Átakanleg réttarhöld í máli Jóns Baldvins gegn Aldísi og Sigmari Jakob Bjarnar skrifar 14. febrúar 2021 13:01 Átök þeirra feðgina, Jóns Baldvins og Aldísar Schram, voru tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni. Meint sifjaspell, barnaníð og ólögleg nauðungarvistun á geðdeild var meðal þess sem var á dagskrá í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudaginn. Þegar leiðir þeirra systra, Aldísar Schram og Kolfinnu Baldvinsdóttur lágu saman í dyrum á sal Héraðsdóms Reykjavíkur á miðvikudaginn lá við stimpingum. Þær nánast hvæstu hvor á aðra: „Hvað gengur að þér?“ „Á ég að segja hvað þú ert?“ „Þú ert svo viðbjóðsleg.“ Engum sem sat aðalmeðferð í meiðyrðamáli Jón Baldvins Hannibalssonar fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra gegn Aldísi dóttur hans og Sigmari Guðmundssyni sjónvarps- og útvarpsmanni, leið vel undir vitnaleiðslum og skýrslutökum sem fram fóru í sal 101, þeim stærsta í héraði. Óhætt að segja. Framburður aðila og vitna var sláandi; þarna voru rakin átakanleg mál sem hafa klofið fjölskyldu og í raun neytt fjölmarga misviljuga til að taka afstöðu til mála sem ekki liggja ljós fyrir eðli máls samkvæmt, með og á móti hinum og þessum. Út frá ólíkum forsendum. Og nú þegar þetta er rekið fyrir dómsstólum er erfitt að komast hjá því að enn verði um þessi mál fjallað. Snýst um miklu meira en meintar ærumeiðingar Fastlega má gera ráð fyrir því að hver sem niðurstaða þessa tiltekna máls í langri sögu verður þá verður enginn punktur settur þar. Jóhannes Rúnar Jóhannsson héraðsdómari áttar sig eflaust á því. En hans er að taka tillit til ummæla og þá að teknu tillit til þess hvort þau séu tilhæfulaus; því þangað leiddust vitnaleiðslurnar. Aðalmeðferðin snerist öðrum þræði um hvort Jón Baldvin væri sekur um það sem Aldís ætlaði honum í útvarpsviðtali við Sigmar sem spilað var í Morgunútvarpi Rásar 2 17. janúar 2019. Ummælin fjórtán sem málið snýst um Ummæli Aldísar í Morgunútvarpinu. 1. … hann fær mig undir fölsku yfirskini til að heimsækja afa minn … mér var haldið inni þarna í mánuð sem sagt ólöglega.“ 2. … já Fimm sinnum á næstu 10 árum kastast í kekki milli mín og Jóns Baldvins Hannibalssonar og því lyktaði ávalt með því að (sic) sigaði á mig lögreglu sem handtók mig, hann var náttúrlega utanríkisráðherra … 3. Hann gat bara þaðan í frá, þáverandi utanríkisráðherra og síðar sendiherra, virðist vera að hringja bara í lögreglu og þá var ég þar með handtekin, umsvifalaust í járnum, farið með mig upp á geðdeild … 4. … hann er þá líka að misnota lítil börn. 5. … ég neita að skilja þau eftir í umsjón karls sem káfar á litlum stúlkubörnum. 6. Og sem sagt 10 mínútum eftir að ég kæri Jón Baldvin þá hringir dyrabjallan. Þar ruddust þarna inn tveir lögreglumenn ef ekki þrír og ég, þegar ég sé það þá reyni ég að loka en auðvitað tókst mér það ekki, þeir ryðjast þá þar með inn og þeir svara mér engu, ryðjast inn í stofu þar sem dóttir mín 5 ára gömul er að lesa og þegar barnið er tekið frá mér þá verð ég æf. 7. … það er faðir minn sem stendur fyrir því að hér eigi að loka mig inni. 8. Fíkn, auðvitað er barnagirnd fíkn, þetta er fíkn. 9. … nauðungarvistun án dóms og laga er þá ólögmæt frelsissvipting… Facebook, 5. febrúar 2019, höfundur stefnda Aldís. 10. … og sigra hann og hans barnaníðingabandalag. Morgunútvarp, Rás 2, 17. janúar 2019, höfundur og flytjandi stefndi Sigmar, til vara stefnda Aldís. 11. … að Jón Baldvin hafi notað aðstöðu sína sem sendiherra til að láta nauðungarvista hana á geðdeild. 12. Sá fundur Aldísar og Jóns Baldvins segir hana hafa reynst sér örlagaríkur og orðið til þess að hún var í fyrsta sinn nauðungarvistuð á geðdeild. 13. … að Jón Baldvin hafi sett sig í samband við félagsmálayfirvöld og geðdeild með það fyrir augum að fá hana nauðungarvistaða í enn eitt skiptið. 14. Þar segir hún einnig að Jón Baldvin hafi framið sifjaspell þegar hún var fullorðin kona. Á föstudaginn lauk svo aðalmeðferðinni með málflutningi lögmannanna, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson flytur málið fyrir hönd Jóns Baldvins, Gunnar Ingi Jóhannsson fyrir hönd Aldísar og Stefán A Svensson fyrir hönd Sigmars og Ríkisútvarpsins ohf. Óhjákvæmilegt er að þessi skýrsla um hvað gekk á í sal 101 verði endurtekningasöm enda er verið að þýfga aðila og vitni um sömu atburði en þá skiptir einmitt mismunandi sjónarhorn máli. Þá er vert, áður en lengra er haldið, að vara viðkvæma við lestrinum. Þessi mál hafa komið upp reglulega undanfarin ár og áratug en í réttarhöldunum var gerð tilraun til að ná utan um þau enda riðlaðist dagskrá og stóðu réttarhöldin á miðvikudag frá morgni vel fram til klukkan 17; stöðugar vitnaleiðslur. Miklar tilfinningar eru í spilinu og stundum verður lítið samhengi milli spurninga og svara. Brá við ásakanir um sifjaspell Fyrstur til að bera vitni var stefnandi, Jón Baldvin. Hann sagðist vera á níræðisaldri, sem heitir að vera ellilífeyrisþegi. Jón Baldvin er 81 árs. Hann hafi látið af störfum í ársbyrjun 2006 en hafi síðan einkum sinnt kennslu. Hann sagðist hafa verið skipaður sendiherra, tók við sem slíkur í Washington DC í ársbyrjun 1998 og gegndi því til 2002. Fimm ár. Á þeim tíma dvaldi hann að mestu í útlöndum. Jón bar að eftir því sem hann best vissi hefði ekki verið haft samband við sig áður en viðtalið var flutt í Morgunútvarpinu. „Ég varð aldrei var við að þeir fréttamenn sem að komu reyndu að hafa samband við mig. Þeir sögðu að ekki hafi náðst í mig, sennilega heyrðist í mér síðar? En ég var að heyra margt af þessu í fyrsta sinni.“ Þá greindi Jón Baldvin frá því að einkum hafi sér brugðið við að heyra að hann hafi átt að hafa „stundað sifjaspell með dóttur minni á fullorðins árum hennar þegar hún var vistuð á geðdeild. Þetta hafði ég aldrei heyrt fyrr en í beinni útsendingu á Ríkisútvarpinu. Hvernig varð mér við? Ég var ekki óviðbúin að þeim skilningi að frá 2002 höfðu verið gerðar nokkrar tilraunir til að hafa af mér mannorðið. Aldís reyndi að bera fram kæru fyrir hönd Guðrúnar Harðardóttur sem var vísað frá. Ég vissi ekkert af þeim kærum,“ sagði Jón Baldvin. Jón Baldvin vísaði ásökunum sem fram komu um að hann hafi áreitt Guðrúnu systurdóttur Bryndísar Schram eiginkonu hans þegar hann bar sólarolíu á hana barnunga í ferð til Ítalíu, á bug sem fráleitum enda hafi verið viðstödd þá kona hans og dætur. Bréf Jóns Baldvins til Guðrúnar Harðardóttur Mjög hefur verið fjallað um bréfaskriftir Jóns til Guðrúnar eftir að hún greindi frá þeim í viðtali við Nýtt líf árið 2012. Þar segir hún af bréfum Jóns Baldvins til hennar þegar hún var á aldrinum 14 til 17 ára. Einhver þeirra bréfa voru send í grunnskólann hennar og einhver voru rituð á bréfsefni sendiráðsins í Washington. Í þeim er að finna hugleiðingar Jóns um kynlíf, meðal annars lýsingar á kynlífi hans með eiginkonu sinni, Bryndísi Schram. Sjálfur hefur Jón Baldvin fjallað um þessi bréf með greinaskrifum. Fyrir héraðsdómi sagði hann að þessi bréf hafi sært blygðunarkennd, sakarefni hafi verið ítarlega rannsakað og saksóknari vísað því frá því ekki fundust sakarefni. Seinna við vitnaleiðslurnar sagðist Jón hafa skrifað Guðrúnu afsökunarbréf í apríl 2002. „Þetta bréf hefur verið á dagskrá í 20 ár. það er mér til skammar.“ Um sé að ræða fimm bréf til Guðrúnar sem hafi verið til umræðu innan fjölskyldunnar, ósæmileg og hafi ekki átt erindi til hennar né bók sem fylgdi einu bréfanna. Hann hafi leitað eftir sáttum og gert allt til þess en því hafi verið mætt með þögn. Eftir ótal sáttatilraunir sneri bróðir Bryndísar til baka með þau skilaboð að sáttaumleitunum mætti gleyma, þeim mæti ekkert nema svartnætti af hatri. Hin örlagaríka heimsókn Aldísar til Washington 2002 Jón Baldvin sagði meginstaðreyndir þær að dóttir hans birti sakarefni í DV og fylgdi því eftir haustið 2013 með ónafngreindum kærum. Sem vörðuðu brot og að hann hafi brotið á mannréttindum dóttur hans með frelsissviptingu. Jón segist hafa lesið um það í blöðum og eftirgrennslan hans hafi leitt í ljós, í munnlegu samtali að því hafi verið vísað frá. „Þannig að þarna eru komnar fimm atrennur. Hvernig mér varð við: Mér var ekki ókunnugt um þessar sakargiftir. Byrjaði fyrir alvöru 2002. Ég heyrði af þessu þegar dóttir okkar kom í heimsókn til okkar í Washington DC. Mér var ekki ókunnugt um að hún hafði borið mig ýmsum sökum, en þó ekki að ég hafi misnotað dætur mínar. Það hafði ég ekki heyrt áður og þessi undarlega sakargift um sifjaspell, það hafði ég ekki heyrt fyrr en í útvarpi allra landsmanna.“ Hið meinta dómsvald fjölmiðla Jón Baldvin segist ýmsu vanur, hann hafi oft sætt árásum af pólitísku tilefni en þarna hafi hann verið varnarlaus; orðlaus, trúði varla sínum eigin eyrum. „Þetta er útvarp allra landsmanna og ég veit ekki betur en að það sé í lögum, starfsreglum og siðareglum fréttamanna að Ríkisútvarpið megi undir engum kringumstæðum taka sér dómsvald,“ sagði Jón Baldvin og rakti að slíkt mætti ekki fara fram að óathuguðu máli án þess að kanna málavexti, fá hlið hinna, án þess að afla sér gagna. Jón Baldvin taldi að með viðtalinu hafi Ríkisútvarpið tekið sér dómsvald. Jón Baldvin var, eins og flestir sem mættu í Héraðsdóm, með grímu vegna Covid-19.vísir/vilhelm Jón Baldvin taldi að gögn lægju fyrir í þessu viðkvæma mál og ef geðlæknir telu telur nauðsynlegt á að óska eftir framlengingu á sjúkrahúsadvöl, kallað nauðungarvistun, gerist ekki með ákvörðun einhvers úti í bæ. Hvort sem hann heitir Jón Jónsson eða Jón Baldvin“. Í máli Jóns Baldvins kom fram að til árs 2016 hafi verið í gildi lög sem skuldbundu aðstandendur sjúklinga til þess að veita samþykki sitt fyrir framlengingu sjúkrahúsdvalar og jafnvel í verstu tilfellum sviptingu sjálfræði. Þetta væri hræðileg skylda og dæmi um að þetta hafi lagt í rúst fjölskyldur viðkomandi. Ef viðkomandi vilji ekki viðurkenna sjúkdóm sinn, sem er í 40 prósenta tilvika, þá beini þeir reiði sinni og jafnvel hatri að aðstandendum. „Þessu urðum við að lúta á þessum tíma, þetta er harmleikur, fjölskylduharmleikur sem aldrei átti neitt erindi í fjölmiðla, Sem leysa átti innan fjölskyldunnar.“ Segist ekki hafa komið að ólögmætri frelsissviptingu Vilhjálmur spurði Jón Baldvin hvenær veikindi Aldísar hafi hafist. Jón las út úr gögnum að sjúkrahúsvistun dóttur hans hafi verið í átta skipti í tveimur lotum. Frá 1990 til 1994 og aftur 1998 til 2002. Í fjórum eða fimm lotum. Þá sagði Jón að árið 1992 hafi dóttir hans farið sjálfviljug og þau saman á geðdeild Landsspítalans. Þá taldi hún sig þurfa hjálp. Þá hafi samband þeirra á milli verið gott. Jón sagði engan einstakling geta misbeitt valdi til að hringja í lögreglu og skipa henni að sækja saklausa manneskju, færa í járnum á geðdeild og krefjast þess að hún sé vistuð, í versta falli svipt sjálfræði. Misskilningur sé að slíkt sé geðþóttaákvörðun. Jón Baldvin og lögmaður hans, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.vísir/vilhelm Þá sagði Jón að læknar og ýmsar stofnanir kæmu að málum; sýslumaður, barnaverndarnefnd, samfélagsþjónusta … Jón Baldvin sagði að þetta væru ekki pyntingastofnanir en engum blaðamanni hafi dottið í hug að hringja í Landsspítalann og spyrja hvort þar væru stundaðar pyntingar? „Þessu get ég ekki svarað og um þetta áttu fréttamenn að sjálfsögðu að leita sér upplýsinga um áður en þeir bera þetta út til landsmanna.