Undirbúningur á kaupunum hófst í apríl á síðasta ári og í byrjun þessa árs höfðu forsprakkar rafíþrótamótsins MSI, eða Mid Season Invitational, samband við fyrirtækin og óskuðu eftir því að fá að leigja skjáinn.
„Þá þurftum við að hafa hraðar hendur, ef við ætluðum að ná skjánum inn fyrir mótið, því það tekur töluverðan tíma að framleiða þetta magn, klára gæðaprófanir og flytja skjáinn inn til landsins,“ segir Karl Sigurðsson, framkvæmdastjóri Luxor.
Skjárinn er kominn upp í Laugardalshöll en MSI mótið hófst þar í gær og mun standa yfir til 23. maí.
„Framleiðendur rafíþróttamótsins gera mjög strangar kröfur um þéttleika, gæði, magn og tegund þeirra LED skjáa sem þeir velja í keppnirnar sínar og okkur tókst að uppfylla öll þau skilyrði,“ segir Karl.
„Enda er þéttleiki hans 2,9mm sem er þéttara en aðrir skjáir sem eru þegar til á landinu. Skjárinn er einnig 20.338.000 pixlar en til að setja það í samhengi er hefðbundin 4K upplausn 8 milljónir pixla ásamt því að hann er HDR eins og nýjustu sjónvörp á markaðnum í dag.“