Innlent

Verka­­lýðs­hreyfingin óttast gull­grafara­æði innan ferða­­þjónustunnar

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Brot at­vinnu­rek­enda á launa­fólki hafa verið mun færri í far­aldrinum enda ferða­þjónustan að mestu ó­starfandi.
Brot at­vinnu­rek­enda á launa­fólki hafa verið mun færri í far­aldrinum enda ferða­þjónustan að mestu ó­starfandi. vísir/vilhelm

For­ystu­fólk verka­lýðs­hreyfingarinnar er ekki sér­lega spennt fyrir því að ferða­þjónustan fari aftur á fullt. Þau eru viss um að brotum á vinnumarkaði taki aftur að fjölga mjög á næstu mánuðum.

Mikill sam­dráttur hefur verið í verk­efnum stærstu verkalýðsfélaganna síðasta árið því flest mál sem komið hafa á borð þeirra undan­farin ár hafa verið tengd ferða­þjónustunni, sem hefur að mestu verið ó­starfandi í far­aldrinum.

„Það hefur verið til­tölu­lega ró­legt hjá okkur undan­farið,“ segir Björn Snæ­björns­son, for­maður SGS við Vísi. „En málunum fer að fjölga aftur núna þegar ferða­þjónustan fer á fullt.“

Og það sama er uppi á teningnum hjá Eflingu, sem er auð­vitað aðildar­fé­lag SGS. „Það voru þarna ó­grynni af málum vegna ferða­þjónustunnar sem hafa dá­lítið dottið niður núna í far­aldrinum,“ segir Sól­veig Anna Jóns­dóttir, for­maður Eflingar.

Flest brot á vinnumarkaði hjá ferðaþjónustufyrirtækjum

Verka­lýðs­hreyfingin hefur lengi gagn­rýnt ferða­þjónustuna fyrir brot á vinnu­markaði og lé­leg kjör starfs­manna. Mikill meiri­hluti mála sem Efling og SGS hafa rekið fyrir um­bjóð­endur sína snúast um brot ferða­þjónustu­fyrir­tækja. Sól­veig Anna nefnir mál eins og kjara­samnings­brot, launa­þjófnað, ó­á­sættan­legan að­búnað, ó­greidd or­lof og í verstu til­fellum nauðungar­vinnu.

Sjá einnig: Ferðaþjónustan æf út í ASÍ

Nú eru fé­lögin hædd um að allt fari aftur í sitt gamla far – eða hrein­lega verra: „Það sem við höfum miklar á­hyggjur af er að ferða­þjónustan verði endur­reist á verri grunni fyrir launa­fólk en áður var,“ segir Drífa Snæ­dal for­seti Al­þýðu­sam­bands Ís­lands (ASÍ).

„Við sjáum merki þess hér og þar nú þegar,“ heldur hún á­fram og nefnir kjara­samninga Play og ÍFF sem gott dæmi um þetta.

Sól­veig Anna kveðst einnig hafa miklar á­hyggjur af endur­reisn ferða­þjónustunnar. „Við höfum haft miklar á­hyggjur af því að þessi tími far­aldursins hafi ekki verið notaður með skyn­sam­legum hætti til að taka þetta í gegn. Það er hætt við að það fari af stað hálf­gert gull­grafara­æði þegar ferða­þjónustan fer aftur af stað þar sem aðal­at­riðið verður að græða eins mikið og hægt er og þá á kostnað launa­fólks.“


Tengdar fréttir

Hvetja landsmenn til að sniðganga flugfélagið Play

Alþýðusamband Íslands hvetur landsmenn til að sniðganga hið nýja flugfélag Play þar til það hefur „sýnt að það ætli að vera hluti af íslenskum vinnumarkaði og bjóða starfsfólki sínu kaup og kjör sem gilda hér á landi,“ eins og segir í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×