Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Þar segir að í morgun hafi vakt Veðurstofunnar tekið eftir auknum óróa og gasútstreymi á mælum við eldgosið.
„Stuttu síðar sást spýja brjóta sér leið meðfram útsýnishólnum og loks yfir vestari varnargarðinn. Í gær var sett upp ný vefmyndavél við vestari garðinn, rétt í tæka tíð til þess að mynda framhlaupið,“ segir í tilkynningu.
Elísabet Pálmadóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir í samtali við Vísi að hraunspýja hafi áður farið yfir vestari garðinn, um það bil á sama tíma og eystri varnargarðurinn var rofinn.
„Það var smá spýja og fór rétt fyrir framan garðinn, fór ekki lengra en það. Hraun hefur ekki farið svona langt yfir áður,“ segir Elísabet.
Hún segir atburðarásina í morgun hafa verið nokkuð hraða og að áfram flæði hraun yfir garðinn. Spennandi verði að sjá myndir úr Nátthaga þegar rofi til en slæmt skyggni er nú við gosstöðvarnar, líkt og sést í vefmyndavél Vísis hér fyrir neðan.
Tveir varnargarðar voru reistir í síðasta mánuði sem tilraun til að stemma stigu við hraunflæði frá gosinu en vestari varnargarðurinn hefur þegar verið rofinn. Þá var greint frá því í gær að hraun væri komið yfir gönguleiðina upp á hól sem nýst hefur sem útsýnisstaður við gosstöðvarnar.
Fréttin hefur verið uppfærð.