Erlent

Fyrr­verandi að­stoðar­kona kærir Man­son fyrir kyn­ferðis­of­beldi og líkams­meiðingar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Walters hefur sakað Manson um kynferðisofbeldi.
Walters hefur sakað Manson um kynferðisofbeldi. Getty/Toni Anne Barson

Ashley Walters, fyrrverandi aðstoðarkona söngvarans Marilyn Manson, hefur kært hann fyrir kynferðisofbeldi og líkamsmeiðingar. Walters sakaði söngvarann opinberlega um ofbeldi í febrúar síðastliðnum en hefur nú kært það til lögreglu. 

Í kærunni kemur fram að Manson hafi verið hræðilegur og ofbeldisfullur yfirmaður. Hann hafi hvatt vini sína til þess að káfa á Walters og kyssa hana og að hann hafi látið hana vinna í allt að 48 klukkutíma í einu.

Manson hefur neitað öllum ásökunum, að sögn lögmanna hans.

Lögmenn Walters halda því fram að Manson hafi nýtt sér stöðu sína og völd til þess að notfæra sér og níðast á fyrrverandi starfsmanni sínum, sem hafi á sínum tíma verið ljósmyndari á uppleið.

Þeir segja Manson hafa lokkað Walters til starfa með því loforði að hann myndi nýta sér völd sín og sambönd í listakreðsum vestanhafs til þess að koma Walters á framfæri.

Að sögn Walters kynntust þau Manson árið 2010, þegar hún var 26 ára gömul og hann 41 árs, í gegn um MySpace. Hún segir Manson hafa sent sér skilaboð á síðunni, þar sem hann dáðist að ljósmyndunum hennar. Í kjölfarið hafi hann boðið henni á heimili sitt í Hollywood til að ræða mögulegt samstarf og skoða listaverk sem hann átti.

Hún segir þá að hún hafi reynt að yfirgefa heimili hans um klukkan tvö um nóttina en hann hafi sagt henni að bíll hennar væri fastur í bílastæðahúsinu til klukkan 7 um morguninn. Þá hafi Manson beðið Walters um að taka ljósmyndir af sér, og að á einum tímapunkti hafi hann beðið hana um að fara úr að ofan. Seinna um nóttina hafi hann svo nauðgað henni.

Manson bauð Walters síðar stöðu aðstoðarmanns og bauðst hann til þess að tvöfalda laun hennar. Þá segir í kærunni að hann hafi lofað henni ljósmyndaverkefnum og ferðalögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×