Innlent

Fánaberi Íslands í Ríó ákærður fyrir líkamsárás

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þormóður Árni Jónsson ber fána Íslands inn á Maracana leikvanginn í Ríó þann 5. ágúst 2016.
Þormóður Árni Jónsson ber fána Íslands inn á Maracana leikvanginn í Ríó þann 5. ágúst 2016. Getty/Lars Baron

Þormóður Jónsson, þrefaldur Ólympíufari og fánaberi Íslands á leikunum í Ríó 2016, hefur verið ákærður fyrir að ráðast á dyravörð á Lewboski bar aðfaranótt Þorláksmessu 2018. Þormóður segist í stuttu samtali við Vísi ekki hafa ráðist á neinn. Um vitleysu sé að ræða.

Í ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að Þormóður, sem er nýorðinn 38 ára, hafi veist með ofbeldi að 34 ára gömlum dyraverði fyrir utan Lebowski Bar og slegið hann með krepptum hnefa í andlit með þeim afleiðingum að dyravörðurinn hlaut áverka fyrir framan vinstra eyra.

Brotið telst varða við 217. grein almennra hegningarlaga en viðurlög við brotum á lögunum varða að hámarki sex mánaða fangelsi nema brotið sé mjög alvarlegt.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á dögunum en Þormóður neitar sök. Þormóður vildi lítið tjá sig um málið við Vísi enda væri langt í frá að niðurstaða væri komin í málið.

„Ég réðst ekki á neinn, það er bara þannig. Þetta er bara vitleysa,“ sagði Þormóður.

Þormóður er einn besti júdókappi sem Ísland hefur alið. Hann keppti fyrir Íslands hönd á þrennum Ólympíuleikum; í Peking 2008, London 2012 og Ríó 2016 þegar hann var þess heiðurs aðnjótandi að vera fánaberi Íslands.

Hann starfar í dag sem framkvæmdastjóri Júdósambands Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×