Viðskipti innlent

Stjórn ÍFF stígur fram að kröfu Play

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Stjórn stéttar­fé­lagsins hefur harmað það að nöfn stjórnar­manna verði að koma fram.
Stjórn stéttar­fé­lagsins hefur harmað það að nöfn stjórnar­manna verði að koma fram. vísir/vilhelm

„Ég skal vera fyrstur til að viður­kenna það að þetta er afar ó­heppi­legt,“ sagði Birgir Jóns­son, for­stjóri Play í sam­tali við Vísi í dag um það að Ís­lenska flug­stétta­fé­lagið (ÍFF) hafi ekki viljað gefa upp hverjir skrifuðu undir kjara­samninga við Play fyrir fé­lagið. 

Í tilkynningu frá ÍFF segir að ekki hafi allir sem skrifuðu undir samninginn verið í vinnu hjá Play.

Vantaði síðu með undirskriftum

ÍFF sendi þannig inn kjara­samning á ríkis­sátta­semjara í síðustu viku en í af­riti þeirra vantaði síðustu síðuna, þar sem undir­skriftir samnings­aðilanna eru. Í kjöl­farið óskaði ríkis­sátta­semjari eftir undir­rituðum samningum, sem ÍFF sendi loks í dag.

„Þeir vildu fá þarna tíma með lög­fræðingum sínum til að fara yfir þetta. Þeir voru að hugsa um ein­hver per­sónu­verndar­sjónar­mið og voru að velta fyrir sér hvort það væri rétt­lætan­legt að draga nöfn manna inn í þessa um­ræðu, sem hefur farið úr böndunum síðustu daga,“ segir Birgir.

Þegar Vísir náði tali af honum hafði ÍFF enn ekki skilað inn undir­rituðum samningum til ríkis­sátta­semjara og sagðist Birgir hafa í­trekað við fé­lagið að það yrði að senda þá inn í dag. „Ég sagði þeim að annars myndi ég þurfa að gera það. Því þetta lítur bara illa út og kemur illa út fyrir okkur – eins og við hjá Play höfum eitt­hvað að fela, sem við höfum alls ekki.“

Stjórn stéttarfélags vill ekki vera „dregin inn í umræðuna"

Vignir Örn Garðars­son flug­maður er for­maður ÍFF. Hann vildi ekkert gefa upp um það hverjir sætu í stjórn fé­lagsins eða hefðu komið að samninga­borðinu við gerð kjara­samninganna við Play, þegar Vísir innti hann eftir svörum í dag. „Við erum ekki að ræða okkar mál opin­ber­lega,“ sagði hann ein­fald­lega.

Stjórn ÍFF sendi svo frá sér yfir­lýsingu rétt í þessu þar sem með­limir hennar harma „um að nöfn okkar skulu vera dregin inn í um­ræðuna um lög­mæti kjara­samninga fé­lagsins við flug­fé­lagið PLAY."

Samningarnir hafi verið gerðir í góðri trú af lög­lega kosinni stjórn. Undir hana kvitta stjórnar­mennirnir; Vignir Örn Guðna­son for­maður, Frið­rik Már Otte­sen vara­for­maður og Margeir Stefáns­son með­stjórnandi.

Þá er tekið fram að ekki hafi allir þeir sem skrifuðu undir samningana verið í vinnu hjá Play.

Al­þýðu­sam­bandið hefur sagt að ÍFF beri öll merki þess að vera svo­kallað „gult stéttar­fé­lag“ sem gangi erinda at­vinnu­rek­enda gegn hags­munum og lág­marks­kjörum launa­fólks. Þessu hafnar ÍFF og Birgir neitar einnig fyrir þetta.

Tilkynning ÍFF í heild sinni:

Við, stjórn Íslenska flugstéttafélagins, hörmum að nöfn okkar skulu vera dregin inn í umræðuna um lögmæti kjarasamninga félagsins við flugfélagið PLAY. Samningarnir voru gerðir í góðri trú af löglega kosinni stjórn og fulltrúum þeirra, á þeim tíma er fá störf voru við okkar fög á Íslandi. Ríkissáttasemjara hefur verið afhent skjöl þar sem nöfn þeirra sem skrifuðu undir samningana koma fram. Ekki eru allir þeir sem skrifuðu undir samningana í vinnu hjá PLAY. 

Virðingarfyllst, 

Stjórn Íslenska flugstéttafélagsins 

Vignir Örn Guðnason, formaður 

Friðrik Már Ottesen, varaformaður 

Margeir Stefánsson, meðstjórnandi






Fleiri fréttir

Sjá meira


×