Gífurlegur viðbúnaður verður hins vegar vegna komu þessara ráðherra, sérstaklega vegna utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Rússlands.
„Við eigum von á því að fólk vilji mótmæla en þá eigum við von á að það verði friðsamleg mótmæli. Fólk á rétt á að mótmæla og lögregla mun liðsinna í því,“ segir Jón.
Ráðherrar frá Norðurlöndum og Kanada verða einnig viðstaddir þennan fund en Jón segir öryggiskröfurnar mismunandi eftir löndum. Mestar eru kröfurnar frá Bandaríkjamönnunum.
„Það er alveg ljóst að þjóðir gera mismunandi öryggiskröfur. Bandaríkjamenn eru þekktir fyrir að gera ítarlegar öryggiskröfur,“ segir Jón. Hann bendir á að íslenskum yfirvöldum beri skylda að tryggja öryggi ráðherranna samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum.
115 lögreglumenn frá embættum Ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi, munu koma að gæslunni.
Mun hún að mestu snúast um umferðarfylgd og gæslu á fundar- og gististöðum. Jón segir viðbúnaðinn álíka og þegar Mike Pence, þáverandi varaforseti Bandaríkjanna, kom til Íslands árið 2019.
Þá verður einnig ítarleg öryggisleit í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu þar sem fundur Norðurskautsráðsins fer fram.
„Þar munu sprengjusérfræðingar og sprengjuleitarhundar verða við leit.“