Líkt og kunnugt er stendur til að halda keppnina í ár og nú liggur fyrir að 3.500 áhorfendur fái að vera viðstaddir í persónu. Það þýðir að aðeins verður hægt að nýta helming tónleikahallarinnar og þá verður gerð krafa um að áhorfendur sýni fram á neikvætt covid-19 próf áður en þeim verður hleypt inn að því er fram kemur í frétt BBC.
Eins og frægt er orðið eru það Daði Freyr og Gagnamagnið sem munu flytja lagið 10 Years fyrir Íslands hönd í Eurovision í Rotterdam í maí.
Skipuleggjendur keppninnar fagna ákvörðuninni og segja að nú verði skoðað hvernig hægt verði að útfæra viðburðinn með tilliti til þessa. Nánar verði greint frá því á næstu vikum hvernig hægt verði að leyfa áhorfendum með öruggum hætti að sækja Ahoy-tónleikahöllina til að fylgjast með viðburðinum, ef aðstæður leyfi.
Öryggi og heilsa þeirra sem sæki keppnina verði áfram í „algjörum forgrunni“ og að allir keppendur og sendinefndir landanna sem taka þátt þurfi að fylgja ströngum reglum.
Strangar sóttvarnaaðgerðir hafa verið í gildi í Hollandi en Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, tilkynnti í síðustu viku að takmarkanir yrðu framlengdar um þrjár vikur, eða þar til undir lok aprílmánaðar.