Viðskipti innlent

Bréf í Icelandair hækka eftir tíðindi af vottorðum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Flugvélar Icelandair við Leifsstöð
Flugvélar Icelandair við Leifsstöð Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Gengi hlutabréfa í flugfélaginu Icelandair tóku vænan kipp upp á við um hádegisbil eftir að tilkynnt var að farþegar með bólusetningarvottorð frá ríkjum utan Schengen yrðu tekin gild. Þar með má meðal annars hleypa Bretum og Bandaríkjamönnum inn í landið sem hafa verið bólusettir gegn kórónuveirunni.

Þau sem framvísa slíkum vottorðum þurfa hvorki að fara í sýnatöku eða sóttkví né framvísa vottorði um neikvætt PCR-próf á landamærum. Á sama hátt verða vottorð um fyrri Covid-sýkingu tekin gild. Vottorðin þurfa að uppfylla skilyrði sóttvarnalæknis eins og verið hefur hingað til. Breytingin tekur gildi í vikunni að sögn dómsmálaráðherra.

Nú klukkan hálf þrjú hafa viðskipti með bréf í Icelandair numið 150 milljónum króna. Gengi bréfanna hefur hækkað um rúm sjö prósent en hækkunin fór mest í níu prósent.

Bretar og Bandaríkjamenn auk Asíu hafa verið langfjölmennastir hér á landi undanfarin ár.

„Við vorum orðin svo þyrst í góð tíðindi. Bara að það sé möguleiki á að eitthvað gerist gleður fólk mikið þannig að þetta er miði inn í framtíðina, virkilega. Nú er bara að sjá hvernig viðbrögðin verða,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir breytingarnar auka líkurnar á því að sumarplan Icelandair gangi eftir. Mikil óvissa ríki þó enn.


Tengdar fréttir

Þeir sem eru bólusettir utan Schengen mega koma til landsins

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að taka gild bólusetningarvottorð farþega sem koma til landsins frá ríkjum utan Schengen. Þar með má hleypa þeim inn í landið sem bólusettir eru gegn kórónuveirunni í til dæmis Bretlandi og Bandaríkjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×