“ Jón Baldvin bar að hann hafi aldrei komið að lögmætri frelsissviptingu Aldísar, það væri á hreinu. Talsverður fjöldi fólks hafi komið að málum, sjálfur hafi hann að mestu verið erlendis og upptekinn, aðstandendur sem þá töldu að sjúklingurinn væri hættulegur sjálfum sér og öðrum og þá rétt að koma honum undir læknishendur. Telur hatur Aldísar á sér byggjast á sjálfræðissviptingu Vilhjálmur lögmaður spurði Jón hvenær samband þeirra Aldísar, sem hafi í upphafi níunda áratugar síðustu aldar verið gott, hafi breyst til hins verra? „Já, samband okkar var gott, jafnvel einlægt. Jafnvel betra en milli móður og dóttur. Þetta er ekkert leyndarmál að Aldís bar hlýjan og vinsamlegan hug til föður síns,“ segði Jón Baldvin sem vitnaði í viðtal sem birtist við dætur hans þrjár: Aldísi, Snæfríði sem nú er látin (1968-2013) og Kolfinnu, þar sem Aldís segir að hún þekki ekki þann mann sem fjölmiðlar dragi upp mynd af. Hann sé hlýr, einlægur, skilningsríkur maður og kominn tími til að hann fái að njóta sannmælis. „Einlæglega mælt í mínum huga. Þetta var í ársbyrjun 1995 og hún 36 ára gömul.“ Síðan hafi allt þetta breyst skyndilega. „Þegar við Bryndís erum flutt til Washington DC, reynir oft á, veita samþykki og sjálfræðissviptingu, sem er enn þungbærara og hörmung,“ segir Jón Baldvin. En sjálfur hafi hann verið eini maðurinn sem Aldís samþykkti að hefði heimild til að veita samþykki fyrir sjálfræðisviptingu. Jón telur að sú ákvörðun Aldísar, sem er 1998, staðfesti og sýni það traust sem hún bar til hans þá. Jón Baldvin segist aðeins geta sagt hvernig hann upplifði umskiptin en hann telur óyggjandi að nauðungarvistun og sjálfræðissvipting í tvö skipti hafi breytt hugarfari dóttur hans og hann áfellist hana ekki fyrir það. „Hvernig breyttist þetta? Eftir að það gerist ítrekað að ég verð lögum samkvæmt að veita samþykki fyrir harkalegum inngripum um frelsissviptingu, nauðungarvistun. Það geri ég ekki einn. Það er búið að breyta þessu núna. Af hverju breyttist vinarþel og ástúð frá dóttur til föður, í reiði og hatur sem hefur enst í 20 ár. Þetta er mitt svar við því.“ Á að hafa brotið á öllum konum í fjölskyldunni Jón Baldvin greinir frá því að það sé svo örlagarík heimsókn Aldísar til þeirra hjóna til Washington um páska 2002 sem hafi endað með ósköpum. „Hreinum. Þá heyri ég af þessari sakargift. Það er varla sú kvenpersóna í þessar fjölskyldu sem ég á ekki að hafa haft kynferðisleg samskipti við. Þá byrjar þetta mál sem leiddi til þess að kærumál hafa verið flutt fimm sinnum en alltaf vísað frá.“ Vilhjálmur beinir þá tali að því sem fram hefur komið í málinu, að Jóni Baldvin sé ætlað að hafa misnotað aðstöðu sína til að fá Aldísi vistaða, en í dagbók lögreglu er eitt slíkt tilvik skráð sem aðstoð við lögreglu. Jón Baldvin segir að þetta hafi ekki verið á tölvuöld, það hafi verið faxvélar sem notaðar voru og hann hafi gripið það bréfsefni sem var tiltækt. Hann segir það aðfinnsluvert að lögregla skrái málið svo. Hún verði að svara fyrir það. „Ég bað ekki um það. Misnotkun á valdi? Trúir því einhver að sendiherra sé valdspersóna? Hann er engin valdspersóna. Ef þessi bréfshaus hefði ekki verið, vissu menn þá ekki að ég væri sendiherra? Allir vissu það. Þetta eru aukaatriði máls. Misnotkun? Kannski brýtur þetta í bága við reglur. En mín lokaorð um þetta: Nauðsyn brýtur lög og það hvarflaði ekki að mér sú hugsun hvað stæði í bréfshaus blaðsins, það voru ekki önnur blöð til staðar.“ Málið tengist utanríkismálum Íslands Eins og fram hefur komið er þetta löng saga, hún teygir sig í ýmsar áttir og varða samskipti Íslands við önnur ríki. Eitt gagna Jóns Baldvins í málinu er ódagsett bréf Snæfríðar heitinnar til Aldísar þar sem hún átelur hana harðlega fyrir að ásakanir í gerð Jóns Baldvins. Aðdragandi þess er sá að um svipað leyti átti Snæfríður í harðvítugri forræðisdeilu við barnsföður sinn ítalskan Marco Brancaccia. Hann hafði sent bréf til sendiráða víða um heim þar sem fram koma ásakanir um barnaníð Jóns Baldvins. Að hann hafi misnotað allar dætur sínar ungar. Jón Baldvin segir það hafa verið lið í að spilla málstað Snæfríðar. Í bréfinu, sem í aðalmeðferð kom fram að Kolfinna og Glúmur Baldvinsson börn Jóns hafi komið að því að semja, vísar Snæfríður þessum ásökunum á bug og telur Aldísi standa á bak við þær ásakanir. „Hún er sár og trúir því ekki að systir hennar sé höfundur slíks óhróðurs í þessu samhengi,“ segir Jón Baldvin. Telur Aldísi standa á bak við #metoo-síðu helgaða sér Gunnar Ingi, lögmaður Aldísar, tók þá til við að spyrja Jón Baldvin út í framburð hans og önnur tengd mál. Hann sagði ekki um það deilt að tilefni þessa dómsál væri viðtalið í Morgunútvarpinu. Hann sagði að skömmu áður en viðtalið var tekið hefðu birst viðtöl við fjórar konur í Stundinni sem báru á Jón sakir. Alls 19 ónafngreindar konur hafi stigið fram og leitað til rannsóknarlögreglu. Jón kannaðist við þetta og það einnig að hann teldi þær ásakanir að undirlagi Aldísar. Hún hafi skrifað kærur og átt aðild að málum. Gunnar Ingi spurði og sagði svo að það gæti ekki talist sanngjarnt að Aldís ætti aðild að því, að hún hafi spunnið þessar sögur upp? „Ef þetta er spurning almennt séð um hverjir standa á bak við þessum klögumálum? Já, tiltölulega fámennur hópur stendur að baki þessu þar sem dóttir mín er frumkvöðull að þessu.“ Þetta er með vísan til sérstakrar #metoo-bloggsíðu sem tileinkuð er Jóni Baldvin en þar hafa birst 23 nafnlausar sögur frá jafn mörgum konum. Jón Baldvin telur að um fámennan hóp sé að ræða sem að þessu stendur. Gunnar Ingi spurði Jón Baldvin með vísan til viðtals við Jón Baldvin í Silfri Ríkissjónvarpsins í framhaldi af viðtalinu í Morgunútvarpinu, að sögurnar megi rekja til haturs Aldísar á Jóni, hvort sú væri hans skoðun; Að ásakanir á hendur honum megi rekja til þess? Jón Baldvin Hannibalsson mætti í Silfri Ríkissjónvarpsins til að svara fyrir ásakanirnar. Fram kom við aðalmeðferð í máli hans gegn Aldísar að það viðtal hafi farið mjög fyrir brjóstið á Aldísi.vísir/vilhelm Jón Baldvin dregur í efa að um skoðun sé að ræða, heldur ályktun af því sem fram hefur komið. Hann lýsti því að til hans hafi hringt velviljaðir kunningjar og vinir árið 2019 og lýst því að það hafi fengið upphringingar; „þar sem kerfisbundið var verið að safna óhróðri um þann mann sem hér situr. Ég álykta að það hafi verið ritstjórn, það hafi verið plan og það hafi ekki verið tilviljun.“ Jón Baldvin sagðist vilja tala varlega um geðveiki dóttur sinnar, þar væri um að ræða sára og bitra lífsreynslu sem um væru til gögn. En hann hafi svarað öllum þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar í þeim tilvikum sem um nafngreinda einstaklinga sé um að ræða. Það allt sé aðgengilegt á heimasíðu hans. Hver og einn geti dæmt um hvort þetta eru trúverðugar ásakanir, hvort þessar sögur eru uppspuni að hluta? „Viltu fara að ræða innri mál Samfylkingarinnar?“ Jón Baldvin segir að sér hafi ofboðið við lestur #metoo-síðunnar. Og þá hafi hann séð læknisvottorð þar sem læknar votti að Aldís eigi ekki við geðrænan vanda að etja. Mörgum árum síðar? Jón Baldvin taldi best að hafa sem fæst orð um það. Gunnar Ingi spyr hvort þessu gæti ekki verið öfugt farið, að skoðanir hennar hafi mótast af þessum frásögnum fremur en að um samsæri Aldísar hafi verið að ræða? Jón Baldvin sagði að fimm atrennur hafi verið gerðar, með að kæra en fimm sinnum hefur þeim kærum verið vísað frá. „Fyrsti kærandi var dóttur mín, hún stóð þétt að baki Guðrúnu Harðardóttur; dóttir mín hefur frumkvæðið bæði í fjölmiðlum og gagnvart lögreglu. Svör liggja fyrir að það hafi ekki verið tilefni til ákæru um mannréttindabrot og vísað í sjúkraskýrslur um veikindi Aldísar. þetta eru bara staðreyndir.“ Gunnar Ingi segir að ýmsir trúi þessum frásögnum, svo sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Karl Th. Birgisson virðast leggja trúnað á þessar frásagnir en Jón Baldvin spurði hvasst á móti: „Viltu fara að ræða innri mál Samfylkingarinnar? Þetta eru ekki vinir mínir.“ Þá sagði Jón Baldvin að þau hafi gefið Aldísi kost á að leysa þetta með sáttagjörð; neyðarbrauð hafi verið að fara í þetta mál. Hafnar því að hafa komið að ákvörðunartöku um nauðungarvistun Gunnar Ingi, lögmaður Aldísar, segir að málið snúist meðal annars um ólöglega nauðungarvistun hennar og spurði Jón Baldvin hvort hann hefði komið að þeirri ákvörðunartöku? Jón segir svo ekki vera. „Við vorum samferða 1992 þegar Aldís leitaði sér aðstoðar sjálfviljug. Það eru einu beinu afskipti mín af málinu,“ sagði Jón Baldvin og svo eitt skipti þegar Aldís hafi verið týnd. Hann hafi aldrei átt neina aðild að ákvarðanatöku um hvort hún yrði lögð inn. Það hafi verið ákvörðun lækna sem verða að leita staðfestingu annarra lækna. Þá telur Jón Baldvin það af og frá að hann hafi nokkru sinni komið að ákvörðun um lyfjagjöf. Og hvað varðaði meint sifjaspell, þá hafi hann ekki heyrt neitt slíkt fyrr „Heyrði ekki neitt slíkt fyrr en 2002 og þá í Washington DC. Hún sagðist hafa nefnt þetta sifjaspell í kæru 2013. En ég heyrði þessa fráleitu sögu fyrst í útvarpinu í viðtali við þennan herramann sem þarna situr,“ sagði Jón Baldvin og beindi höfði sínu í átt að Sigmari Guðmundssyni. Jón sagðist ekki hafa orðið vitni að því þegar Aldís bar ásakanir upp á hendur sér í Washington, þær hafi Aldís borið upp við móður sína. Og þær hafi verið ærnar. „Hún spurði með hvers konar kynferðisbrotamanni hún byggi, tengdamóðir hennar, vinkonur, systur, börn,“ segir Jón Baldvin. Ein ásökunina hafi verið sú að hann hafi misnotað dóttur Aldísar en hann bar hana upp stiga og lagði í rúm móður hennar. „Eftir þennan tíma er varla til nokkur kvenpersóna í fjölskyldunni sem ég á ekki að hafa haft mök við. Þó ekki hana sjálfa fyrr en seinna.“ Vísir birti í dag grein eftir Jón Baldvin þar sem hann fer nánar í saumana á málinu öllu og ásökunum á hendur sér. Dagskráin hvellsprungin Gunnar Ingi dvaldi við nauðungarvistun Aldísar og hvernig hana bar að. Jón Baldvin endurtók að hann teldi að um mistök við skráningu í lögregluskýrslu væri að ræða í því sem sneri að tengslum við sendiráðið. Lögreglumenn brutu sér þá leið inn í íbúð Aldísar en hún lýsti því seinna sjálf við réttarhöldin. „Ég hef aldrei sigað lögreglu á dóttur mína. Og hef ekkert vald til þess,“ sagði Jón Baldvin; „ég hef ekkert vald til að þvinga fólk á sjúkrastofnanir, siga lögreglu á það … þetta er bara út úr kú.