Fótbolti

Hákon sagður fara til eins besta liðs Svíþjóðar

Sindri Sverrisson skrifar
Hákon Rafn Valdimarsson lagði sig allan fram með Gróttu á síðustu leiktíð og hefur vakið athygli erlendra félaga.
Hákon Rafn Valdimarsson lagði sig allan fram með Gróttu á síðustu leiktíð og hefur vakið athygli erlendra félaga. vísir/hag

Hinn 19 ára gamli Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður Gróttu og U21-landsliðsins, er á leið í atvinnumennsku ef að líkum lætur.

Viðræður á milli sænska úrvalsdeildarfélagsins Elfsborg og Gróttu hafa gengið vel, samkvæmt frétt mbl.is í dag. Fyrir þremur vikum greindi Fótbolti.net frá miklum áhuga sænska félagsins og mbl.is segir að búast megi við því að Hákon skrifi undir samning á allra næstu dögum.

Elfsborg varð í 2. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð. Félagið hefur sex sinnum orðið Svíþjóðarmeistari, síðast árið 2012 en þá var Skúli Jón Friðgeirsson leikmaður þess.

Hákon og Gróta léku sína fyrstu leiktíð í efstu deild á Íslandi í fyrra en liðið féll aftur niður. Hákon á að baki þrjár heilar leiktíðir með Gróttu, hverja í sinni deildinni en hann fór með liðinu upp úr 2. deild árið 2018 og úr 1. deild 2019.

Hákon á að baki þrjá leiki fyrir yngri landslið Íslands og var einn þriggja markmanna sem fóru með U21-landsliðinu í lokakeppni EM í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×