Innlent

Brotist inn í skartgripaverslun í miðborginni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísir/Vilhelm

Rétt fyrir miðnætti í nótt barst lögreglu tilkynning um að innbrot í skartgripaverslun stæði yfir í miðborginni. Rúða var brotin og skarti stolið en maður handtekinn með þýfið skömmu síðar. Var hann vistaður í fangageymslu.

Fyrr um kvöldið var tilkynnt um innbrot í hús í hverfi 210 en húsráðendur höfðu brugðið sér af bæ yfir helgina. Farið var inn og verðmætum stolið. 

Þá voru afskipti höfð af manni í hverfi 200 sem grunaður er um þjófnað úr verslun en samkvæmt dagbók lögreglu er þetta hvorki í fyrsta né annað sinn sem viðkomandi er staðinn að hnupli.

Skömmu eftir miðnætti var tilkynnt um menn að brjótast inn í bifreið í hverfi 108. Einn var handtekinn á vettvangi og maður og kona skömmu síðar. Fólkið er meðal annars grunað um brot á vopnalögum og var vistað í fangageymslum vegna rannsóknar málsins.

Þá var tilkynnt um umferðaróhapp í hverfi 200, þar sem stungið var af. Lögregla hafði afskipti af ökumanni og farþega skömmu síðar og eru þeir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis, akstur án gildra ökuréttinda, vörslu fíkniefna og fyrir að hafa ekki gert ráðstafanir við umferðaróhapp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×