“ Þá sagðist Jón vera sakaður um að hafa misnotað dætur sínar ungar allar þrjár. Þetta væri svívirðilegur rógur. Og aðrar ásakanir hreinn tilbúningur eða uppspuni, eða þetta er svo skrumskælt að það nær engu tali. Jón Baldvin sagðist hafa heimsótt dóttur sína á geðdeild en hann hafi aldrei farið með hana út af henni. Þegar þarna var komið sögu mátti ljóst vera að dagskráin var hvellsprungin hvað varðaði tíma sem málinu var gefinn. Stefán réttargæslumaður Sigmars kom að einni spurningu sem varðaði það að Jón Baldvin kannaðist ekki við að reynt hafi verið að ná í sig í tengslum við útvarpsviðtalið. Hann lagði fram ljósrit af SMS-skilaboðum frá Sigmari frá 16. janúar. Jón Baldvin kannaðist ekki við að hafa fengið þau boð og greindi frá því að símanúmerið sem um var að ræða hafi löngum verið sameiginlegur sími þeirra Bryndísar. Þá var vísað til umfjöllunar Stundarinnar um ásakanir á hendur Jóni Baldvin, hvort hann kannaðist ekki við að hafa tjáð sig í samhengi við þær og hvort ekki væri rétt eftir haft? „Blaðamaðurinn hringdi til málamynda til að fullnægja þeirri formskyldu að þau hafi náð í fórnarlambið áður en ofsóknirnar fóru af stað,“ sagði Jón Baldvin þá. „Ég þekkti þetta fólk ekkert sérstaklega vel“ Vitnisburður Jóns Baldvins, spurningar og svör, stóð talsvert lengur en gert var ráð fyrir í dagskrá. En næst í vitnastólinn var Aldís sem sagðist hafa árið 2012 breytt nafni sínu úr Baldvinsdóttur í Schram. Hún sagði á sér deili og rakti feril sinn, hún sé útskrifuð úr lögfræði árið 1987, lærði til leikkonu í London, tók fréttamannapróf, stundaði námi í guðfræði í tvö og hálft ár en hafi sinnt ýmsum störfum frá árinu 2006, svo sem samningu kennsluefnis, íslensku fyrir útlendinga. Aldís lýsti því að hún hafi ekki búið nema brot sinnar barnæsku hjá foreldrum sínum heldur ólst að mestu upp hjá ömmu sinni. Hún hafi búið á unglingsárum um hríð þegar Jón Baldvin var skólastjóri Menntaskólans á Ísafirði en vildi svo fara heim aftur. Lögmaður Aldísar tekur á móti henni þegar hún mætti í Héraðsdóm Reykjavíkur.vísir/vilhelm „Eftir fimmtán ára aldur er ég í litlum samskiptum við hann. Árið 1991 hermi ég upp á hann kynferðisglæp og ég hef ekki fengið frið fyrir þeim síðan. Nauðsynlegt að það komi fram, ég þekkti þetta fólk ekkert sérstaklega vel.“ Framburður Aldísar fór þannig fram að lögmaður hennar, Gunnar Ingi spyr og nefnt er viðtal sem birtist við Aldísi í DV árið 2013; Stimpluð geðveik. Árið 2012 steig Guðrún Harðardóttir fram og að sögn Aldísar uppástendur Jón Baldvin að hún standi á bak við það. Og hafi haldið því fram þá að þetta mál ætti ekkert erindi við fjölmiðla, ekki frekar en geðveiki dóttur hans. „Þá var mér gersamlega ofboðið. Ekki nóg með það, í kommentakerfum blaðanna þarf ég að sætta mig við það að fólkið í landinu er að tala um hvort ég sé geðveik eða ekki,“ segir Aldís. Og að þær greinar hafi verið margar með viðtölum við Jón Baldvin, Bryndísi og Kolfinnu, sem hún hafi ekki svarað. Enda verið að berjast við að tóra. „Mér er illt í hjartanu þegar ég segi þetta. Nú er nóg komið,“ sagði Aldís sem segist hafa farið fram á sáttafund með þriðja aðila 2008, 2009, 11 og 2012. „En þegar ég les allar þessar ógeðslegu níðgreinar um mig, frá móður, föður og systur ákvað ég að leita réttar míns.“ Heiður stórfjölskyldunnar Aldís segir rangt sem fram komi í lögregluskýrslu að hún hafi ekki getað sætt sig við að vera útmáluð geðveik. „En að ég sé lygin og ill að ljúga þessu upp á hann, það get ég ekki sætt mig við. Ég verð alltaf reið þegar ég hugsa um þetta, afsakið. óbærilegt að dóttir mín þyrfti að lesa níðgreinar afa síns, ömmu og móðursystur. Það var óásættanlegt.“ Forsíðuviðtal í DV við Aldísi kom við sögu við aðalmeðferðina.timarit.is/skjáskot „Heiður stórfjölskyldunnar?“ spyr Aldís og segir að það hafi verið Jón Baldvin sem hafi farið með þetta í fjölmiðla, hann hafi með skammarlegum hætti flutt þetta mál fyrir dómstól götunnar. Hann haldi því fram að hún sé forsprakki umræddrar metoo-síðu, sem sé rangt. Elísabet Þorgeirsdóttir sé ritstjóri og fjöldi kvenna lagt þar fram, að sér forspurðri, vitnisburð. Aldís segist nauðbeygð hafa farið í viðtalið 2013 því þá hafi hún aftur og aftur verið búin að heyra í útvarpi, kannski sjónvarpi, viðtal eftir viðtal eftir viðtal; Neineinei, þetta er bara uppspuni geðveikrar dóttur minnar. Neineinei, þessar ásakanir eiga rót að rekja í geðveiki dóttur minnar. Gunnar Ingi lögmaður Aldísar spurði hana hvort hún viti til þess að stefnandi hafi gert tilraun til að fá hana vistaða á geðdeild? Aldís segir svo vera, hún hafi átt fund með Stefáni Eiríkssyni þáverandi lögreglustjóra í viðurvist Harðar Jóhannessonar sem þá var aðstoðarlögreglustjóri þar sem hún greindi frá því að hún ætlaði að sækja Jón Baldvin til saka. Vísir hefur fjallað um þetta mál og má lesa nánar um það hér neðar. Framburður Aldísar er á þá leið að Bryndís hafi í kjölfarið hringt í yfirgeðlækni vinkonu sína á geðdeild og „lýsir yfir meintum áhyggjum sínum“. Þetta hafði Bryndís gert með góðum árangri, að sögn Aldísar, en varð ekki kápan úr því klæðinu að loka hana inni því hún hefði grun um að það gæti gerst. Og hafði búið svo um hnúta að heimilislæknir þyrfti að samþykkja ef loka ætti hana inni. Aldís segir að Bryndís hafi þá hringt í heimilislækni sinn til að klaga hennar meintu geðveiki. Aldís segist hafa farið í viðtalið og skýrslutöku meðal annars til að tryggja stöðu sína. Og hafi svo flúið í skjól. Lögmaður Aldísar spyr hana hvort nauðungarvistanir sem hún mátti sæta hafi verið ólögmætar. Aldís telur það svo vera, þær þurfi að bera undir ráðuneyti og öðru lagi dóm. Lögmaður segir stefnanda Jón Baldvin hafa lýst því hvernig þetta bar að en Aldís segir að hans sé ekki getið í komunótu. „Hvað hafði gerst stuttu áður. Laufey Ósk Arnórsdóttir hafði komið áður, ég hafði þá gift mig skömmu áður, og greint mér frá því að hún hefði sætt kynferðisbroti af hálfu Jóns Baldvins. Hann hafði upplýst mig um það áður, að hann hefði haft mök við ákveðna aðila í móðurætt, 1998. Ég er lögfræðingur að mennt. Ég ber hann þá þessum sökum.“ Vildi gjarnan eiga einvígi við þennan mann Aldís beinir orðum sínum hvöss til Jóns Baldvins en dómari biður hana vinsamlegast um að beina orðum sínum að sér. Aldís biðst afsökunar. Ég vildi gjarnan eiga einvígi við þennan mann. Hún segir að Jón Baldvin hafi farið með sig á spítalann undir fölsku yfirskyni því að þau væru að fara að heimsækja afa hennar. En þess í stað farið á geðdeildina. „Ég veit ekki hvernig þetta gekk fyrir sig, hann hlýtur að hafa orðið að tala við einhvern geðlækni um sína geðveiku dóttur. Fengið eitthvað meint viðtal. Herra hæstvirtur utanríkisráðherra og hins vegar hin meinta geðveika dóttur. Hvorn skyldi nú menn taka trúanlega?“ Aldís segir mat á geðrænu ástandi sínu hæpið, hún spyr til dæmis hvernig læknirinn geti gefið sér að hún eigi við ítrekað þunglyndi að stríða þegar hann hefur aldrei séð sig fyrr? Aldís telur þetta ekki ganga upp og segir, þegar lögmaður hennar spyr hana hvort stefnandi hafi þá sigað á hana lögreglu: „Siga? Er ekki talað um að siga hundi. Hundurinn er annar en Jón Baldvin þá. Ég skal reyna að vera varkár í orðalagi, hvað sýna gögn?“ spyr Aldís. Aldís sagði meðal annars að hún væri því fegin að þessi mál væru loksins komin fyrir dómstóla.vísir/vilhelm Hún rekur þá að þau leiði í ljós að innrás lögreglu og Kolfinnu, sem Aldís kallar málpípu Jóns Baldvins, hafi farið fram. Í viðurvist barnsins tveggja ára. Aldís segist hafa verið búin að kveða á vettvang Einar Gaut Steingrímsson lögmann og lögregla þurfti frá að hverfa. „Aðför kallast aðstoð við erlent sendiráð. Sem leiddi til þess að þó það komi fram í lögregluskýrslu, að barn mitt væri vel haldið, var ég handtekin í kyrrstæðum bíl mínum. Jón Baldvin hélt því fram að ég væri hátt uppi, hefði verið að skemmta mér en var samt vistuð vegna þunglyndis, sprautuð af mikilli sprautu. Þrátt fyrir þetta var ég í góðu jafnvægi.“ Segir Bryndísi hafa beitt sér í málinu Aldís segir að Bryndís hafi hringt og kallað eftir leit að sér eftir að hún hafði heyrt allan sannleikann um kynferðisbrot Jóns Baldvins. Hún segist hafa grannskoðað sjúkragögn og ekki fundið eitt einasta gagn um að það hafi verið læknar sem fóru fram á handtöku. Aldís segir Hörð Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóra hafa komið upp um „kauða Jón Baldvin“. Þegar Jón Baldvin sveiflaði til sönnunar því að hann hafi aldrei komið nálægt handtöku á sér, fimm sinnum, í títtnefndu viðtali í Silfri 3. febrúar 2019, skjali aðstoðarlögreglustjóra með stimpli lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Að í þessu plagi lögregluembættisins stæði að hjónin hafi aldrei leitað eftir aðstoð þeirra. Stefáni Eiríkssyni þá lögreglustjóra mátti vera fullljóst að gögn málsins, 5. janúar 2012, innihéldu ummæli um að hann væri líka að misnota ung börn. Aldís segir að þá þegar hefðu verið komnar fram ásakanir um kynferðisbrot Jóns Baldvins, hún vissi um nokkrar sem höfðu stigið fram og aðrar. „Að hann hefði gerst brotlegur gegn sex, og ég fæ „flash back“, endurlit, rifjast upp fyrir mér minning óbærileg, frá mér fimm ára gamalli 1986, þegar ég svo … auðvitað ætlaði ég ekki að fara til útlanda að vera leiðinleg, en ég er fimm ára þegar þetta er, hann er þá líka í litlum börnum,“ segir Aldís. Hún segir jafnframt afstætt hvað barn er, fyrir henni sé það til 18 ára. „Konurnar sem stíga fram eru allar börn, fjórar af þessum átta sem stíga fram eru öll börn, kynferðisbrot hefjast þegar Guðrún Harðardóttir er í 8. bekk. Mér var þá ljóst að ég gæti ekki skilið barn eftir í hans umsjá,“ segir Aldís og vísar til uppgjörsins í Washington-heimsókn hennar og dóttur hennar. En til stóð að þær Bryndís færu á ballett og dóttir hennar yrði þá eftir í umsjá Jóns Baldvins. Eldhúsréttarhöldin Aldís segir að fólk geti ímyndað sér hvernig samtal hennar og Bryndísar var í því sem nefnd voru í héraðsdómi „eldhúsréttarhöld“, í heimsókn Aldísar til foreldra sinna í Bandaríkjunum. Aldís segist þá hafa sagt móður sinni Bryndísi af kynferðisbrotum Jóns Baldvins. „Ef þú ert að segja sannleikann gefstu ekkert upp. Sannar sannleiksgildi sitt. Jón Baldvin segir að við höfum talað, við gerðum það sannarlega. Ég spring á limminu og bunaði þessu út úr mér. Bryndís fer að gráta. Hann kemur, þær láta sig hverfa, móðir mín og systir. Þær hurfu, við fórum uppá efri hæð og þar áttum við einvígi og hann ýmist bar því við að hann væri saklaus eða fullur.“ Aldís ráðgast við lögmann sinn, Gunnar Inga Jóhannsson.vísir/vilhelm Aldís lýsir því að þær mæðgur gátu ekki farið strax heim til Íslands, skrifstofur flugfélagsins voru lokaðar. Aldís telur sig hafa heimildir fyrir því að foreldar hennar hafi kært sig þá í millitíðinni til félagsþjónustu og að þau hafi sett sig í samband við Halldóru Ólafsdóttur yfirlækni geðdeildar og lýst yfir áhyggjum af geðheilbrigði hennar. Það sé augljóst því spítalinn hugsi ekki með sér uppúr þurru: Já, Aldís er geðveik. Greinst geðveik samkvæmt þessari ómarktæku, hlálegu og fáránlegu greiningu, að sögn Aldísar. Við svo búið vék sögu að ákærulið númer tíu, ummælum Aldísar á Facebook-síðu sinni þar sem hún talar um barnaníðingabandalag Jóns Baldvins. Aldís segir að það sé mikilvægt að það komi fram að fjórar konur hafi vaknað upp við Jón Baldvin um nótt, við káf hans og staðfest sé að faðir Guðrúnar Harðardóttir, hafi séð þegar hann læddist upp í herbergi þar sem tíu ára stúlka var sofandi. „Að Jón Baldvin skuli voga sér að bera það upp á mig að bera ljúgvitni um náungann. Mér sárnar það mjög.“ Barnaníðingabandalagið Aldís vísar til áðurnefnds viðtals við Jón í Silfrinu þar sem hún segir að Jón Baldvin hafi veist að æru sinni og æru dóttur hans sem aldrei hafi sakað hann um kynferðisbrot. Og það hafi verið sem blaut tuska framan í þær konur sem hafa skrifað sína sögu með tárum. Aldís nefnir að Jakob Frímann hafi stigið fram magsinnis og lýst yfir stuðningi við Jón Baldvin. Hann hafi sagt við sig þegar hún hitti hann að sér væri alveg sama. Þetta reyndist Aldísi hugljómun en hún hafi verið afar sár eftir viðtalið við Jón Baldvin í Silfrinu, fyrir sína hönd, fyrir hönd barns síns og margra annarra. Að verið væri að breiða yfir níð gegn börnum. Þá sagðist Aldís vera sár fyrir hönd barnsföður síns, sem nú er látinn. „Hann var af rússneskum aðalsættum, vonandi get ég gefið út ljóðin hans, en að veitast að æru hans var lítilmannlegt en hann var ekki viðstaddur þegar þessi orð féllu.