Fótbolti

Nokkur smit í liði Söru og stórleiknum frestað

Sindri Sverrisson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir í leik með Lyon gegn Juventus í Meistaradeildinni, fyrr á þessari leiktíð.
Sara Björk Gunnarsdóttir í leik með Lyon gegn Juventus í Meistaradeildinni, fyrr á þessari leiktíð. Getty/Giuseppe Cottini

Seinni leik Lyon og PSG í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu hefur verið frestað vegna kórónuveirusmita í herbúðum Lyon.

Samkvæmt tilkynningu frá knattspyrnufélaginu Lyon greindust fjögur smit í liðinu í gær. Þau bætast við tvö smit sem greindust í lok síðustu viku. Því fór félagið fram á að leiknum yrði frestað.

Ekki er ljóst hvort að landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir er ein af hinum smituðu.  

Sara á hins vegar við meiðsli að stríða, samkvæmt tilkynningu frá KSÍ í gær, og hefði því ekki getað spilað leikinn á morgun. Hún varð að draga sig út úr landsliðshópnum sem fer til Ítalíu á næstunni til að spila tvo vináttulandsleiki.

Lyon er 1-0 yfir í einvígi sínu við PSG eftir útisigur í fyrri leik liðanna. Ekki er ljóst hvenær seinni leikurinn fer fram. Lyon á titil að verja í keppninni líkt og undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×