Baldur Sigurðsson átti ekki sinn besta leik á ferlinum í dag en hann varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í upphafi leiks. Þórður Gunnar Hafþórsson tvöfaldaði forystu Fylkis um miðbik fyrri hálfleiks og Ragnar Bragi Sveinsson bætti þriðja markinu við áður en fyrri hálfleik var lokið.
Lúkas Logi Heimisson minnkaði muninn fyrir Fjölni í síðari hálfleik en Hákon Ingi Jónsson kom Fylki í 4-1 skömmu eftir að Baldur Sigurðsson fékk rautt spjald í liði Fjölnis.
Lokatölur 4-1 Pepsi Max-deildarliðinu í vil en Fjölnir féll úr deildinni síðasta sumar og leikur í Lengjudeildinni í ár. Fylkir hefur nú unnið báða leiki sína til þessa en liðið vann ÍBV 3-2 á dögunum. Fjölnir hefur hins vegar tapað báðum leikjum sínum.