Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar í London en Markaðurinn greinir frá þessu. Tilkynnt var í lok mars að hópur fjárfesta á Íslandi sem Birgir Bieltvedt fer fyrir hafi lokið kaupum á rekstrinum. Reiknað er með að salan gangi í gegn í maí.
Samanstendur hópurinn af Eyju fjárfestingarfélagi, sem er í eigu Birgis, Kristni, sem er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, Sjávarsýn í eigu Bjarna Ármannssonar og Lýsi, sem er meðal annars í eigu Gunnlaugs S. Gunnlaugssonar og Katrínar Pétursdóttur. Samþykki Samkeppniseftirlitsins þarf fyrir sölunni.
Domino’s Pizza Group plc í Bretlandi, setti íslenskt rekstrarfélag Domino’s, Pizza Pizza ehf., í formlegt söluferli á síðasta ári. Fjárfestahópur sem Þórarinn Ævarsson, stofnandi pizzustaðarins Spaðans, fór fyrir gerði sömuleiðis tilraun til að kaupa reksturinn á Íslandi.
Er þetta í þriðja sinn sem Birgir kemur inn í rekstur Domino‘s en hann kom að stofnun fyrirtækisins hér á landi á tíunda áratugnum. Árið 2005 seldi hann hlut sinn í fyrirtækinu en keypti það svo aftur árið 2011 af Landsbankanum sem hafði tekið fyrirtækið yfir vegna slæmrar skuldastöðu.
Árin 2016 og 2017 keypti svo Domino‘s Group í Bretlandi fyrirtækið í tveimur skrefum af Birgi og öðrum hluthöfum.
Tekjur Domino‘s á Íslandi námu 20,5 milljónum punda í fyrra, jafnvirði 3,7 milljarða króna miðað við þáverandi gengi. Rekstrarhagnaður var liðlega 100 milljónir en tekjur fyrirtækisins drógust saman um 17% á síðasta ári.