Vísir ræddi við þingmenn í gær sem tjáðu blaðamanni býsna skelkaðir að Ari Trausti færi ekki leynt með þá skoðun sína, á göngum Alþingis og í matsalnum, að líklegt sé að jarðhræringarnar á Reykjanesi væru fyrirboði eldgoss.
Ari Trausti útlistaði þetta nánar á Facebooksíðu sinni og fer yfir málin.
Margt mætti skrifa um óróann á Reykjanesskaga en þrennt skal nefnt hér: Skjálftahrinan er f. og fr. á SV-NA-lægu...
Posted by Ari Trausti on Miðvikudagur, 24. febrúar 2021
Ari Trausti rekur þróun jarðhræringa á svæðinu og bendir meðal annars á það sem fram hefur komið að höfuðborgarbúar geti verið að horfa fram á skjálfta í Brennisteins- og Bláfjallakerfinu upp á 6,5 stig. Virkni á svæðinu hljóti að teljast merki um kvikuinnskot, segir Ari Trausti meðal annars. Töluvert sé nú um skjálfta á dýptarbili frá um 10 kílómetrum niður í 20 til 30 og þar sé komið niður úr brotgjörnu skorpunni og hræringar ummerki spennulosunar við tilfærslu eða uppkomu kviku.
„Að öllu samanlögu er þróunin tilefni hættustigs í óákveðin tíma. Hún getur stöðvast en einnig talist fyrirboði enn fleiri hræringa sem leiða til uppkomu jarðelda (t.d. goshrinu, sbr. Kröfluelda, sem stendur lengi en með hléum líkt og á síðustu umbrotatímum á skaganum) innan vikna, mánuða eða ára. Samt þarf það ekki að vera með þeim hætti. Orðin eru ekki spá; aðeins endurtekning á því sem vitað er um jarðvirkni á skaganum,“ segir Ari Trausti.