Lyfið Apetamin er bannað í Bretlandi en hægt er að versla það á vefsíðum og láta senda til landsins samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins. Lyfið er sagt stuðla að því að líkamar verði eins og stundarglas í laginu sem margar stjörnur stæra sig af, eins og Cardi B og Kim Kardashian.
Heilbrigðisstofnun Englands, NHS, sendi opið bréf á Instagram á dögunum og sagðist hafa áhyggjur af neikvæðum áhrifum auglýsinga á lyfinu á andlega- og líkamlega heilsu fólks.
Lyfið veldur lystarauka og segja heilbrigðisstarfsmenn að ofnotkun á því geti valdið alvarlegri þreytu, gulu og jafnvel lifrarbilun.
Apetamin er mikið auglýst af áhrifavöldum og er það auglýst sem auðveld leið til þess að bæta á sig kílóum í von um að ná hinu svokallaða stundarglass-vaxtarlagi.
Instagram sagði í yfirlýsingu að það hafi tekið niður og bannað aðganga sem auglýstu og seldu Apetamin í kjölfar þess að BBC Three gaf út heimildarmyndina Dangerous Curves, sem var frumsýnd 21. apríl síðastliðinn.
Síðan þá segist NHS reyndar hafa fundið tugi Instagram-aðganga sem enn selja efnið og að þegar það hafi verið tilkynnt Instagram hafi ekkert verið í því gert.