“ Sprautuð með forðasprautu Aldís furðaði sig ennfremur á þeirri kenningu að hún væri á bak við allan þann framburð sem fyrir liggur um kynferðislega áreitni Jóns Baldvins og velti því fyrir sér hvernig það hefði farið fram: Sæl. Heyrðu, ertu til í að búa til fyrir mig smá um kynferðisbrot? „Mér þætti vænt um að fá nánari útlistun Jóns Baldvins á þessari samsæriskenningu?“ sagði Aldís og taldi hans framgöngu hvað þetta varðaði lítilmótlega og löðurmannlega, svo vitnað sé til orða hennar: Og lygari væri hún ekki. Lögmaður Aldísar spurði hvort á henni hafi verið framkvæmd geðrannsókn og Aldís upplýsti að í tvígang hafi hún verið flutt í járnum á geðdeild, í viðurvist barns síns. „Ég fékk ekkert viðtal heldur sprautuð strax með forðasprautu. Fyrir mér er sprauta það skelfilegasta sem ég veit. Öll þessi skipti; læknisvottorð voru skrifuð eftir á.“ Þá nefndi Aldís, öðru sinni, að mat lækna á því að hún væri haldin ranghugmyndum um kynferðisbrot Jóns Baldvins gæti ekki verið yfir allan vafa hafið. Hún vísaði til mats Gunnars Hrafns Birgissonar sálfræðings, doktors í klínískri sálarfræði og sem sé einn vandaðasti maður sem Aldís hafi kynnst um dagana. „Hann komst að þeirri niðurstöðu eftir mörg viðtöl og próf. Sjálf hafði ég í lögfræðinni verið látin taka persónuleikapróf, átta aðilar sem hafa komist að þeirri niðurstöðu,“ sagði Aldís sem komi ekki heim og saman við mat þeirra á Landsspítala „Og þó maður sé greindur með geðhvarfasýki er maður ekki lygari. Nema helst siðblinda, skilst mér.“ Eins og hún sé föst í hryllingsmynd Gunnar Ingi lögmaður spurði skjólstæðing sinn þá að því hvaða áhrif þetta hefði haft á persónulegt líf hennar og Aldís sagðist varla eiga til orð. „Mér líður eins og ég sé föst í einhverri hryllingsmynd. Þetta er martröð. Ég reyndi hvað ég gat að fyrirgefa og lagði til sátt,“ sagði Aldís. Hún sagðist hafa boðið í afmælisboð dóttur sinnar. Kolfinna hafi mætt þangað en á milli hennar og systkina hafi framan af verið hlýtt; hún kenndi þeim á klukku, að lesa og hafi verið þeim góð. „Það var helvíti á jörð að vera uppi á geðdeild. Fyrirlitningin og ókurteisin af hálfu geðlækna sem sögðu mér að halda kjafti þegar ég vildi tala um kynferðisbrot Jóns Baldvins. Ég er nýbúin að losna við ótta við lögreglubíl,“ segir Aldís og lýsir því þegar hurð að heimili hennar var hrundið upp árið 2002 og barnið tekið grátandi úr faðmi hennar. Aldís segir málið allt hafa verið martröð líkast.vísir/vilhelm Hún hélt að móðir sín væri á leið í fangelsi. Aldís segir að fyrir hafi legið beiðni Jóns Baldvins, sendiherrans og utanríkisráðherrans og hún hafi ekki átt möguleika. „Ég grét og grét og grét á geðdeild og spurði um barnið mitt.“ Árið 2012 hafi orðið straumhvörf, í ofanálag ólögmætar nauðungarvistanir fyrir orðastað þeirra, „að það eigi að núa mér uppúr þeim vistunum með níðgreinum til að sverta ímynd mína til að bjarga sinni. Sé ég að segja satt hef ég ekki bara upplifað kynferðisbrot heldur meiðyrðabrot og það endalaust, Það var hræðilegt að lesa þessar níðgreinar 2012 ég hélt ég myndi deyja.“ Aldís segist hafa átt sér stóra drauma. Hún væri lögfræðimenntuð en lífið sé lexía. Ekkert komi henni á óvart lengur. En „þessar ógeðslegu aðfarir hafa styrkt samband mitt við dóttur mína.“ „Við bitum á jaxlinn og héldum kjafti“ Spurð um Mannlífsviðtalið sem ítrekað var vitnað í af stefnanda og stuðningsfólki hans, þar sem fram kemur að gott hafi verið á milli þeirra Jóns Baldvins, segir Aldís að ólíkt Jóni Baldvini sé æra, heiður og sómi nokkuð sem hún telji að beri að virða. Það hafi Bryndís kennt henni. Það voru aðrir tímar þá, núna sé vandamál í blöðunum, hver eigi erfiðast. „Við bitum á jaxlinn og héldum kjafti. Metoo breytti því. ég elskaði Jón Baldvin,“ sagði Aldís við vitnaleiðslunar. Og Jón Baldvin hafi í þrígang sagst elska hana. Orð sem ég þráði að heyra en hann sagði þau uppi í rúmi hjá mér um miðja nótt. Aldís segir að Jón Baldvin hafi verið ógáfulegur og rifjaði upp senu þegar hann rembdist við að vinna dóttur hennar barnunga í skák, rauður í framan og hafi þá ekki verið gáfulegur á svipinn. „Aldís segir að hún hafi verið bullandi reið út í Jón Baldvin 2002 og „búin að segja að ég vildi ekki sjá hann meir.“ En í nýrri bók eftir Bryndísi hafi hún talið 75 lygar um sig og ekki vísað í nein gögn. „Ég þakka fyrir þessi réttarhöld hér,“ sagði Aldís og sagði að endingu, í vitnaleiðslum undir spurningum lögmanns síns, að það væri „algjör lygi“ að hún hafi lagt barnsföður Snæfríðar lið. Hún hafi þvert á móti beðið Hróbjart Jónatansson, hinn virta hæstaréttarlögmann, að hjálpa systur sinni. Sem hún þáði. Æra Jóns Baldvins var æra mín Lögmaður Jóns Baldvins, Vilhjálmur, tók þá til við að spyrja Aldísi út úr, fyrst um aðdragandann að viðtalinu í Morgunútvarpinu, sem málið sem nú er rekið snýst um - þau ummæli sem féllu þar. Aldís tók þá að rekja að það hafi verið sér mikið áfall, eins og áður sagði, að lesa það frá Jóni Baldvin að hún væri geðveik. „Ill og hættuleg og að ég væri að pína fjölda kvenna til að bera vitni gegn Jóni Baldvin.“ Aldís sagðist ekki muna tildrögin í smáatriðum, hvort það hafi verið Sigmar eða Helgi Seljan, sem vann að viðtalinu ásamt Sigmari, sem hafði samband við sig upphaflega. Aldís sagðist hafa farið til fundar við þá klyfjuð gögnum sem hún lét þeim í té? Aldís er þá spurð hvernig andlegri heilsu hennar hafi verið háttað 1995 en Aldís sagðist aldrei hafa skilgreint sig sem geðsjúka. Og það staðfesti mat átta sérfræðinga sem kemur ekki heim og saman við þetta eina plagg sem kveði á um það frá Landspítalanum. Hún sagði að því hafi verið sagt að hún væri haldin ranghugmyndum um kynferðisbrot föður hennar en hún minntist þess að Jón Baldvin hafi haldið því fram að hafa riðlast á ömmu hennar. Heilagri konu, sem og systur móður hennar og einni mágkonu. Vilhjálmur spyr út í viðtal systranna margumrætt í Mannlífi en Aldís segist hafa 1993 upplifað kraftaverk, en trú á geðdeild teljist geðveiki. „Ég var endalaust að fyrirgefa. Æra Jóns Baldvins var æra mín. Ég sagði sannleikann geðlæknum bundnum þagnaskyldu. 1995 var ég ekki búin að fá sjúkraskýrsluna í hendur, né bréf Guðrúnar.“ Meira um hið meinta barnaníðingabandalag „Telur þú að stefnandi beri ábyrgð á frelsissviptingu þinni?“ spyr Vilhjálmur og Aldís segist alltaf hafa sagt að hann hafi knúið hana fram, lagt fram beiðni; hún uppástandi það. Nauðungarvistun og hafi misnotað aðstöðu sína. En hvorki hún né Sigmar hafi sagt það. Um barnaníðingabandalagið jánkar Aldís því að ekki sé gaman að fá slíkt yfir sig en hún hafi verið helsár eftir svívirðilegar ærumeiðingar föður hennar um sig; „þar sem ég er aðalumræðuefni og barnsfaðir minn heitinn. Lítið gert úr okkur, ég sökuð um óheiðarleika og að pína fólk til að saka hann um … ég er mjög reið og ég segi, ég mun sigra hann og hans barnaníðingabandalagið. Hann hefur níðst á eigin barni. Þeir sem vilja breiða yfir kynferðisbrot hans og samþykkja kenningu hans að ég standi þarna að baki, ásökunum á hendur honum. Hann er barnaníðingur, barnaníðingabandalag … þá er ég að tala um kjósendur þessa alþýðuflokksbandalags, ekki að halda fram að þetta sé einhver stofnun, sem gera lítið úr kynferðisbrotum.“ Endurlit eða „flash back“ Þá vék Vilhjálmur að lið 14 í stefnu þar sem því er haldið fram að Jón Baldvin hafi framið sifjaspell. Vilhjálmur heldur því til haga að þetta séu ummæli sem stefni Sigmar nefnir en eiga að vera höfð eftir Aldísi með einhverjum hætti. Til hvaða atvika er vísað hér? „2012, þetta hryllingsár þegar ég sat undir gengdarlausum meiðyrðaskrifum foreldra minna birtist vitnisburður við Valgarð Bragason. Jón Baldvin sagði ásakanir Aldísar algerlega fráleitar.vísir/vilhelm (Valgarður hefur lýst því að hann hafi fengið einskonar endurlit og áttað sig á því löngu síðar að hann var eitt fórnarlamba Séra Georgs og Margrétar Muller í Landakotsskóla í frægu máli.) Aldís lýsti því að móðir Valgarðs, Nína Björk heitin Árnadóttir, það hafi verið fram bréf, meðal annars prest. Tveir aðilar hafi svo tjáð henni að vitað væri að Jón Baldvin sæki í börn í kynferðislegum tilgangi. Það sé ekki oft sem hægt er að staðfesta ásakanir um kynferðisbrot, þau séu framin að baki luktum dyrum. Segir Kidda rót hafa sótt sig á geðdeildina Hvenær átti þetta sifjaspell sér stað og með hvaða hætti, spyr þá Vilhjálmur. Aldís vísar í skýrslu sem Vilhjálmur hafi fengið en nánast frá þeim degi sem hún stígi fæti á geðdeild fái hún forðasprautu. Hún hafi aldrei farið til sálfræðings, fyrir utan þessa rannsókn hjá Gunnari Hrafni, og hún hafi misst minnið vegna sprauta. „En ég man eftir leðursætunum og man eftir kynfærunum á honum í bílnum. Þetta gerist þegar ég er rænulaus uppá geðdeild og ég get ekki vitað í hvaða nauðungarvistun.“ Aldís á greinilega afar erfitt með að tala um þetta en segir að hún minnist þess að Kiddi rót, sem var þekktur einkabílstjóri Jóns Baldvins, hafi sótt sig og keyrt fram og til baka í sund á kostnað ríkisins. Aldís bandar þessu frá sér og bendir Vilhjálmi á að lesa lögregluskýrslunnar. Vilhjálmur vísar til Árna Stefáns Árnasonar, fyrrverandi lögmanns Aldísar, með að almannarómur hafi verið á geðdeild að stefnandi hafi misnotað hana? Aldís á augljóslega afar erfitt með að ræða þetta. Hún hryllir sig, nefnir að hún hafi fimm ára fengið verklega kennslu í sjálfsfróun, þetta sé ógeðslegt og erfitt að tala um þetta. En Jón Baldvin hafi heimsótt sig á geðdeildina til að nauðga sér. Um það sé fjallað í dómsskjali 88, kæruskýrslu árs 2013. Aldís segist ætla til dávalds, í dáleiðslu, það verði sárt en hún geti ekki staðið í þessari baráttu meðan hún sé í sárum. Það bíði betri tíma, hún verði að læknast af því sem gerðist. Viðtalið ekki tekið í tómarúmi Þá var komið að Sigmari Guðmundssyni að setjast í vitnastólinn. Hann gerði grein fyrir því aðdraganda viðtalsins, sagði að hann og félagi hans Helgi Seljan, hafi hitt Aldísi í tvígang og farið yfir mikið magn gagna sem hún afhenti þeim. Þá sagði hann og lagði fram gögn þess efnis, að hann hafi gert ítrekaðar tilraunir til að hringja í Jón Baldvin, sent honum tölvupóst og SMS-skeyti. Sigmar Guðmundsson mætti vel undirbúinn í héraðsdóm.vísir/vilhelm Sigmar benti á, í þessu sambandi þó hann væri ekki að segja að svo hafi verið í þessu tilfelli, að þess væru dæmi að menn vildu drepa mál með því að láta ekki ná í sig. Og það væri ekki boðlegt. Sigmar sagði að það yrði að gæta að samhenginu, viðtalið sprytti ekki upp úr tómarúmi. Metoo-umræðan hafði verið í umræðunni, í fréttum og allt það í mikilli deiglu. Þá greindi Sigmar frá því að fjórum dögum áður en viðtalið við Aldísi, sem var tekið upp, klippt var birt hefðu þeir verið með Guðrúnu Harðardóttur í viðtali. Hún hafði komið fram með sitt mál fyrir löngu en taldi sig hafa mætt ákveðnu tómlæti. En nú væri meira hlustað, vegna Metoo. „Í framhaldi af því fannst okkur rökrétt að tala við Aldísi Schram, hvort hún vildi tjá sig um hennar mál. Fjölskyldan hefur alltaf haldið því fram að rót hennar sagna eigi rót sína að rekja til geðveiki hennar,“ sagði Sigmar og sagði þá telja hana hafa átt rétt á því að fá að segja sína sögu. Þeir útvarpsmenn höfðu samband við hana þremur dögum áður en viðtalið var tekið, hittu hana tvisvar áður en það var tekið upp. Gögnin höfðu þeir til hliðsjónar þegar viðtalið var klippt og þegar komin var mynd á það var hringt ítrekað í símanúmer Jóns Baldvins. „Og þegar leið á daginn fyrir birtingu sendi ég SMS og tölvupóst til Bryndísar, að við yrðum með þessa umfjöllun og honum stæði til boða að koma fram með sín sjónarmið.