Skoðun

Fjár­mála­ráð­herra segir ASÍ stoppa það af að launa­fólk fái val um að ráð­stafa 3,5% ið­gjaldi í frjálsan við­bótar­sparnað!

Vilhjálmur Birgisson skrifar

Ég hlustaði vel og rækilega á umræður á Alþingi í gær þar sem breytingar á lágmarksiðgjaldi í lífeyrissjóði voru til umræðu. Það kom margt afar forvitnilegt fram í máli fjármálaráðherra sem talaði fyrir frumvarpinu.

En í einu af andsvörum sagði Bjarni Benediksson fjármálaráðherra að hann persónulega væri sammála því að launafólk hefði val um að setja 3,5% af 15,5% iðgjaldi í frjálsan viðbótarsparnað. Hann sagði hátt og skýrt að hann hefði ekkert á móti því.

Það kom einnig fram í andsvari hjá fjármálaráðherra að í fyrstu hafi það einnig verið hugmyndir Samtaka atvinnulífsins að launafólk hefði frjálst val um að setja 3,5% í frjálsan viðbótarsparnað. Síðan sagði fjármálaráðherra með miklum þunga að það væri Alþýðusamband Íslands sem vildi það alls ekki og sé búið að leggja á sig margra ára vinnu við að launafólk fái ekki þetta val.

Að hugsa sér að þegar iðgjaldið var hækkað um 3,5% árið 2016 vildu Samtök atvinnulífsins að launafólk hefði val um að setja þessa viðbót iðgjaldsins í frjálsan viðbótarsparnað.

Rétt hjá fjármálaráðherra

En það er Alþýðusamband Íslands sem hefur komið í veg fyrir að launafólk hafi þetta val og ég veit að þetta er rétt hjá fjármálaráðherra þegar hann segir að ASÍ sé búið að leggja á sig margra ára vinnu við að þetta fari helst allt í samtrygginguna eða með takmörkunum í einhverja tilgreinda séreign.

Af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að þegar ég var fyrsti varaforseti ASÍ þá var ég að berjast fyrir því að launafólk hefði þetta frjálsa val. Enda tel ég að það að sé vilji hjá stórum hluta félagsmanna ASÍ að hafa slíkt val um ráðstöfun á sínum lífeyri. Það liggur hins vegar fyrir að lítill hópur innan ASÍ hefur alltaf viljað að þetta fari allt í samtrygginguna. En hvernig væri að spyrja launafólk um hvort það vilji hafa val um að setja 3,5% í frjálsan viðbótarsparnað og ég ítreka það að ég tel gríðarlegan stuðning hjá almennu launafólki við að hafa slíkt val.

Ég veit alla vega ekki um neinn launamann sem stekkur hæð sína yfir því að hafa ekki val um hvernig hann ráðstafar sínum lífeyrisréttindum.

Það hefur verið ákall frá almenningi um að einfalda lífeyriskerfið, ætlar einhver að halda því fram að verið sé að einfalda lífeyriskerfið með þessari lagasetningu? Nei, það er alls ekki verið að gera það enda kallar þessi breyting á enn meira flækjustig þar sem verið er að búa nýjan bastarð sem heitir tilgreind séreign.

Það er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að allt framlagið renni óáreitt inní samtrygginguna, en ef vilji sjóðfélaga sé til að nýta sér úrræðið um tilgreinda séreign skuli hann óska eftir slíkri ráðstöfun við þann lífeyrissjóð sem tekur við iðgjaldi hans til öflunar lífeyrisréttinda í sameign.

Fyrir hvern er Alþýðusamband Íslands að vinna? Nú liggur fyrir að bæði fjármálaráðherra og Samtök atvinnulífsins hafa ekkert á móti því að launafólk fái val um að ráðstafa 3,5% í frjálsan viðbótarsparnað, nei það er ASÍ sem stoppar málið af!

Höfundur er formaður Verkalýðsfélags Akraness. 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×