Innlent

Smitin tengjast skólunum og meðal­aldur smitaðra er 17 ára

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að nokkur börn séu í hópi þeirra sem greindust með veiruna í gær og í fyrradag.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að nokkur börn séu í hópi þeirra sem greindust með veiruna í gær og í fyrradag. lögreglan/Júlíus Sigurjónsson

Sex manns greindust með kórónuveiruna hér á landi síðastliðinn sólarhring og aðeins einn var utan sóttkvíar. Meðalaldur smitaðra er 17 ára.

„Þessir fimm í sóttkví eru aðilar sem tengjast smitum í skólum sem hafa komið upp. Og svo er einn fyrir utan sóttkví sem við vitum ekki hvernig smitast og við þurfum að skoða líka raðgreininguna hjá honum sem kemur síðar,“ segir Þórólfur en allir sem hafa greinst með veiruna undanfarnar vikur hafa verið með breska afbrigðið.

Nokkur börn eru í hópi þeirra sem greindust með Covid-19 í gær og í fyrradag. Þrjú börn í Ísaksskóla eru meðal þeirra. Börnin voru öll í sóttkví að sögn Þórólfs.

„Meðalaldur þeirra sem greindust í gær er 17 ár en ég veit ekki nákvæmlega dreifinguna. Aldursbilið er átta ára til þrítugs,“ segir Þórólfur.

Staðan á Landspítala er góð að sögn Þórólfs en einn liggur á spítala. „Það tekur eina til tvær vikur að sjá alvarleg veikindi í kjölfarið á því að við sjáum fjölgun á greindum tilfellum. Það kemur ekki fyrr en síðar, þannig það þarf ekki að þýða neitt. Við gætum átt eftir að sjá fjölgun á tilfellum og það kæmi mér ekki á óvart,“ segir Þórólfur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×