Íslenski boltinn

„Rétt að byrja en fyrstu kynni eru góð“

Andri Gíslason skrifar
Matthías er fyrirliði FH.
Matthías er fyrirliði FH. vísir/hulda

Matthías Vilhjálmsson, framherji FH-inga var ekki sáttur með frammistöðu liðsins á Kaplakrikavelli í dag er liðið tapaði 2-0 fyrir KR í stórleik 5. umferðar Pepsi Max deildar karla.

„Mér fannst við ekki byrja nógu vel. Við vorum ekki á tánum og langt frá mönnum fyrstu 15-20 mínúturnar. Svo skora þeir eftir hornspyrnu og eftir það erum við bara að reyna að brjóta niður varnarmúrinn og fáum marga möguleika á síðasta þriðjungnum til að skapa eitthvað en gerðum það ekki að neinu ráði. Mér fannst KR-ingar vinna þetta sanngjarnt.“

FH-ingar byrjuðu leikinn ekki vel og fá á sig mark snemma úr hornspyrnu.

„Byrjunin var vonbrigði. Að spila svona stórleik og vera ekki klárir er eitthvað sem við þurfum að laga fyrir næsta leik.“

Töluverður vindur var á annað markið og bætti vel í vindinn í síðari hálfleik.

„Við getum ekki verið að afsaka okkur með því. Við búum á Íslandi og erum vanir þessu þannig við hefðum getað spilað boltanum meira með jörðinni í staðinn fyrir að vera mikið í löngu boltunum. KR-ingar voru bara sniðugir og lokuðu vel á okkur þannig við náðum ekki að brjóta þá niður.“

Eftir langa fjarveru úr deildinni er Matthías spenntur fyrir komandi tímabili og líst honum vel á það sem komið er.

„Það er rosalega gaman. Þetta er krefjandi og skemmtileg áskorun og gaman að spila með vinunum. Þetta er bara rétt að byrja en fyrstu kynni eru góð.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×