“ Simmi og Villi Sigmar sagði að Aldís hafi setið undir ásökunum um að hún sé geðveik, að allt eigi sér rætur í því en svo eftir Metoo hafi verið fullkomlega eðlilegt að Aldís segði sína hlið; hvernig stóð á því að hún var lögð inn? Fólk sem er greint með geðhvarfasýki, ef þú ert með geðhvarfasýki, lifir ekki í stöðugum stöðugum ranghugmyndaheimi í svefni og vöku. Sigmar segir þá Helga hafa metið það hvort hún virtist í maníu eða einhverju slíku en því var ekki til að dreifa. Hún kom þeim fyrir sjónir sem mjög skýr og vísaði ætíð réttilega í gögnin sem þeir spurðu hana út í fram og til baka. „Að manneskja væri talin geðveik og svipt, hún ætti allan rétt á í heimi að tjá sig. Þannig blasir þetta við okkur sem fréttamönnum. Við eru ekki dómstóll eins og Jón Baldvin hélt fram ranglega, ekki frekar en Silfrið þar sem hann var í viðtali,“ sagði Sigmar. Að ýmsu leyti hafi fjölmiðlar brugðist Aldísi með að leggja trúnaði við að hún væri geðveik og ætti þannig ekki rétt á að tjá sig. Aldís, Sigmar og lögmenn þeirra.vísir/vilhelm Útvarpsmaðurinn svaraði spurningum stefnanda með því að ávarpa hann Villa og greip þá dómari inn í og bað hann um að ávarpa réttinn með viðeigandi hætti. Sigmar, sem reyndar Vilhjálmur hafði áður kallað Simma, baðst afsökunar á því og sagði það rétt að þetta væri of kumpánlegt miðað við aðstæður. Varðandi ákæruliðina sem að honum sneru benti Sigmar á að þetta væru ekki hans orð né Helga. Þeir væru fjölmiðlamenn og bæru ekki ábyrgð á því sem aðrir segðu. Varðandi stiklu, þar sem Sigmar greinir frá því að Aldís saki föður sinn um sifjaspell, en ekki var komið inná það í viðtalinu sjálfu, segir Sigmar bagalegt að Helgi sé ekki þarna einnig. Því þeir hafi unnið þetta saman og líklegt sé að Helgi hafi skrifað textann þó hann hafi flutt. Hann muni ekki hvernig það var. En benti jafnframt á að það atriði hefði þegar komið fram opinberlega. Þeir hafi einungis verið að greina frá því og ekkert umfram það. Bryndís látin sverja drengskaparheit Næst í skýrslutöku var Bryndís Schram, eiginkona Jóns Baldvins, móðir Aldísar. Vitnaleiðslurnar höfðu tekið mjög á viðstadda, óhætt er að segja það og enn hertist róðurinn þegar Bryndís bar vitni á vegum lögmanns Jóns Baldvins. Framburður Bryndísar var með þeim hætti að það fór um viðstadda og lengstum var Aldís með tárin í augum. En Bryndís bar vitni í gegnum síma, hún treysti sér ekki til að mæta í réttarsal sökum veikinda. Það vakti athygli þegar dómari greindi frá því að fyrir lægi beiðni frá stefndu að Bryndísi yrði gert að sverja eið þess efnis að hún segði satt og rétt frá. Ef vitni hefur unnið slíkan eyð og í ljós kemur að um rangan framburð sé að ræða geti það leitt til refsiþyngdar fyrir viðkomandi í dómsmáli. Bryndís sagðist ætla að vera opinská og gekkst inná það að sverja drengskaparheit. Hún sagðist ekki trúa á Guð og því var hún látin rétta upp hægri hönd og hafa eftir Jóhannesi Rúnari dómara: „Ég lýsi því yfir, og legg við drengskap minn, og heiður, að ég hef sagt það sem ég veit sannast og réttast, og ekkert dregið undan.“ Í stuttu samtali við blaðamann Vísis eftir fyrri hluta aðalmeðferðar staðhæfði Aldís að þær Kolfinna og Bryndís hafi farið með rangt mál og viðbúið að fram komi kærur sem grundvallist á því. Átakanlegur vitnisburður Bryndísar Vilhjálmur lögmaður bað Bryndísi að lýsa veikindum Aldísar sem dæsti, sagði þetta langa sögu. „Þegar ég lít til baka man ég að Aldís var mjög gott barn, gekk vel í skóla, átti stóran hóp vina. Við bjuggum lengi í húsi foreldra minna, en þegar við fluttumst vestur var hún þar en kaus svo að fara til baka. Hún lauk stúdentsprófi á mettíma,“ segir Bryndís. Hún segir að það hafi ekki verið fyrr en löngu síðar sem þau hjón tóku að hafa áhyggjur, þegar Aldís var í leiklistarnámi í London komin yfir þrítugt og svo í dularfullu ferðalagi í Ísrael. Bryndís segir að Aldís hafi verið komin í sambúð um tvítugt og það hafi ekki verið svo að þau hafi fylgst með lífi hennar frá degi til dags. Bæði á kafi í vinnu. Því kom það í hlut annarra að takast á við það þegar hún þurfti á læknishjálp að halda: borgarlæknir, félagsmálastofnun, stuðningsforeldri, barnavernd og svo framvegis, auk ættingja. „Ég vonaði að þetta væri tímabundið og þetta myndi allt lagast. Eftir að móðir mín dó, 1991, sem Aldís tók mjög nærri sér en þær voru nánar, keyptum við íbúð handa henni við Tryggvagötu. Við fórum að hafa áhyggjur af því að hún gæti aldrei séð sér farborða í lífinu og um það leyti var hún komin með nýjan kærasta.“ Þekkti varla dóttur sína Bryndís segir að veikindi Aldísar hafi verið óbærileg lífsreynsla. „Satt best að segja þekkti ég ekki þessa dóttur mína þegar ég heimsótti hana á geðdeild. Við vorum læstar inni á herbergi sem hún hafði ein. Hún hjúfraði sig upp að mér, gróf sig inn í mig og mér fannst eins og hún vildi gerast barn aftur, ég varð hrædd og treysti mér aldrei til að upplifa þessari lífsreynslu óbærileg sem aldrei gleymist.“ Bryndís segist spurð um geðhvarfasýki ekki hafa hugleitt svona sjúkdóma né vissi hún hvernig hún átti að hugsa þetta. „Það var eins og ég væri búin að tapa dóttur minni og gæti aldrei nálgast hana aftur.“ Helgi Seljan vann viðtalið við Aldísi ásamt Sigmari. Málið er hins vegar á hendur Sigmari því hann flutti textann sem þeir skrifuðu saman. Í samtali við Vísi segir Helgi það ábyggilega svo, eins og Sigmar minnti og fram kom í vitnisburði hans, að hann hafi skrifað klausuna um sifjaspell, sem ákært er fyrir.vísir/vilhelm Bryndís rekur, eins og Jón Baldvin hafði áður gert, að þegar Aldís var 33 ára 1992 hafi hún farið sjálfviljug inn á geðdeild, eins og hún gerði sér grein fyrir því að hún væri hjálparþurfi. Bryndís segir að við hafi tekið góður tími, hún hafi notið þeirrar umönnunar og verndar sem þurfti frá samfélagsstofnunum. Svo fluttu þau hjón af landi brott 1998 og Bryndís segist aldrei hafa kynnst barnabarni sínu, því hafi verið haldið frá sér. Væri löngu búin að slíta samskiptum við slíkan ræfil og öfugugga „Aldís, af trúarástæðum held ég, hætti að nota lyf,“ sagði Bryndís og undirstrikaði að það væri í höndum lækna að meta ástand sjúklings hverju sinni. Nauðungarvistun á þeim tíma hafi aðstandendur þurft að veita samþykki sitt fyrir. En frumkvæði kom frá læknum og það þyrftu aðstandendur að samþykkja. Sem bitnaði harkalega á þeim. „Oftar en ekki beinir sjúklingurinn hatri sínu að sínum nánustu og það var það sem gerðist í okkar tilfelli.“ Vilhjálmur spurði Bryndísi hvort það gæti verið svo að þessar ólögmætu frelsissviptingar séu á ábyrgð Jóns Baldvins. Það taldi Bryndís af og frá. Hún minnist þess að Jón hafi fylgt dóttur sinni í eitt skipti inn á geðdeild, þegar hún fór þangað sjálfviljug. „Aldís tók það fram skriflega að hann einn mætti fyrir hönd aðstandenda samþykkja frelsissviptingu. Á þeim árum vorum við búsett erlendis. Hann varð lögum samkvæmt að veita samþykki sitt og það var með sérstakri heimild Aldísar. Vilhjálmur benti á að hluti ásakana væru þær að Jón Baldvin hafi framið sifjaspell gagnvart dóttur sinni. Hvenær Bryndís hafi heyrt af því fyrst? „Fyrir stuttu, ég hafði aldrei heyrt það, það kom fram í útvarpinu, 2019. Ef það væri eitthvert sannleikskorn í þessari svívirðilegu ásökun sem er ruddaleg gagnvart okkur og mér, væri ég ekki hér, 20 árum síðar, að halda hlífiskildi yfir glæpamanni. Ég væri fyrir löngu búin að slíta samskiptum við slíkan ræfil og öfugugga.“ Þá er hann sakaður um að vera barnaníðingur? „Já, barnagirnd, ég er búin að svara því, þetta er svo niðurlægjandi, svo óhugnanlegt fyrir mig sem er búin að vera gift þessum manni í allan þennan tíma, aldrei staðið hann að öðru eins ógeði. Nálgast að vera morð, slíkur maður hann ætti að vera í fangelsi. Horfinn af sjónarsviðinu og ég hefði aldrei látið slíkt líðast,“ sagði Bryndís og lagði ríka áherslu á orð sín. Hún sagði þetta orð nýtt ár í tungumálinu. „Ef eitthvað slíkt hefði gerst á mínu heimili hefði ég gengið út og aldrei látið sjá mig aftur. Það er alveg satt.“ Óhætt er að segja að orð Bryndísar hafi verið afar dramatísk eins og þau hljómuðu um hátalarakerfi héraðsdóms. Bryndís hefur áður sagt óhugsandi að hún væri í tygjum við annan eins mann og þann sem Jóni Baldvini er nú lýst í tengslum við ásakanir um kynferðisbrot. Vilhjálmur vék næst tali að bréfi Snæfríðar til Aldísar. Bryndís segir að það hafi verið ódagsett því þau hafi farið yfir það saman. Og síðar hafi Snæfríður fengið Kolfinnu og Glúm, börn þeirra hjóna, til að skrifa undir. „Eftir þetta sleit Snæfríður öllum samskiptum við Aldísi, sem henni var þungbært,“ segir Bryndís og nefnir það sem fram hafi komið áður að barnsfaðir hennar hafi sent sendiráðum víða um heim bréf þar sem hann lýsir þessari meintu hegðan föður gegn dætrum sínum. Vilhjálmur spurði Bryndísi því næst út í margumrætt viðtal við systurnar í Mannlífi, og hin lofsamlegu orð sem Aldís lætur þar falla um föður sinn. Viðtalið við Mannlíf. Lofsamleg orð sem Aldís lætur falla um föður sinn? Bryndís segir það viðtal dásamlegt og hún sé með það í bók sinni nýútkominni, Brosað í gegnum tárin, en þar heldur Bryndís uppi vörnum fyrir eiginmann sinn. Spurð segist Bryndís ekki átta sig á því hvað það var sem breyttist. Sennilega sé það þetta með sjálfræðissviptinguna. Hún hafi komið til föður síns, sagt að hann væri eini maðurinn sem hún treysti til að bera ábyrgð á lífi sínu. „Þú einn mátt skrifa undir.“ Reið sögusögnum um að hún væri drukkin í að grípa um kynfæri karla Tónninn í röddu Bryndísar hafði fram til þessa verið sár en hún er hvöss þegar hún vísar í málsskjöl þar sem sagt er um hana að hún sé alveg eins og Jón Baldvin; oftast sauðdrukkin og grípi þá um kynfæri karla á öllum aldri. „Ef þið trúið þessum sögum um mig er engin ástæða til að trúa neinum sögum. Þetta er sama sjúka hugsun og hjá dóttur minni sem neitar því að vera veik. Ef hin sjúka hefði viðurkennt sjúkdóm sinn og leitað til læknis hefðu þessi fáránlegu málaferli aldrei átt sér stað.“ Gunnar Ingi, lögmaður Aldísar, tekur nú til við að spyrja Bryndísi út úr og hann nefnir að þau hafi verið nokkur skiptin sem Aldís mátti sæta nauðungarvistun? Bryndís svaraði því svo til að aðkoma þeirra hjóna hafi aldrei verið neinn. Og svo einkennilega vildi til, og á það hafi einhver bent að hún verði alltaf veik þegar hún Bryndís sé ekki heima. Því lenti þetta á systrum hennar tveimur og bræður tveimur, Björgvin og Ellert, og vinkonum hennar tveimur, vinkonum Aldísar að bregðast við ástandinu. „Ég fór aldrei með henni uppá spítala, heimsótti hana einu sinni á spítala en það var mér óbærilegt og fór aldrei aftur.