Körfubolti

„Ég held að hann sé aldrei að fara að spila í 1. deildinni“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson verður örugglega eftirsóttur í sumar.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson verður örugglega eftirsóttur í sumar. Vísir/Vilhelm

Sérfræðingarnir í Domino´s Körfuboltakvöldi veltu fyrir sér í hvaða leikmenn Hattar og Hauka hin liðin munu hringja nú þegar Höttur og Haukar spila ekki í Domino´s deildinni næsta vetur.

Sjaldan hafa eins sterk lið fallið úr Domino´s deildinni og í vetur enda deildin gríðarlega sterk. Leikmannahópar Hattar og Hauka höfðu að öllu eðlilegu átt að skila þessum liðum inn í úrslitakeppnina en í staðinn þurftu þau bæði að sætta sig við fall.

Kjartan Atli Kjartansson var með sérfræðingana Benedikt Guðmundsson og Teit Örlygsson í síðasta uppgjörsþætti deildarinnar. Kjartan Atli fékk þá til að velta fyrir sér framtíðinni hjá leikmönnum Hattar og Hauka og spurði þá hverjir þeirra eigi heima í úrvalsdeildinni.

„Nánast allir, viltu að ég þylji þá alla upp,“ svaraði Benedikt Guðmundsson.

„Þetta eru bara tvö úrvalsdeildarlið, Domino´s deildarlið sem eiga bara heima í þessari deild í heild sinni,“ sagði Benedikt og Teitur Örlygsson segir að það bíði liðunum sem koma upp mjög krefjandi verkefni.

Breiðablik er komið upp og hitt liðið kemst upp í gegnum þessa úrslitakeppni. „Þau þurfa að styrkja sig svaðalega,“ spurði Kjartan Atli og beindi spurningu sinni á Teit.

„Þau þurfa að gera ansi mikið til þess að vinna leik eins og deildin var núna. Það er ekkert öðruvísi og það er mikið verk framundan hjá þessum liðum sem eru að koma upp,“ sagði Teitur.

Kjartan Atli nefndi sérstaklega Sigurð Gunnar Þorsteinsson sem dæmi um leikmann sem verður eftirsóttur í sumar nú þegar lið hans Höttur er fallið í 1. deildina.

„Ég held að hann sé aldrei að fara að spila í 1. deildinni. Það kæmi verulega á óvart,“ sagði Benedikt.

Kjartan Atli fékk líka þá Benedikt og Teit til að segja hvaða lið ollu mestu vonbrigðum, hvaða lið komu mest á óvart og hverjir stóðu sig best af leikmönnum deildarinnar. Það má sjá alla framlenginguna hér fyrir neðan.

Klippa: Domino´s Körfuboltakvöld: Hverjir komu á óvart og hverjir stóðu sig best



Fleiri fréttir

Sjá meira


×