Innlent

Misstu stjórn á hjólunum á gölluðu og hálu mal­bikinu

Atli Ísleifsson skrifar
Slysið varð þann 28. júní síðastliðinn. Fjórum bifhjólum var þá ekið suður Vesturlandsveg í átt til Reykjavíkur og missti ökumaður fremsta hjólsins stjórn á hjóli sínu á hálu nýlögðu malbiki og féll hjólið í götuna.
Slysið varð þann 28. júní síðastliðinn. Fjórum bifhjólum var þá ekið suður Vesturlandsveg í átt til Reykjavíkur og missti ökumaður fremsta hjólsins stjórn á hjóli sínu á hálu nýlögðu malbiki og féll hjólið í götuna. RNSA

Rannsóknanefnd samgönguslysa hefur nú birt skýrslu sína um banaslysið sem varð á Vesturlandsvegi í júní síðastliðinn þar sem 54 ára karlmaður og 53 ára kona létust. Þar kemur fram að ökumaður bifhjólsins hafi misst stjórn á hjólinu á hálu vegyfirborðinu svo bifhjólið féll á hliðina og rann yfir á öfugan vegarhelming í veg fyrir húsbifreið.

Í orsakagreiningakafla skýrslunnar kemur fram að umferð á veginum hafi verið heimiluð þó að grunur hafi verið uppi um að nýlagt malbik hafi ekki uppfyllt kröfur um vegviðnám. Þá hafi nýlagt malbikið ekki staðist gæðakröfur verkkaupa, það er Vegagerðarinnar, og verið of hált sökum bikblæðinga. Útboðskröfur hafi heldur ekki verið uppfylltar við framkvæmdirnar.

Mikið var fjallað um slysið síðasta sumar og haust þar sem sjónir manna beindust að gæði malbiks og umferðaröryggi bifhjólafólks.

Yfirborðið blautt og hált

Slysið varð skömmu eftir klukkan 15 sunnudaginn 28. júní síðastliðinn. Fjórum bifhjólum var þá ekið suður Vesturlandsveg í átt til Reykjavíkur og missti ökumaður fremsta hjólsins stjórn á hjóli sínu á hálu nýlögðu malbiki og féll hjólið í götuna. 

Auk ökumanns var einn farþegi á hjólinu og runnu hjólið, ökumaðurinn og farþeginn yfir á rangan vegarhelming framan á húsbíl sem ekið var úr gagnstæðri átt. Bæði ökumaður og farþegi bifhjólsins létust í slysinu. Ökumaður næstfremsta bifhjólsins missti sömuleiðis stjórn á hjóli sínu vegna ástands malbiksins, rann út af veginum og slasaðist.

Umferð á Vestulandsvegi hafði þar verið nokkuð þétt og þá hafði rignt skömmu fyrir slysið, en það var að stytta upp um það leyti er slysið varð. Vegyfirborðið var blautt og missti ökumaður bifhjólsins stjórn á hjólinu eftir að hafa ekið um 1,3 kílómetra á nýlögðu malbikinu.

Vegyfirborð rétt eftir slysið. Bindiefnið í malbikinu hafði komið upp á yfirborðið við völtun og þunga frá umferð, við það mynduðust stórir samfelldir feitir blettir á veginum sem urðu afar hálir eftir rigningu.RNSA

Í skýrslunni kemur fram að leyfður hámarkshraði á vettvangi sé 90 kílómetrar á klukkustund, en vitni greina frá því að vegna umferðarþunga hafi ökuhraði bifhjólsins um og yfir 80 km/klst. Sé sennilegt að ökumenn bifhjólanna og húsbifreiðarinnar hafi fylgt þeim umferðarhraða.

Miklar blæðingar

Umræddur vegkafi, 1,8 kílómetrar að lengd, hafði verið malbikaður þremur dögum fyrir slysið. Var þar notast við svokallaða endurmalbikunaraðferð („repave“), sem byggi á því að gamla malbikið er hitað og nokkrir sentimetrar af því skrapaðir upp. Lausa malbikið sé svo jafnað út og nýtt malbik lagt yfir það lag. Malbikslagningin er síðan völtuð með valtara. Með aðferðinni er gamalt malbik endurunnið og minna magn af nýju malbiki notað í framkvæmdina.

„Á slysdegi sáust miklar blæðingar á vegkaflanum þar sem slysið varð. Stórir feitir blettir voru í hjólförum akreina í báðar áttir. Vitni og viðbragðsaðilar sem komu á vettvang greina frá því að blautt yfirborðið hafi verið mjög hált,“ segir í skýrslunni. Ennfremur segir að viðnámsmælingar á slysstað hafi staðfest að malbikið hafi ekki staðist útboðskröfur veghaldara.

Viðvörunarskilti lítið áberandi

Í skýrslunni er einnig tekið fram að morguninn eftir að malbikið var lagt hafi eftirlitsmaður óskað eftir að viðvörunarskilti yrðu sett upp til að vara vegfarendur við hálum vegi vegna blæðinga sem sáust. Hámarkshraði á vegkaflanum var hins vegar ekki lækkaður fyrr en eftir slysið þegar Vegagerðin setti upp 50 km/klst hámarkshraðaskilti. 

„Viðvörunarskiltin sem sett voru upp voru svokölluð vinnusvæðaskilti, en þau eru lægri en hefðbundin skilti og því mögulega síður áberandi. Mörg vitni sem voru þarna á ferðinni greindu frá því að þau hefðu ekki veitt viðvörunarskiltunum eftirtekt.“

Í tillögukafla skýrslunnar kemur fram að nefndin beini því til Samgöngustofu að hún taki til skoðunar hvort að þörf sé á bindandi reglum um öryggisúttektir að loknum viðhalds- og nýframkvæmdum á vegum.

Þá er því jafnframt beint til framleiðanda malbiksins að yfirfara alla verkferla og gæðaeftirlit með malbiksframleiðslu sinni. Sömuleiðis er því beint til verktakans að yfirfara verkferla sína og gæðakerfi við malbikunarframkvæmdir.


Tengdar fréttir

Bif­hjóla­menn mót­mæltu við Vega­gerðina

Bifhjólamenn koma saman við húsnæði Vegagerðarinnar í Borgartúni klukkan 13 þar sem til stendur að mótmæla hættulegum vegköflum á vegum landsins og úrbóta krafist.

Segir nánast allt að sem við kemur malbikun

„Þegar maður horfir á þessi mál og sér hvernig aðrar þjóðir gera þetta þá bara erum við bara að sjá allt aðra afurð hér þegar við tölum um slitlag á vegum,“ segir Ólafur Guðmundsson umferðarsérfræðingur Bítisins á Bylgjunni í þættinum í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×