Erlent

James Levine látinn

Sylvía Hall skrifar
James Levine, fyrrverandi tónlistarstjóri Metropolitan-óperunnar.
James Levine, fyrrverandi tónlistarstjóri Metropolitan-óperunnar. Getty/Hiroyuki Ito

James Levine, fyrrverandi tónlistarstjóri Metropolitan-óperunnar í New York, er látinn 77 ára að aldri. Hann lést þann 9. mars síðastliðinn en New York Times greinir frá.

Levine stýrði óperunni í fjóra áratugi en var rekinn snemma árs 2018 eftir að New York Times birti ásakanir fjögurra karlmanna á hendur honum. Rannsókn innan óperunnar leiddi það í ljós að hann hefði áreitt „varnarlausa listamenn“ og beitt þá kynferðisofbeldi.

Ásakanir mannanna spönnuðu þriggja áratuga tímabil en þrír þeirra voru undir lögaldri þegar brotin áttu sér stað. Var Levine sagður hafa nýtt sér yfirburðastöðu sína sem tónlistarstjóri við skóla og tónlistarhátíðir til þess að nálgast mennina. Levine neitaði ásökunum mannanna.

Þegar greint var frá málinu var Levine kominn á eftirlaun sem tónlistarstjóri óperunnar, en hann hafði einnig starfað sem listrænn stjórnandi sérstakrar deildar fyrir unga tónlistarmenn.

Ekki hefur verið greint frá dánarorsök Levine en hann hafði glímt við ýmis heilsufarsvandamál undanfarin ár og hafði verið greindur með Parkinsons.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×