Mikill samdráttur hefur verið í verkefnum stærstu verkalýðsfélaganna síðasta árið því flest mál sem komið hafa á borð þeirra undanfarin ár hafa verið tengd ferðaþjónustunni, sem hefur að mestu verið óstarfandi í faraldrinum.
„Það hefur verið tiltölulega rólegt hjá okkur undanfarið,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður SGS við Vísi. „En málunum fer að fjölga aftur núna þegar ferðaþjónustan fer á fullt.“
Og það sama er uppi á teningnum hjá Eflingu, sem er auðvitað aðildarfélag SGS. „Það voru þarna ógrynni af málum vegna ferðaþjónustunnar sem hafa dálítið dottið niður núna í faraldrinum,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Flest brot á vinnumarkaði hjá ferðaþjónustufyrirtækjum
Verkalýðshreyfingin hefur lengi gagnrýnt ferðaþjónustuna fyrir brot á vinnumarkaði og léleg kjör starfsmanna. Mikill meirihluti mála sem Efling og SGS hafa rekið fyrir umbjóðendur sína snúast um brot ferðaþjónustufyrirtækja. Sólveig Anna nefnir mál eins og kjarasamningsbrot, launaþjófnað, óásættanlegan aðbúnað, ógreidd orlof og í verstu tilfellum nauðungarvinnu.
Sjá einnig: Ferðaþjónustan æf út í ASÍ
Nú eru félögin hædd um að allt fari aftur í sitt gamla far – eða hreinlega verra: „Það sem við höfum miklar áhyggjur af er að ferðaþjónustan verði endurreist á verri grunni fyrir launafólk en áður var,“ segir Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ).
„Við sjáum merki þess hér og þar nú þegar,“ heldur hún áfram og nefnir kjarasamninga Play og ÍFF sem gott dæmi um þetta.
Sólveig Anna kveðst einnig hafa miklar áhyggjur af endurreisn ferðaþjónustunnar. „Við höfum haft miklar áhyggjur af því að þessi tími faraldursins hafi ekki verið notaður með skynsamlegum hætti til að taka þetta í gegn. Það er hætt við að það fari af stað hálfgert gullgrafaraæði þegar ferðaþjónustan fer aftur af stað þar sem aðalatriðið verður að græða eins mikið og hægt er og þá á kostnað launafólks.“