“ Gunnar Ingi spyr þá hvernig það megi vera að í málsskjali 14 liggi fyrir undirrituð ósk frá henni, ósk um nauðungarvistun? Bryndís segir að í sig hafi verið hringt frá lögreglu, hún man ekki til þess að hafa farið á lögreglustöðina. Það rifjist upp fyrir henni þegar Gunnar Ingi nefnir það, að hringt hafi verið í sig. Jón Baldvin þá ekki heima og hún hafi þá verið staðgengill hans. Þannig að þú undirritar þetta án þess að hafa hugmynd um málið af nokkru leyti, spyr þá Gunnar Ingi. Bryndís svarar því til að hún muni ekki eftir þessu en rámi í að fylgt hafi læknisvottorð. Aldís vilji fara út af geðdeild þegar henni þóknaðist og hafi alfarið neitað alfarið að taka lyf. Þá hafi komið fram beiðni um nauðungarvistun og fylgt læknisvottorð frá Kjartani Kjartanssyni. Yfirheyrsla lögmanns Aldísar Gunnar Ingi spyrði þá um hvort þau hjón hafi haft aðkomu að nauðungarvistun Aldísar 2002, 13. apríl. En það er eftir að Aldís kemur heim frá Washington. Bryndís telur það ólíklegt og segist ekki muna eftir því að hafa þurft að koma að málum Aldísar á þeim árum. „Það hlýtur að hafa verið hart lagt að mér af lögreglu en ég segi það satt að ég man ekki eftir því að ég gæti komið í stað Jóns Baldvins. Ótrúlegt að heyra þetta núna.“ Bryndís segir að foreldrar Aldísar hafi haft áhyggjur af henni, og Jón Baldvin hafi verið staddur í Kanada, en Bryndís segist ekki átta sig á því hvernig hún gæti hafa komið að þessari ráðstöfun með því að prenta út skjal, undirrita og senda í faxi. Hún muni bara ekki eftir því. En kannast þú við að hafa óskað eftir því að það yrði leitað að henni 2002? Bryndís segist hafa verið í Ameríku en hún muni að bróðir hennar var að leita að henni. Hún hafi yfirleitt bara verið látin vita. Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður Aldísar yfirheyrði Bryndísi um ýmis atriði sem tengjast málinu.vísir/vilhelm Gunnar Ingi vitnaði þá í dagbók lögreglu þar sem fram kemur að móðir Aldísar hafi ætlað að senda fax og óska eftir leit. Hefur þú komið að einhverjum þessum málum? Bryndís spyr þá á móti hvort ekki sé eðlilegt að áhyggjufull móðir biðji einhvern að leita að barni sem gæti farið sér að voða. Gunnar Ingi spurði Bryndísi þá hvaða upplýsingar hún hafi haft á þeim tíma, þess efnis að Aldís gæti farið sér að voða? Bryndís svarar því til að hún hafi verið með fjögur börn heima á Íslandi sem yfirleitt upplýstu sig um hvað væri í gangi. „Man eftir því að hún lét sig hverfa og allir mjög hræddir, sem móðir hafði ég áhyggjur af dóttur minni.“ Gunnar Ingi spyr hvort einhver gögn séu til, skrifleg, sem borist hafi yfiröldum eða læknum þar sem þessum áhyggjum sé lýst? Bryndís telur svo ekki vera, oftast hafi verið hringt í þau hafi eitthvað komið uppá. Hún viti ekki hvaða gögn Jón Baldvin fékk send en þau voru aldrei send til hennar. Kannastu við að Aldís hafi borið kynferðisbrot uppá stefnda fyrir 1988? „Nei, það hafði ég aldrei heyrt. Þau voru nánir vinir, hún elskaði föður sinn meira en mig.“ Sakaður um að hafa nauðgað öllum tiltækum konum Þegar Bryndís er spurðu hvenær hún hafi frétt af ásökununum segist hún fyrst hafa heyrt það í þessu fári núna. Hún hafi aldrei heyrt þessi ljótu orð fyrr, barnaníð. Gunnar Ingi nefnir þá heimsóknin örlagaríku 2002 til Washington. Bryndís segir að hún hafi endað með skelfingu en því lýsi hún í bók sem hún sé nýbúin að gefa út. Að Aldís komi þung og byrji að tala um að hann væri barnaníðingur, að hann hafi snert dóttur sína. Og hún haldi áfram að tala um þetta; „að hann hafi nauðgað móður sinni, systrum hennar, vinkonum, vinkonum sínum, frænkum …Bara öllum tiltæku konum. Ég stóð sem lömuð við eldavélina.“ Bryndís segir að sárt hafi verið að hlusta á þetta allt saman. Spurningu Gunnars Inga um hvort rangt hafi þá verið það sem hún sagði áður svaraði Bryndís sem svo að Aldís hafi ekki talað við sig í tuttugu ár. Og hún kannaðist ekki við að hafa verið boðið í afmælisveislu dóttur Aldísar, sem frá hefur verið greint fyrr. Bryndís Schram en myndin er tekin þegar útkomu uppgjörsbókar hennar Brosað í gegnum tárin var fagnað að heimili þeirra Jóns Baldvins í Mosfellsbæ.Hallgrímur Sveinn Bryndís mundi ekki eftir ballettsýningu sem Aldís segir að til hafi staðið að fara á í Washington né ummæli þess efnis að Aldís vildi ekki skilja dóttur sína eftir í umsjá afa síns. Bara þetta að Jón Baldvin hafi borið barnið sofandi upp og lagt til hvílu og nú væri hann orðinn glæpamaður sem væri búinn að nauðga öllum konum í fjölskyldunni. Spurð segist Bryndís fljótlega heyrt af bréfaskrifum til Guðrúnar Harðardóttur. Jón Baldvin hafi skrifað fjórum konum, sér, Kolfinnu, Snæfríði og svo Guðrúnu. Hún sé meðvituð um efni þessara bréfa því Jón hafi sagt sér af þeim, að hann hafi gert hræðileg mistök. Það hafi hann sagt sér um 2000. Hún segir að þá hafi verið búið að stofna leshóp, Guðrún hafi verið lesblind og þeim hafi þótt vænt um þessa stelpu. „Þetta var ekkert stórmál fyrr en elsta dóttir okkar gerði mál úr þessu.“ Gæti best trúað að Aldís hafi skrifað allt á Metoosíðuna Bryndís segist spurð aldrei hafa séð Metoo-síðu sem sérstaklega er tileinkuð Jóni Baldvini. Hún hafi aldrei litið á það, ekki haft áhuga á því. „Þær hata mig hryllilega og eru að ná sér niður á mér með því að ráðast á Jón Baldvin. Bryndís er alveg eins og Jón Baldvin grípur um kynfæri karla á fylleríum…“ sagði Bryndís. Gunnar Ingi segir þá að efni síðunnar sé í stuttu máli það að þar séu tugir kvenna sem haldi því fram að Jón Baldvin hafi leitað á þær, einnig sem börn og spyr Bryndísi hvort hún sé þeirrar skoðunar að þetta sé uppspuni frá rótum? Bryndís segir já við því og hún gæti best trúað að Aldís hafi skrifað hvert einasta orð sem þarna kemur fram. Hún segist hafa lesið Stundina, þar sem greint var frá ásökunum á hendur Jóni, líka það sem stóð um sig. „Það var allt lygi, þarna er verið að lýsa einhverju fólki … við erum ekki ruddar, ekki sóðar, ekki ógeð, við erum bara ekki þannig fólk. Ég væri þá ekki vel upp alin að hafa verið gift þessum manni í 62 ár.“ Sólvarnarkrem á Ítalíu Bryndís segist að Guðrún hafi viljað vera með þeim og varðandi meint káf bónda síns þá hafi það verið svo að Guðrún var með þeim hjónum auk Kolfinnu og tveggja barna hennar. Frænku hennar hafi langað svo með til útlanda. Það hafi verið 40 stiga hiti við sundlaug og hún hafi beðið Jón um að bera sólarkrem á þessi börn. „Hvarflaði ekki að neinum að það væri eitthvað óeðlilegt við það.“ Svo lýsir Bryndís því að Jón Baldvin hafi verið fenginn til að henda henni út í öldurnar sem þótti þá mjög spennandi en orðið að sakamáli löngu seinna. „Jón Baldvin talar við alla eins og fullorðna, líka börn, og ég held að það sé orsökin fyrir þessu.“ Bryndís segist hafa hitt Aldísi í eitt skipti, áðurnefnt, á geðdeild. Hún hafi verið sjúk, fáklædd, hafi hjúfrað sig upp að sér. „Ég hef aldrei séð geðveika manneskju áður,“ segir Bryndís. Það hafi ekki verið fyrir hennar atbeina að hún var vistuð á geðdeild 2013. Þetta hafi verið eina skiptið sem hún hafi séð dóttur sína geðveika í alvöru. Afar kalt milli þeirra systra Kolfinna dóttir þeirra Jóns Baldvins og Bryndísar, systir Aldísar, var næst í vitnastúkuna. Hún var mætt sem vitni Jóns Baldvins og ekki fór á milli mála, að teknu tilliti til radd- og líkamsbeitingar að afar stirt er milli þeirra systra. Það átti eftir að koma betur í ljós því stóru orðin voru hvergi spöruð. Kolfinna var einnig, líkt og Bryndís, látin vinna drengskaparheit. Hún sagðist hafa í nokkur skipti þurft að hafa afskipti af Aldísi í geðrofi og hún lögð inn í maníukasti. Kolfinna sparaði ekki stóru orðin, sagði systur sína djöful í mannsmynd og hún gæti eyðilagt hvern sem er. Hér mæta þau feðgin, Kolfinna og Jón Baldvin í héraðsdóm á miðvikudaginn.vísir/vilhelm Lögreglan hafi leitað til ættingja og í tvö skipti var það svo að hún var ein á landinu. Þá hafi einnig verið hringt í aðra ættingja. Þannig byrjaði ferlið. Lögreglu hafi þá þurft að kalla til og læknar þurftu að meta hvort hún verði áfram inni, sjálfviljug eða svo eru það læknar sem meta hvort það beri að svipta hana sjálfræði. Kolvinna sagðist einu sinni hafa verið kölluð inná heimilið þar sem hún Aldís hafi verið búin að lokað sig inni á herbergi og hótaði að drepa barn sitt. Átakanlegt, sagði Kolfinna, að horfa upp á stóru systur sína sem hún hafði ávallt litið upp til og gaman að vera með henni í ævintýrum. En lögreglumaður hafi hringt í bróður móður sinnar, sem svo hafði haft samband við sig. Kolfinna segir að það hafi oft þurft að hafa afskipti af Aldísi, hún hafi farið á flakk en stofnanir hafi meira haft auga á henni en ættingjarnir sjálfir. Aldís sögð fær um að eyðileggja hvern sem er Kolfinna var spurð um hvort henni hafi verið kunnugt um ásakanirnar, um frelsissviptingu, að Jón Baldvin hafi leitað á hana og verið haldinn barnagirnd? Kolfinna segir skrítið að svara þeirri spurningu. Og skrítið viðtal sem tekið var við hana af þekktum og reyndum blaðamönnum. Stofnanir hafi lokað fólk inni, það hafi þar verið til rannsóknar. Allt þetta hafi tekið mjög á fjölskylduna, móðir hennar væri buguð en hún hafi átt við veikindi að stríða. „Ég ákvað sjálf að hætta öllum samskiptum við hana 1988. Fékk mig fullsadda og vildi ekki neitt hafa meira saman við hana að sælda, vildi ekki hafa hana í mínu lífi,“ sagði Kolfinna og bætti því að Aldís væri djöfull í mannsmynd sem gæti eyðilagt hvern sem er. Hún hafi ætíð verið helsti aðdáandi pabba þeirra, talað um hann sem dásamlegan, hlýjan og gáfaðan og talið að hann ætti að njóta sannmælis. Því skilji hún ekki hvers vegna hún sjálf er nú að halda þessu fram. Kolfinna greindi þá frá því að hún hafi unnið að áðurnefndu bréfi Snæfríðar, hún hafi skrifað illa og því var ekki handskrifuð undirskrift en bréfið væri reyndar frá þeim systkinunum. Skilur ekki hvað þeim gangi til að berja á 82 ára gömlum manninum Gunnar Ingi lögmaður Aldísar spurði Kolfinnu nánar um hver afskipti hennar væru af þessum málum? Að Aldís hafi hótað stúlkunni lífláti, og þá gat Aldís ekki stillt sig í sæti sínu og ávarpaði dómarann, herra dómari! Þetta væru meiðandi orð og ljót, lygi og henni ofbjóði. Gunnar Ingi hélt áfram eftir þá truflun, rakti að lögregla hafi verið kvödd á staðinn, Kolfinna þar stödd og kallaður til lásasmiður. Síðan hafi verið farið yfir íbúðina. Var Aldís að gera óskunda, spyr lögmaðurinn. Kolfinna svaraði spurningu Gunnars Inga lögmanns Aldísar um ummælin djöfull í mannsmynd með spurningu: Hvort hann hefði séð manneskju í geðrofi?vísir/vilhelm Kolfinna segir að íbúð Aldísar hafi verið vöktuð í tvær vikur. Móðurbróðir hennar hafi haft samband við sig og hún hafi verið í sambandi við geðdeild og félagsstofnun sem hafði eftirlit með barninu. Enn var farið yfir atriði sem áður höfðu verið rakin. Gunnar Ingi spurði Kolfinnu út í ummæli hennar, „djöfull í mannsmynd“ og Kolfinna spurði þegar á móti hvort hann hafi séð manneskju í geðrofi? Nei. Sjúkdómurinn taki yfir. Þá spurði Gunnar Ingi um hvort Kolfinna hafi haft samband við önnur vitni í málinu og Kolfinna sagði svo hafa verið. Um væri að ræða Margréti móðursystur hennar. Sem oft hafi notið gestrisni foreldra þeirra. Hún vissi svo ekki hvað hafi orðið til þess að hún „snérist“, þá á sveif með Aldísi í þessum miklu fjölskyldudeilum. Og Hildigunnur dóttir Margrétar sem endurnýjaði vinskap við sig þar sem hún sagði henni í trúnaði af hennar fjölskyldumálum. „Þetta kemur mér allt saman mikið á óvart. Hvað þeim gengur til að berja á 82 ára gömlum föður mínum?