Innlent

Tveir sautján ára í ofsaakstri

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnst tveir eru grunaðir um akstur undir áhrifum bæði fíkniefna og áfengis.
Minnst tveir eru grunaðir um akstur undir áhrifum bæði fíkniefna og áfengis. Vísir/Vilhelm

Lögregluþjónar mældu bíl á 160 kílómetra hraða á Miklubrautinni á öðrum tímanum í nótt en hámarkshraði þar er 80 kílómetrar á klukkustund. Þegar bíllinn hafði verið stöðvaður reyndist ökumaður hans sautján ára gamall.

Sá var færður á lögreglustöð og sviptur ökuréttindum, samkvæmt dagbók lögreglu. Þá var forráðamanni hans tilkynnti málið og einnig Barnavernd.

Skömmu áður hafði annar sautján ára ökumaður verið stöðvaður í Ártúnsbrekkunni eftir að hafa verið mældur á 146 kílómetra hraða. Þar er einnig 80 kílómetra hámarkshraði en það mál var einnig tilkynnt forráðamanni ökumannsins og til Barnaverndar.

Þá er ökumaður sem stöðvaður var í miðbænum í gærkvöldi grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þar að auki hefur sá ítrekað verið sviptur ökuréttindum og gaf hann upp nafn og kennitölu annars manns.

Sama var upp á teningnum þegar lögreglan stöðvaði ökumann skömmu fyrir klukkan fimm í nótt. Sá var einnig undir áhrifum bæði fíkniefna og áfengis og hafði ítrekað verið sviptur ökuréttindum.

Minnst þrír aðrir ökumenn voru stöðvaðir í nótt, grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Þar af einn sem hefur ítrekað verið stöðvaður áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×