Hákon Ingi Jónsson var rekinn af velli í leiknum gegn FH í gær eftir að hafa fengið tvö gul spjöld með þriggja mínútna millibili. Þá var staðan 0-1, ÍA í vil. FH jafnaði mínútu eftir að Hákon fékk rauða spjaldið og vann leikinn svo 5-1.
Ísak Snær Þorvaldsson var einnig rekinn af velli í 2-0 tapinu fyrir Val í 1. umferðinni eftir að hafa fengið tvö gul spjöld með stuttu millibili.
„Þetta er alveg rosalega vitlaust og mikið ofboðslega mega Jói Kalli og þeir sem koma að Skagaliðinu vera svekktir út í þennan dreng að gera þetta svona,“ sagði Atli Viðar um seinna gula spjaldið sem Hákon fékk fyrir að brjóta Gunnari Nielsen, markverði FH.
„Þetta er annar leikurinn þar sem þeir fá rautt spjald. Auðvitað er hægt að segja að öll rauð spjöld séu vitleysa en stundum eru þau ekki vitleysa. Ég fer ekkert ofan af því. En hvar er spennustig leikmanna? Af hverju haga leikmennirnir sér svona?“ spurði Ólafur forviða.
„Þetta er náttúrulega ekkert eðlilegt. Þessi tvö spjöld, þetta er ekkert eðlilegt. Þú getur farið einu sinni í markvörðinn, þrumað í hann og svona og þá hefurðu smá yfirburði næst þegar þú mætir honum. En þetta er úti í hött. Spennustigið hjá liðinu er ekki rétt.“
ÍA er á botni Pepsi Max-deildarinnar með eitt stig. Næsti leikur Skagamanna er gegn Stjörnumönnum á mánudaginn.

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.