“ Kolfinna birti nýlega grein á Vísi þar sem hún fór yfir málið eins og það horfði við sér. Segir fráleitt að halda því fram að Aldís standi að baki sögunum Nú var ljóst að dagskráin var komin mjög úr skorðum og langt liðið á daginn. Enn átti eftir að leiða fram þrjú vitni, öll á vegum Aldísar; þrjár konur sem komu einkum til að staðfesta réttmæti ásakana sem þær höfðu áður sett fram á hendur Jóni um kynferðislega áreitni. Fyrst þeirra var Margrét Schram sem sagði á sér deili, að hún væri móðursystir Aldísar. Hún sagðist hafa veitt Stundinni viðtal í janúar 2019. Frásögn sem hafði birst í Meetohóp og Margrét var spurð hvort það væri eitthvað hæft í því að það sem frá henni væri komið í þeim efnum væri uppspuni Aldísar. „Nei það er nú haugalygi, algjörlega.“ Margrét sagði það einnig af og frá að það hafi verið fyrir tilstuðlan Aldísar sem hún kom fram undir nafni. Hún hélt að blaðamenn Stundarinnar hafi haft samband við sig eftir að hafa lesið sig til í Metoo-sögum. Þetta væri ekkert leyndarmál og var á allra vitorði. Margrét lýsti í stórum dráttum hvernig atvik sem Jóni tengist hafi komið til, hún hafi verið að fljúga sem flugfreyja en komið sem farþegi til baka frá Kaupmannahöfn. Það hafi verið millilent í Glasgow þar sem hún ætlaði að heimsækja Bryndísi sem þá var ekki heima. Margrét sagðist hafa tekið því sem höfnun, að biðja sig að koma en vera svo ekki heima. Margrét er þá beðin um að staðfesta það sem áður hafði komið fram sem hún gerði um kynferðislega tilburði Jóns Baldvins sem hún og gerði. „Ég var í sambandi við mann, sem ég ætlaði að giftast, ég fer ekki til Glasgow til að hitta þennan mann.“ Það býr enginn til svona sögur Margrét kannast ekki við að Aldís Schram standi á bak við metoo-sögurnar og spurði hvort það væri ekki allur heimurinn. Hún þekki ekki aðra sem hefðu sett þar inn sögur, nema dóttur hennar. Þá taldi Margrét af og frá að frásagnirnar séu, eins og stefnandi hefur haldið fram, samsæri öfgafemínista. „Konur sem senda þarna inn sögur sínar hafa þjáðst allt sitt líf,“ sagði Margrét og sagði að ýmsar þeirra væru orðnar sjúklingar, aðrar látnar. „Það býr enginn svona til. skáldskapurinn nær aldrei veruleikanum.“ Aldís mætir í aðalmeðferðina en með henni er Hildigunnur Hauksdóttir sem bar vitni í málinu. Þar sagði hún meðal annars frá því að kvöldið fyrir réttarhöldin hafi henni borist Facebookskilaboð frá Kolfinnu sem hún taldi ógnvænleg.vísir/vilhelm Margrét sagði það rétt vera að henni hafi borist bréf frá Jóni Baldvin, eitt hafi verið af sérlega kynferðislegum toga og svipaði í þeim efnum til bréfs til Guðrúnar Harðardóttur, eitthvað um mann að ofan en dýr að neðan. „Ekki geðslegt.“ Spurð sagðist Margrét kannast við að sögusagnir af sifjaspellum, eins og Aldís hafi sagt og því hafi verið lýst að hafi gerst á geðdeild. „Það fylgdi sögunni að það vissu þetta allir á spítalanum en það vissi enginn hvernig ætti að höndla þetta.“ Atvik í sundlaug Næst í vitnastúkuna var Hildigunnur Hauksdóttir, en móðir hennar er Margrét Schram sem bar vitni á undan henni. Hún gekkst fúslega við því að ein sagnanna sem finna má á Metoo-síðu helgaða Jóni Baldvin sé frá henni komin. Hildigunnur rakti svo þá sögu skilmerkilega og lét sér hvergi bregða þó Jón Baldvin sæti steinsnar frá henni. Sagan er á þessa leið, eins og hún birtist á síðunni og tekur til atviks sem gerðist fyrir 45 árum. 10 ára stúlka í grillveislu „Fyrir mörgum árum var ömmu minni boðið í grillveislu í sumarbústað í Mosfellssveit hjá foreldrum Bryndísar og tók hún mig með. Margt fólk var þar með börnin sín. Sólin skein og allir í góðum gír. Mesti spenningurinn var þó vegna nýrrar sundlaugar við bústaðinn. Ég var 10 ára og hlakkaði til að prófa laugina. Hún var hins vegar troðfull af krökkum þegar við komum svo ég ákvað að bíða aðeins. Þegar allir voru kallaðir í mat sætti ég færis og skaust alein í laugina. Umhverfis hana var hár veggur með hliði þannig að enginn tók eftir mér. Ég var varla komin ofan í laugina og yfir í djúpa endann þegar Jón birtist þarna á skýlunni í miðju borðhaldinu. Hann var ölvaður. Hann heilsaði undarlega og ég áttaði mig strax á því að þetta væru ekki góðar aðstæður fyrir mig. Hann hoppaði ofan í laugina og synti rakleiðis yfir til mín þar sem hann reyndi að króa mig af við bakkann. Hann þrýsti sér upp að mér og umlaði eitthvað sem ég skildi ekki. Ég hugsaði með mér að hann væri of fullur til að ráða við mig. Ég náði að setja hnén upp og ýta honum aðeins frá mér. Þannig gat ég sett hælana í magann á honum og sparkaði af öllum kröftum þannig að hann þeyttist í burt. Ég stökk upp úr og hljóp inn. Ég held að ég hafi ekki endilega áttað mig á því hvað væri að gerast. En ég gerði mér fulla grein fyrir því að hér væri hættulegur maður á ferð sem ég skyldi alltaf passa mig á. Síðan þá hef ég fyrirlitið þennan mann. Jón Baldvin er kynferðisglæpamaður og hefur alla tíð verið. Hann leggst á börn jafnt sem konur og skiptir þar engu þótt um hans eigin dóttur sé að ræða.“ Sjáumst í fyrramálið! Hildigunnur segist hafa látið setja þessa sögu inná nafnlaust því að hún vildi hlífa Kolfinnu. „Mér finnst mjög slæmt að hún þurfi að þola þetta.“ Hildigunnur taldi það af og frá að saga hennar væri hugarburður Aldísar Schram og upplifun hennar hafi verið sú að atferli Jóns Baldvins væri af kynferðislegum toga. Þá greindi Hildigunnur frá því að Kolfinna hafði samband við sig undir miðnætti með skilaboðum á Facebook: „Sjáumst í fyrramálið!“ Hildigunnur segir þetta hafa slegið sig út af laginu, hún hafi upplifað þetta sem ógn og hún hafi ekki svarað. Þá hafi Kolfinna bætt við: Kemur Johan með, og þá varð henni ljóst að Kolfinna væri að reyna að fá sig inná Facebook. Þetta hafi leitt til þess að hún svaf illa nóttina fyrir réttarhöldin. Dimmitering á Ísafirði Að endingu var hringt til Danmerkur og rætt við Sigríði Huldu Richardsdóttur sem þar býr. Sigríður greindi frá og staðfesti frásögn sem tekur til atburða á dimmisjón Menntaskólans á Ísafirði. Sigríður sagðist vera vinkona Aldísar, þær hafi kynnst fljótlega eftir stúdentspróf. Sigríður sagðist standa við frásögn sína, hún væri nákvæmlega eins og hún upplifði hana. Hún hafi borið frásögnina undir fjórar skólasystur sínar sem lásu hana yfir og sögðu hana ríma við sína upplifun. Og það væri ekki svo um væri að ræða uppspuna úr Aldísi. Vísir sagði af frásögn Sigríðar á sínum tíma og er hana að finna hér undir. Þar með lauk vitnaleiðslum og skýrslutöku. Á föstudaginn fluttu lögmennirnir þrír svo málið og hefur það verið lagt í dóm. Nánast engar líkur eru á því að með dómi í þessu máli, sem snýst um meiðyrði sem féllu í viðtali við Aldísi í Morgunþætti Rásar 2 þó allar þessar ásakanir milli málsaðila séu óhjákvæmilega undir, verði settur punktur aftan við mál þessi. … Dómsmál Kynferðisofbeldi Fjölmiðlar Fréttaskýringar Mál Jóns Baldvins Hannibalssonar MeToo Mest lesið Skip úr skuggaflotanum hægði grunsamlega mikið á sér Erlent Spennan magnast fyrir fundi sem óvænt á að fresta Innlent Reyndu að ræna hraðbanka Innlent Áfengissala á helgidögum þjóðkirkjunnar stöðvuð af lögreglu Innlent Hættulega heitir dagar fleiri og mannskæðari en áður Erlent Rússar vara við því að hrapað sé að ályktunum áður en rannsókn lýkur Erlent Komu hesti til bjargar úr gjótu Innlent Spáir stillu og miklu svifryki um áramótin Veður Holtavörðuheiði enn lokuð Innlent Lögregla hafi hálfpartinn „hrökklast frá“ Innlent Fleiri fréttir Leit við Meradali vegna neyðarboðs Búið að opna Holtavörðuheiði á ný Þungar vikur framundan Skilaréttur neytenda ríkari ef varan er keypt á netinu Lögregla hafi hálfpartinn „hrökklast frá“ Hæstiréttur fer beint í búvörulagamálið Spennan magnast fyrir fundi sem óvænt á að fresta Grímuskylda og ósáttir vínsalar Holtavörðuheiði enn lokuð Reyndu að ræna hraðbanka Komu hesti til bjargar úr gjótu Icelandair skoðar næstu skref í þróun flugflotans Áfram töluverð snjóflóðahætta á Vestfjörðum Áfengissala á helgidögum þjóðkirkjunnar stöðvuð af lögreglu Snjóflóðahætta á Vestfjörðum og frumsýning Yermu Holtavörðuheiðinni lokað aftur í kvöld Sex voru fluttir með þyrlunni Gamla ríkið falt og milljónir fylgja Telja skemmdir í Bláfjöllum minniháttar Súðavíkurhlíð opin til 16 Alvarlegt bílslys í Öræfum Rólegt á aðfangadag en mikil aðsókn í viðtalstíma í desember Snjóflóð féllu á Súðavíkurhlíð Rúta rann yfir rangan vegarhelming út í móa Týndu vagni með jólamáltíðum sjúklinga á bráðamóttökunni Snjóflóð féll á Súðavíkurhlíð og rólegt í Kvennaathvarfinu Skógaskóli verður hótel Grímuskylda á Landspítalanum Búið að opna Hellisheiði og Holtavörðuheiði Strætó rann á bíl og ruslaskýli Sjá meira
Þegar leiðir þeirra systra, Aldísar Schram og Kolfinnu Baldvinsdóttur lágu saman í dyrum á sal Héraðsdóms Reykjavíkur á miðvikudaginn lá við stimpingum. Þær nánast hvæstu hvor á aðra: „Hvað gengur að þér?“ „Á ég að segja hvað þú ert?“ „Þú ert svo viðbjóðsleg.“ Engum sem sat aðalmeðferð í meiðyrðamáli Jón Baldvins Hannibalssonar fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra gegn Aldísi dóttur hans og Sigmari Guðmundssyni sjónvarps- og útvarpsmanni, leið vel undir vitnaleiðslum og skýrslutökum sem fram fóru í sal 101, þeim stærsta í héraði. Óhætt að segja. Framburður aðila og vitna var sláandi; þarna voru rakin átakanleg mál sem hafa klofið fjölskyldu og í raun neytt fjölmarga misviljuga til að taka afstöðu til mála sem ekki liggja ljós fyrir eðli máls samkvæmt, með og á móti hinum og þessum. Út frá ólíkum forsendum. Og nú þegar þetta er rekið fyrir dómsstólum er erfitt að komast hjá því að enn verði um þessi mál fjallað. Snýst um miklu meira en meintar ærumeiðingar Fastlega má gera ráð fyrir því að hver sem niðurstaða þessa tiltekna máls í langri sögu verður þá verður enginn punktur settur þar. Jóhannes Rúnar Jóhannsson héraðsdómari áttar sig eflaust á því. En hans er að taka tillit til ummæla og þá að teknu tillit til þess hvort þau séu tilhæfulaus; því þangað leiddust vitnaleiðslurnar. Aðalmeðferðin snerist öðrum þræði um hvort Jón Baldvin væri sekur um það sem Aldís ætlaði honum í útvarpsviðtali við Sigmar sem spilað var í Morgunútvarpi Rásar 2 17. janúar 2019. Ummælin fjórtán sem málið snýst um Ummæli Aldísar í Morgunútvarpinu. 1. … hann fær mig undir fölsku yfirskini til að heimsækja afa minn … mér var haldið inni þarna í mánuð sem sagt ólöglega.“ 2. … já Fimm sinnum á næstu 10 árum kastast í kekki milli mín og Jóns Baldvins Hannibalssonar og því lyktaði ávalt með því að (sic) sigaði á mig lögreglu sem handtók mig, hann var náttúrlega utanríkisráðherra … 3. Hann gat bara þaðan í frá, þáverandi utanríkisráðherra og síðar sendiherra, virðist vera að hringja bara í lögreglu og þá var ég þar með handtekin, umsvifalaust í járnum, farið með mig upp á geðdeild … 4. … hann er þá líka að misnota lítil börn. 5. … ég neita að skilja þau eftir í umsjón karls sem káfar á litlum stúlkubörnum. 