Tryggvi Gunnarsson baðst lausnar sem umboðsmaður Alþingis í febrúar síðastliðnum, en hann hefur gegnt embættinu frá 1998 eða í 23 ár. Hann mun láta af störfum fyrir lok apríl mánaðar.
Í tilkynningu á heimasíðu Alþingis segir að undirnefnd forsætisnefndar hafi skipað ráðgjafarnefnd sem verði innan handar við að tilnefna einstakling í embættið.
Eftirtaldir sérfræðingar skipa ráðgjafarnefndina: Helgi I. Jónsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, sem er jafnframt formaður nefndarinnar, Herdís Pála Pálsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og mannauðsstjóri Deloitte, og Kristín Benediktsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Starfsmaður nefndarinnar er Heiðrún Pálsdóttir, ritari forseta Alþingis.
Undirnefnd forsætisnefndar og ráðgjafarnefndin starfa samkvæmt verklagsreglum sem forsætisnefnd hefur sett og gilda um undirbúning fyrir kosningu umboðsmanns og ríkisendurskoðanda.