Jarðeðlisfræðingurinn Páll Einarsson gagnrýndi framkvæmdirnar í kvöldfréttum Stöðvar 2 á þriðjudag eftir að ríkisstjórnin samþykkti að verja tuttugu milljónum í þær. Hann sagði þetta sóun og að engin leið væri að stöðva hraunið með varnargörðum.
„Já, já og hann hefur alveg rétt fyrir sér að ýmsu leyti,“ sagði Hörn við Stöð 2 þegar hún var innt eftir viðbrögðum við gagnrýni Páls. „Þetta er í rauninni spurningin um það að við erum bara að reyna að tefja framrásina, kaupa okkur meiri tíma og kannski hættir það í millitíðinni þannig við fáum það ekki niður á Suðurstrandarveg eða yfir einhverjar lagnir.
Kannski heldur þetta það lengi áfram að við fáum einhvern Skjaldbreið hér og þá hefur þetta náttúrulega ekkert að segja það sem við erum að gera,“ sagði Hörn.
Hún telur reynsluna sem fæst af verkefninu aðalatriðið: „Það sem skiptir kannski meginmáli er að ef Reykjanesið er vaknað og þetta getur komið upp einhvern tíma annars staðar seinna, þar sem eru mikilvægir innviðir, að við lærum á þetta allt saman þannig við erum þá að reyna núna og fáum ýmislegt svona í farteskið fyrir næstu árin og áratugina kannski.“
Hér má sjá viðtalið við Hörn úr kvöldfréttum Stöðvar 2:
Hraunið nánast komið yfir garðinn
Ríkisstjórnin samþykkti fyrir síðustu helgi að koma upp tveimur fjögurra metra háum varnargörðum á gosstöðvunum. Hún samþykkti síðan á þriðjudag að þeir yrðu hækkaðir upp í átta metra. Markmiðið er að hindra, eða að minnsta kosti að tefja, hraunið í að steypast niður í Nátthaga og þar með í átt að Suðurstrandarvegi.

Vestari varnargarðurinn er orðinn um átta metra hár en sá eystri ekki nema um fjórir. Dálítið af neyðarruðningi var komið fyrir á honum í dag. Þar munar nú mjög litlu að hraunið komist yfir lægstu hluta garðsins.
„Þetta er neyðarruðningur þannig hann er svolítið hólóttur að ofan þannig þar sem hann er lægstur eru þetta kannski 20 til 30 sentímetrar,“ segir Hörn.
Þá er hægfljótandi hrauntunga að síga í átt að vestari stíflunni og vinnur Verkís nú þeim megin við að koma neyðarruðningi fyrir hana.
