Gert er ráð fyrir að bóluefnið muni berast til landsins um helgina og fari í dreifingu í næstu viku. Afhendingaráætlun og bólusetningardagatal verða uppfærð til samræmis eftir helgi, segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Sóttvarnalæknir hefur gefið þau fyrirmæli að nýta eigi bóluefnið til einstaklinga yfir 60 ára. Samningurinn við Norðmenn er sagður munu styrkja enn frekar bólusetningaráætlun Íslands.
Norðmenn létu af notkun AstraZeneca í mars og hafa enn ekki hafið bólusetningar með efninu á ný, eins og fjöldi þjóða.
Samkvæmt Norsku lýðheilsustofnuninni er enn verið að meta hvenær bólusetning getur hafist á ný og þá hvort hún geti það yfirleitt. Norskir læknar hafa haft áhyggjur af því að áhættan á alvarlegum aukaverkunum geti verið meiri en ávinningurinn af notkun bóluefnisins.
Íslendingar fá 8% af AstraZeneca-bóluefni Norðmanna, sem eiga 200.000 ónotaða skammta á lager samkvæmt þessu.