Innlent

Spyr hvort það hafi virki­lega ekki hvarflað að ráð­herra að sam­skiptin væru ó­eðli­leg

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þorbjörg var gagnrýnin á símhringingar dómsmálaráðherra á aðfangadag.
Þorbjörg var gagnrýnin á símhringingar dómsmálaráðherra á aðfangadag.

„Hvarflaði það virkilega ekki að ráðherra að samskiptin og bein símtöl hennar sjálfrar til lögreglustjóra væru óeðlileg á þessum tímapunkti, til lögreglustjóra sem þarna var í blábyrjun rannsóknar á meintum brotum á sóttvarnalögum af hálfu samflokksmanns þessa ráðherra og formanns?“

Þannig spurði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, á Alþingi í dag en greint hefur verið frá því að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ræddi tvisvar við Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, á aðfangadag.

Lögregla hafði þá sent út verkefnaskrá, þar sem meðal annars kom fram að ónefndur ráðherra hefði verið staddur á samkomu þar sem tilkynnt var um sóttvarnabrot.

Í ljós koma að um var að ræða Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra.

Þorbjörg sagðist í ræðu sinni ekki að ætla að fullyrða neitt um ástæður dómsmálaráðherra en sagði að með símhringingum sínum hefði hún auðveldlega getað sett lögreglustjóra í óþægilega stöðu.

„Krafan er ekki bara sú að stjórnvöld tjái sig ekki um einstök mál heldur gæti þess í hvívetna að snerta ekki á þeim heldur og að þau gefi aldrei annað til kynna. Mér finnst símtal ráðherra til lögreglustjóra á þessum tímapunkti því miður til þess fallið að vekja upp spurningar á skilningi á þessum mörkum. 

Ég ber fullt og óskorað traust til lögreglunnar í þessu máli sem öðrum en hegðun og gerðir ráðherra þennan dag finnst mér hins vegar mikill dómgreindarbrestur og kalla á það að ráðherra svari því af hvaða ástæðu hún hafði samband við lögreglustjóra þennan dag og eftir hverju hún var að leita.“


Tengdar fréttir

Hringdi í lögreglustjórann vegna Ásmundarsalar á aðfangadag

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ræddi tvisvar við Höllu Bergþóru Björnsdóttur lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu á aðfangadag eftir að lögregla tilkynnti fjölmiðlum um sóttvarnabrot í Ásmundarsal, hvar fjármálaráðherra var staddur. Ríkisútvarpið greinir frá þessu og hefur eftir Áslaugu að hún hafi ekki verið að skipta sér af rannsókn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×