Íslenski boltinn

FH-ingar manni fleiri í 181 mínútu af 270 í Pepsi Max deildinni í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér má sjá aðstæður á Kaplakrikavelli eftir að Valsmaðurinn Haukur Páll Sigurðsson var rekinn af velli á móti FH.
Hér má sjá aðstæður á Kaplakrikavelli eftir að Valsmaðurinn Haukur Páll Sigurðsson var rekinn af velli á móti FH. Vísir/Hulda Margrét

Allir þrír mótherjar FH-inga til þessa í sumar hafa misst af mann af velli með rautt spjald. HK-ingar þurfa því að passa sig í kvöld ef það eru einhver álög á andstæðingum Hafnarfjarðarliðsins.

FH-ingar geta komist upp í toppsæti Pepsi Max deildar karla í kvöld þegar þeir heimsækja HK-inga í Kórinn í fjórðu umferð Pepsi Max deildar karla í fótbolta.

FH liðið hefur náð í sjö stig af níu mögulegum og skorað átta mörk í þessum fyrstu þremur leikjum.

Það sem er einna athyglisverðast við þessa þrjá leiki eru rauðu spjöld andstæðinganna en í öllum þremur leikjunum hafa mótherjar FH misst mann af velli í fyrri hálfleik.

Það þýðir að FH-liðið er búið að spila manni fleiri í 181 mínútu af 270 í sumar eða 67 prósent leiktímans. Ef við tökum uppbótartíma með inn í myndina þá er þetta meira en tvö hundruð mínútur.

Markatala FH ellefu á móti ellefu er 1-1 en þeir eru 7-1 yfir ellefu á móti tíu.

Fylkismaðurinn Unnar Steinn Ingvarsson fékk seinna gula spjaldið sitt á 36. mínútu eftir að hafa fengið það fyrra tveimur mínútum áður. FH var 1-0 yfir á móti Fylki þegar rauða spjaldið fór á loft en vann leikinn 2-0.

Valsmaðurinn Haukur Páll Sigurðsson fékk beint rautt spjald á 24. mínútu í 1-1 jafntefli FH á móti Val en staðan var þá markalaus.

Skagamaðurinn Hákon Ingi Jónsson fékk sitt annað gula spjald á 29. mínútu eftir að hafa fengið það fyrra þremur mínútum áður. FH var 1-0 undir á móti ÍA þegar rauða spjaldið fór á loft en vann leikinn 5-1.

FH-liðið ellefu á móti ellefu

  • 89 mínútur (33% leiktímans)
  • FH 1 mark
  • Mótherjar 1 mark
  • -

FH-liðið ellefu á móti tíu

  • 181 mínúta (67% leiktímans)
  • [Plús 32 mínútur í uppbótatíma]
  • FH 7 mörk
  • Mótherjar 1 mark



Fleiri fréttir

Sjá meira


×