Það er ekki hægt að segja að Hjálmar og Auðunn séu reynsluboltar þegar kemur að bakstri svo þeir áttu um tíma erfitt með að fylgja þáttastjórnandanum eftir.
Þegar leið á baksturinn hafði Hjálmar náð lengra í bakstrinum og þegar Auðunn áttaði sig á því sagði hann:
„Heyrðu eruð þið bara á einhverju stefnumóti hérna? Má ég vera með?“
Í þáttunum fá keppendur hvorki að vita hvað þau eiga að baka né hvað uppskriftin inniheldur, þau þurfa algjörlega að fylgja leiðbeiningum Evu í blindni.
Áskorunin byrjaði ekki vel í þessum öðrum þætti af baksturskeppninni því Hjálmar skar sig strax í byrjun svo gera þurfti stutt hlé á bakstrinum. Þegar haldið var áfram voru þeir félagar í stökustu vandræðum með að sigta hveiti eins og sjá má í meðfylgjandi broti.
Í síðustu viku birtum við hér á Vísi brot úr fyrsta þættinum, þar sem Júlíana Sara og Tobba Marínós tóku hláturskast þegar kökurnar voru afhjúpaðar í lok þáttar. Um níutíu þúsund lesendur Vísis hafa horft á það myndband þegar þetta er skrifað og hefur klippan einnig vakið athygli fyrir utan landsteinana, eins og hjá norska miðlinum Dagbladet.
Blindur bakstur eru á dagskrá á laugardagskvöldum á Stöð 2.