Innlent

Segir ríkið mismuna íbúum með engri heilbrigðisþjónustu

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Í Suðurnesjabæ eru byggðakjarnarnir Garður og Sandgerði og þar búa um 3700 íbúar. Fyrir þó nokkrum árum voru heilsugæslustöðvar á báðum stöðum en þeim var lokað.
Í Suðurnesjabæ eru byggðakjarnarnir Garður og Sandgerði og þar búa um 3700 íbúar. Fyrir þó nokkrum árum voru heilsugæslustöðvar á báðum stöðum en þeim var lokað.

Bæjarstjóri Suðurnesjabæjar segir ríkið mismuna íbúum sveitarfélagsins með engri heilbrigðisþjónustu. Um sé að ræða eina sveitarfélagið á landinu þar sem íbúar fái enga heilbrigðisþjónustu í sinni heimabyggð. 

Í Suðurnesjabæ eru byggðakjarnarnir Garður og Sandgerði og þar búa um 3700 íbúar. Fyrir þó nokkrum árum voru heilsugæslustöðvar á báðum stöðum en þeim var lokað.

„Íbúar Suðurnesjabæjar eiga ekki kost á því að njóta heilbrigðisþjónustu í heimabyggð, hvorki er um að ræða heilsugæslu eða staðdvöl fyrir aldraða. Það er einfaldlega engin slík þjónusta á vegum ríkisins og íbúarnir þurfa að sækja sér þjónustu annað,“ segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar. Meðal annars til heilbrigðisstofnunar Suðurnesja en þar sé ástandið ekki gott.

„Það eru hátt í fjögur þúsund manns á Suðurnesjunum sem sækja heilbrigðisþjónustu til heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu vegna ástandsins,“ segir Magnús og bætir við að það eigi meðal annars við um íbúa í Garði og Sandgerði. 

Bæjaryfirvöld hafa unnið að málinu mánuðum saman í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og hafa undanfarna mánuði þrýst á ríkið að bæta úr. Bæjaryfirvöld hafa átt fund með heilbrigðisráðherra.

„Við gerðum grein fyrir okkar sjónarmiðum í þessu eina ferðina enn,“ segir Magnús. 

Hann bendir á að í þessu felist mismunun gagnvart íbúum Suðurnesjabæjar. „Því að lögin segja að íbúar eigi rétt á heilbrigðisþjónustu í sinni heimabyggð. Eftir því sem ég kemst næst þá er Suðurnesjabær eina sveitarfélagið á landinu þar sem er ekki nein heilbrigðisþjónusta veitt íbúunum í sinni heimabyggð, þannig okkur finnst þetta auðvitað ekki ganga upp svona,“ segir Magnús. 

Bæjaryfirvöld muni þrýsta áfram á ríkið. „Að sjálfsögðu gerum við það þangað til að árangur næst í málinu,“ segir Magnús. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×