Erlent

Afglæpavæða þungunarrof í kjölfar nauðgunar

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá mótmælum kvennréttindasamtaka í Ekvador.
Frá mótmælum kvennréttindasamtaka í Ekvador. AP/Dolores Ochoa

Stjórnlagadómstóll Ekvador hefur komist að þeirri niðurstöðu að lagaákvæði sem banni þungunarrof í kjölfar nauðgunar brjóti gegn stjórnarskrá landsins. Sjö dómarar voru á þessu máli, gegn tveimur en rætur þess má rekja til baráttu kvennréttindasamtaka í Ekvador.

Eins og er, er þungunarrof eingöngu heimilt í tilfellum þar sem andlega fötluðum konum hefur verið nauðgað eða þar sem þungunin ógnar lífi móðurinnar. Í grein BBC segir að úrskurður dómstólsins opni á það að lögum verði breytt.

Íhaldssemi er mikil í Suður-Ameríku og viðhorf til þungunarrofs mjög neikvætt. Þau eru eingöngu heimil í Argentínu, Úrúgvæ, Kúbú, Gvæjönu og hlutum Mexíkó. Þungunarrof í kjölfar nauðgunar er þó heimilt í Bólivíu, Brasilíu, Kólumbíu, Panama og Síle.

Í Ekvador geta konur verið dæmdar til þriggja ára fangelsisvistar fyrir að gangast þungunarrof. Það hefur leitt til þess að konur og jafnvel stúlkur hafi gengist ólöglegar aðgerðir við slæmar aðstæður og lítið öryggi.

Á milli 2008 og 2018 fæddu um tuttugu þúsund stúlkur undir fjórtán ára aldri börn í landinu, samkvæmt réttindasamtökum sem BBC vitnar í. Þau segja einnig að um fjórðung fæðinga stúlkna og kvenna á aldrinum fimmtán til nítján séu til komnar vegna nauðgana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×