Innlent

Enginn þing­stubbur verði stjórnar­skrár­frum­varp ekki af­greitt

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Katrín lagði breytingartillöguna fram sem almennur þingmaður.
Katrín lagði breytingartillöguna fram sem almennur þingmaður. vísir/vilhelm

Svo gæti farið að þing verði rofið í næstu eða þar næstu viku og ekkert verði af þing­stubbi í ágúst ef stjórnar­skrár­frum­varp for­sætis­ráð­herra verður ekki af­greitt úr nefnd. Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra segir ráð­herra verða að sætta sig við að mörg mál nái ekki fram að ganga fyrir kosningar.

Á­ætlað hafði verið að stjórnar­skrár­frum­varp Katrínar Jakobs­dóttur yrði að hluta eða öllu leyti af­greitt út úr nefnd til annarrar um­ræðu á vor­þingi og þing­fundi síðan frestað. Þriðja um­ræða yrði síðan tekin á svo­kölluðum þing­stubbi í ágúst og þing rofið eftir það.

Katrín var ekki bjart­sýn á að þetta tækist í Víg­línunni í dag.

„Það verður náttúru­lega ekki gert nema það sé til­tölu­lega breið sam­staða um breytingar,“ sagði hún. Það væri erfitt að ná sam­stöðu um slík mál þegar átta flokkar væru á þingi.

Hún sagðist vita að stjórn­skipunar- og eftir­lits­nefnd hefði verið að ræða það á sínum fundum hvort hægt væri að ná sam­stöðu um ein­hver á­kvæði frum­varps hennar. „Ég veit hins vegar ekki hverju það mun skila og það kann vel að vera að það verði ekki vilji til þess og þá það bara þannig.“

En ef ekkert kemur út úr nefndinni núna áður en vor­þing hættir, ertu þá að segja að þar með sé málið bara dautt að sinni og þá verður kannski ó­þarfi að hafa þennan stubb í ágúst?

„Já, ég meina, hann hangir á því hvort við ræðum stjórnar­skrá eða ekki. Hann er ekki bara opinn fyrir öll mál. Það er ekki þannig.“

Mörg ókláruð mál

Katrín virtist þá heldur ekki bjart­sýn á að fá frum­varp um há­lendis­þjóð­garð sam­þykkt, sem var eitt stærsta mál Vinstri grænna við myndun ríkis­stjórnarinnar. „Ég held að við séum öll mjög raun­sæ á það að það eru mjög mörg mál af þessum tugum mála sem eru inni í þinginu sem verður ekki lokið,“ sagði Katrín.

Hún segir að heims­far­aldurinn hafi sett strik í reikninginn og að þessu máli, eins og mörgum öðrum, hafi verið frestað vegna hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×