Innlent

Krummi sem heldur að hann sé hundur

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Jóhann Helgi og Dimma, sem eru miklir vinir og ná vel saman.
Jóhann Helgi og Dimma, sem eru miklir vinir og ná vel saman. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hrafninn Dimma heldur að hann sé hundur því henni þykir ekkert meira skemmtilegt en að leika við Rjúpu, sem er sextíu kíló hundur á heimili við Elliðavatn.

Jóhann Helgi Hlöðversson og Margrét Ormsdóttir búa við Elliðavatn steinsnar frá höfuðborgarsvæðinu með nokkra hunda og taminn krumma, sem Jóhann Helgi sér um og hefur þjálfað með góðum árangri. Dimma er árs gömul og fór í fóstur til þeirra hjóna eftir að dýralæknir hafði fengið hana í hendur eftir óhapp á íþróttasvæðinu á Selfossi. Hún var fljót að jafna sig.

„Hún er ljúf og blíð en hún er náttúrulega hrafn“, segir Jóhann Helgi.

Rjúpa, sem er 60 kílóa hundur, Stóri Dan og Dimma eru bestu vinir og leika sér saman alla daga enda heldur Dimma oft að hún sé hundur.

En hvað fær Dimma að éta?

„Bara allt sem við borðum. Hrafnar eru alætur, jú hún er frábær. Eins og hún og tíkin, þar er jafnvægið alveg upp á tíu. Tíkin er ekkert að kippa sér upp við það þó að Dimma sé að bíta í skottið á henni og lappirnar og tíkin böggast jafn mikið í hrafninum í hundrað prósent jafnvægi og þær elska hvor aðra, elska að stríða hvor annarri og elska að hanga saman og leika eins og hundar gera,“ segir Jóhann Helgi.

Dimma og Jóhann Helgi bregða oft á leik enda fulginn einstaklega gæfur og góður.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvor er skemmtilegri, hundurinn eða Dimma?

„Dimma er miklu gáfaðri, hún er miklu fljótari að læra heldur en Rjúpa, það er engin spurning“, segir Jóhann Helgi hlægjandi.

Rjúpa er stór og fallegur sextíu kílóa hundur, sem er besti vinur Jóhanns Helga og hrafnsins Dimmu.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×