Handbolti

Alfreð vill fækka liðum

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason með kaffibolla á HM í Egyptalandi. Hann freistar þess nú að koma Þýskalandi á næsta stórmót, Ólympíuleikana í Tókýó.
Alfreð Gíslason með kaffibolla á HM í Egyptalandi. Hann freistar þess nú að koma Þýskalandi á næsta stórmót, Ólympíuleikana í Tókýó. Instagram/@alligisla

Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands, segir að það bitni til að mynda á þýska landsliðinu hve þétt leikjadagskráin sé í efstu deild Þýskalands í handbolta. Hann er á leið í leiki sem ráða því hvort Þýskaland spilar á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Alfreð vill að liðum í efstu deild Þýskalands verði fækkað. Þannig gefist meiri tími fyrir landsliðsmenn til að koma saman. Liðin hafa verið 18 síðustu ár en eru 20 í vetur eftir að ekki tókst að ljúka tímabilinu í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins.

„Deild með 16 liðum er besta stærðin að mínu mati. Við ættum að stefna að því,“ sagði Alfreð við Berliner Morgenpost.

Þýskaland spilar um helgina í riðli með Svíþjóð, Slóveníu og Alsír í ólympíuumspili. Tvö efstu liðin komast til Tókýó í júlí. Þýska liðið kom saman til æfinga á mánudag og hefur því örfáa daga til undirbúnings.

„Sem þjálfari hef ég kvartað undan því 20 ár hve álagið er mikið á leikmönnum. Það hefur hins vegar ekki minnkað, heldur þvert á móti aukist vegna fleiri alþjóðlegra keppna,“ sagði Alfreð.

Hann segir alla verða að hafa það í huga hve lítill tími sé fyrir þýska landsliðið til að hittast og bæta sinn leik, af þessum sökum.

„Þetta er gjaldið sem við þurfum að greiða. Í öðrum löndum eru efstu deildirnar með 12-14 liðum og hafa þannig meiri tíma fyrir landsliðin í aðdraganda stórmóta,“ sagði Alfreð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×