 og 23 ára.
Þetta kemur fram í gögnum sem dómsmálaráðuneytið hefur sent allsherjar- og menntamálanefnd í tengslum við frumvarp Andrés Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, um bann við barnahjónabandi.
Í greinargerð með frumvarpinu segir meðal annars að árlega séu um tólf milljónir ungra stúlkna neyddar í hjónaband.
„Þessi útbreidda birtingarmynd kynbundins ofbeldis hefur lengi verið eitt af áhersluatriðum Íslands í þróunarsamvinnu, m.a. með góðum árangri í Malaví og Sambíu í samstarfi við UN Women. Þar sem barnahjónabönd eru algeng er staðan oft sú að nýttar eru undanþáguheimildir hliðstæðar þeim sem hér er lagt til að afnema. Það skýtur skökku við að berjast gegn afleiðingum af glufum í hjúskaparlögum annarra landa en vera með þær í gildi heima fyrir. Því færi vel á því að afnema þessa undanþáguheimild að fullu úr íslenskum lögum.“

Fréttablaðið greindi fyrst frá.