6. Og sem sagt 10 mínútum eftir að ég kæri Jón Baldvin þá hringir dyrabjallan. Þar ruddust þarna inn tveir lögreglumenn ef ekki þrír og ég, þegar ég sé það þá reyni ég að loka en auðvitað tókst mér það ekki, þeir ryðjast þá þar með inn og þeir svara mér engu, ryðjast inn í stofu þar sem dóttir mín 5 ára gömul er að lesa og þegar barnið er tekið frá mér þá verð ég æf. 7. … það er faðir minn sem stendur fyrir því að hér eigi að loka mig inni. 8. Fíkn, auðvitað er barnagirnd fíkn, þetta er fíkn. 9. … nauðungarvistun án dóms og laga er þá ólögmæt frelsissvipting… Facebook, 5. febrúar 2019, höfundur stefnda Aldís. 10. … og sigra hann og hans barnaníðingabandalag. Morgunútvarp, Rás 2, 17. janúar 2019, höfundur og flytjandi stefndi Sigmar, til vara stefnda Aldís. 11. … að Jón Baldvin hafi notað aðstöðu sína sem sendiherra til að láta nauðungarvista hana á geðdeild. 12. Sá fundur Aldísar og Jóns Baldvins segir hana hafa reynst sér örlagaríkur og orðið til þess að hún var í fyrsta sinn nauðungarvistuð á geðdeild. 13. … að Jón Baldvin hafi sett sig í samband við félagsmálayfirvöld og geðdeild með það fyrir augum að fá hana nauðungarvistaða í enn eitt skiptið. 14. Þar segir hún einnig að Jón Baldvin hafi framið sifjaspell þegar hún var fullorðin kona. Á föstudaginn lauk svo aðalmeðferðinni með málflutningi lögmannanna, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson flytur málið fyrir hönd Jóns Baldvins, Gunnar Ingi Jóhannsson fyrir hönd Aldísar og Stefán A Svensson fyrir hönd Sigmars og Ríkisútvarpsins ohf. Óhjákvæmilegt er að þessi skýrsla um hvað gekk á í sal 101 verði endurtekningasöm enda er verið að þýfga aðila og vitni um sömu atburði en þá skiptir einmitt mismunandi sjónarhorn máli. Þá er vert, áður en lengra er haldið, að vara viðkvæma við lestrinum. Þessi mál hafa komið upp reglulega undanfarin ár og áratug en í réttarhöldunum var gerð tilraun til að ná utan um þau enda riðlaðist dagskrá og stóðu réttarhöldin á miðvikudag frá morgni vel fram til klukkan 17; stöðugar vitnaleiðslur. Miklar tilfinningar eru í spilinu og stundum verður lítið samhengi milli spurninga og svara. Brá við ásakanir um sifjaspell Fyrstur til að bera vitni var stefnandi, Jón Baldvin. Hann sagðist vera á níræðisaldri, sem heitir að vera ellilífeyrisþegi. Jón Baldvin er 81 árs. Hann hafi látið af störfum í ársbyrjun 2006 en hafi síðan einkum sinnt kennslu. Hann sagðist hafa verið skipaður sendiherra, tók við sem slíkur í Washington DC í ársbyrjun 1998 og gegndi því til 2002. Fimm ár. Á þeim tíma dvaldi hann að mestu í útlöndum. Jón bar að eftir því sem hann best vissi hefði ekki verið haft samband við sig áður en viðtalið var flutt í Morgunútvarpinu. „Ég varð aldrei var við að þeir fréttamenn sem að komu reyndu að hafa samband við mig. Þeir sögðu að ekki hafi náðst í mig, sennilega heyrðist í mér síðar? En ég var að heyra margt af þessu í fyrsta sinni.“ Þá greindi Jón Baldvin frá því að einkum hafi sér brugðið við að heyra að hann hafi átt að hafa „stundað sifjaspell með dóttur minni á fullorðins árum hennar þegar hún var vistuð á geðdeild. Þetta hafði ég aldrei heyrt fyrr en í beinni útsendingu á Ríkisútvarpinu. Hvernig varð mér við? Ég var ekki óviðbúin að þeim skilningi að frá 2002 höfðu verið gerðar nokkrar tilraunir til að hafa af mér mannorðið. Aldís reyndi að bera fram kæru fyrir hönd Guðrúnar Harðardóttur sem var vísað frá. Ég vissi ekkert af þeim kærum,“ sagði Jón Baldvin. Jón Baldvin vísaði ásökunum sem fram komu um að hann hafi áreitt Guðrúnu systurdóttur Bryndísar Schram eiginkonu hans þegar hann bar sólarolíu á hana barnunga í ferð til Ítalíu, á bug sem fráleitum enda hafi verið viðstödd þá kona hans og dætur. Bréf Jóns Baldvins til Guðrúnar Harðardóttur Mjög hefur verið fjallað um bréfaskriftir Jóns til Guðrúnar eftir að hún greindi frá þeim í viðtali við Nýtt líf árið 2012. Þar segir hún af bréfum Jóns Baldvins til hennar þegar hún var á aldrinum 14 til 17 ára. Einhver þeirra bréfa voru send í grunnskólann hennar og einhver voru rituð á bréfsefni sendiráðsins í Washington. Í þeim er að finna hugleiðingar Jóns um kynlíf, meðal annars lýsingar á kynlífi hans með eiginkonu sinni, Bryndísi Schram. Sjálfur hefur Jón Baldvin fjallað um þessi bréf með greinaskrifum. Fyrir héraðsdómi sagði hann að þessi bréf hafi sært blygðunarkennd, sakarefni hafi verið ítarlega rannsakað og saksóknari vísað því frá því ekki fundust sakarefni. Seinna við vitnaleiðslurnar sagðist Jón hafa skrifað Guðrúnu afsökunarbréf í apríl 2002. „Þetta bréf hefur verið á dagskrá í 20 ár. það er mér til skammar.“ Um sé að ræða fimm bréf til Guðrúnar sem hafi verið til umræðu innan fjölskyldunnar, ósæmileg og hafi ekki átt erindi til hennar né bók sem fylgdi einu bréfanna. Hann hafi leitað eftir sáttum og gert allt til þess en því hafi verið mætt með þögn. Eftir ótal sáttatilraunir sneri bróðir Bryndísar til baka með þau skilaboð að sáttaumleitunum mætti gleyma, þeim mæti ekkert nema svartnætti af hatri. Hin örlagaríka heimsókn Aldísar til Washington 2002 Jón Baldvin sagði meginstaðreyndir þær að dóttir hans birti sakarefni í DV og fylgdi því eftir haustið 2013 með ónafngreindum kærum. Sem vörðuðu brot og að hann hafi brotið á mannréttindum dóttur hans með frelsissviptingu. Jón segist hafa lesið um það í blöðum og eftirgrennslan hans hafi leitt í ljós, í munnlegu samtali að því hafi verið vísað frá. „Þannig að þarna eru komnar fimm atrennur. Hvernig mér varð við: Mér var ekki ókunnugt um þessar sakargiftir. Byrjaði fyrir alvöru 2002. Ég heyrði af þessu þegar dóttir okkar kom í heimsókn til okkar í Washington DC. Mér var ekki ókunnugt um að hún hafði borið mig ýmsum sökum, en þó ekki að ég hafi misnotað dætur mínar. Það hafði ég ekki heyrt áður og þessi undarlega sakargift um sifjaspell, það hafði ég ekki heyrt fyrr en í útvarpi allra landsmanna.“ Hið meinta dómsvald fjölmiðla Jón Baldvin segist ýmsu vanur, hann hafi oft sætt árásum af pólitísku tilefni en þarna hafi hann verið varnarlaus; orðlaus, trúði varla sínum eigin eyrum. „Þetta er útvarp allra landsmanna og ég veit ekki betur en að það sé í lögum, starfsreglum og siðareglum fréttamanna að Ríkisútvarpið megi undir engum kringumstæðum taka sér dómsvald,“ sagði Jón Baldvin og rakti að slíkt mætti ekki fara fram að óathuguðu máli án þess að kanna málavexti, fá hlið hinna, án þess að afla sér gagna. Jón Baldvin taldi að með viðtalinu hafi Ríkisútvarpið tekið sér dómsvald. Jón Baldvin var, eins og flestir sem mættu í Héraðsdóm, með grímu vegna Covid-19.vísir/vilhelm Jón Baldvin taldi að gögn lægju fyrir í þessu viðkvæma mál og ef geðlæknir telu telur nauðsynlegt á að óska eftir framlengingu á sjúkrahúsadvöl, kallað nauðungarvistun, gerist ekki með ákvörðun einhvers úti í bæ. Hvort sem hann heitir Jón Jónsson eða Jón Baldvin“. Í máli Jóns Baldvins kom fram að til árs 2016 hafi verið í gildi lög sem skuldbundu aðstandendur sjúklinga til þess að veita samþykki sitt fyrir framlengingu sjúkrahúsdvalar og jafnvel í verstu tilfellum sviptingu sjálfræði. Þetta væri hræðileg skylda og dæmi um að þetta hafi lagt í rúst fjölskyldur viðkomandi. Ef viðkomandi vilji ekki viðurkenna sjúkdóm sinn, sem er í 40 prósenta tilvika, þá beini þeir reiði sinni og jafnvel hatri að aðstandendum. „Þessu urðum við að lúta á þessum tíma, þetta er harmleikur, fjölskylduharmleikur sem aldrei átti neitt erindi í fjölmiðla, Sem leysa átti innan fjölskyldunnar.“ Segist ekki hafa komið að ólögmætri frelsissviptingu Vilhjálmur spurði Jón Baldvin hvenær veikindi Aldísar hafi hafist. Jón las út úr gögnum að sjúkrahúsvistun dóttur hans hafi verið í átta skipti í tveimur lotum. Frá 1990 til 1994 og aftur 1998 til 2002. Í fjórum eða fimm lotum. Þá sagði Jón að árið 1992 hafi dóttir hans farið sjálfviljug og þau saman á geðdeild Landsspítalans. Þá taldi hún sig þurfa hjálp. Þá hafi samband þeirra á milli verið gott. Jón sagði engan einstakling geta misbeitt valdi til að hringja í lögreglu og skipa henni að sækja saklausa manneskju, færa í járnum á geðdeild og krefjast þess að hún sé vistuð, í versta falli svipt sjálfræði. Misskilningur sé að slíkt sé geðþóttaákvörðun. Jón Baldvin og lögmaður hans, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.vísir/vilhelm Þá sagði Jón að læknar og ýmsar stofnanir kæmu að málum; sýslumaður, barnaverndarnefnd, samfélagsþjónusta … Jón Baldvin sagði að þetta væru ekki pyntingastofnanir en engum blaðamanni hafi dottið í hug að hringja í Landsspítalann og spyrja hvort þar væru stundaðar pyntingar? „Þessu get ég ekki svarað og um þetta áttu fréttamenn að sjálfsögðu að leita sér upplýsinga um áður en þeir bera þetta út til landsmanna.“ Jón Baldvin bar að hann hafi aldrei komið að lögmætri frelsissviptingu Aldísar, það væri á hreinu. Talsverður fjöldi fólks hafi komið að málum, sjálfur hafi hann að mestu verið erlendis og upptekinn, aðstandendur sem þá töldu að sjúklingurinn væri hættulegur sjálfum sér og öðrum og þá rétt að koma honum undir læknishendur. Telur hatur Aldísar á sér byggjast á sjálfræðissviptingu Vilhjálmur lögmaður spurði Jón hvenær samband þeirra Aldísar, sem hafi í upphafi níunda áratugar síðustu aldar verið gott, hafi breyst til hins verra? „Já, samband okkar var gott, jafnvel einlægt. Jafnvel betra en milli móður og dóttur. Þetta er ekkert leyndarmál að Aldís bar hlýjan og vinsamlegan hug til föður síns,“ segði Jón Baldvin sem vitnaði í viðtal sem birtist við dætur hans þrjár: Aldísi, Snæfríði sem nú er látin (1968-2013) og Kolfinnu, þar sem Aldís segir að hún þekki ekki þann mann sem fjölmiðlar dragi upp mynd af. Hann sé hlýr, einlægur, skilningsríkur maður og kominn tími til að hann fái að njóta sannmælis. „Einlæglega mælt í mínum huga. Þetta var í ársbyrjun 1995 og hún 36 ára gömul.“ Síðan hafi allt þetta breyst skyndilega. „Þegar við Bryndís erum flutt til Washington DC, reynir oft á, veita samþykki og sjálfræðissviptingu, sem er enn þungbærara og hörmung,“ segir Jón Baldvin. En sjálfur hafi hann verið eini maðurinn sem Aldís samþykkti að hefði heimild til að veita samþykki fyrir sjálfræðisviptingu. Jón telur að sú ákvörðun Aldísar, sem er 1998, staðfesti og sýni það traust sem hún bar til hans þá. Jón Baldvin segist aðeins geta sagt hvernig hann upplifði umskiptin en hann telur óyggjandi að nauðungarvistun og sjálfræðissvipting í tvö skipti hafi breytt hugarfari dóttur hans og hann áfellist hana ekki fyrir það. „Hvernig breyttist þetta? Eftir að það gerist ítrekað að ég verð lögum samkvæmt að veita samþykki fyrir harkalegum inngripum um frelsissviptingu, nauðungarvistun. Það geri ég ekki einn. Það er búið að breyta þessu núna. Af hverju breyttist vinarþel og ástúð frá dóttur til föður, í reiði og hatur sem hefur enst í 20 ár. Þetta er mitt svar við því.“ Á að hafa brotið á öllum konum í fjölskyldunni Jón Baldvin greinir frá því að það sé svo örlagarík heimsókn Aldísar til þeirra hjóna til Washington um páska 2002 sem hafi endað með ósköpum. „Hreinum. Þá heyri ég af þessari sakargift. Það er varla sú kvenpersóna í þessar fjölskyldu sem ég á ekki að hafa haft kynferðisleg samskipti við. Þá byrjar þetta mál sem leiddi til þess að kærumál hafa verið flutt fimm sinnum en alltaf vísað frá.“ Vilhjálmur beinir þá tali að því sem fram hefur komið í málinu, að Jóni Baldvin sé ætlað að hafa misnotað aðstöðu sína til að fá Aldísi vistaða, en í dagbók lögreglu er eitt slíkt tilvik skráð sem aðstoð við lögreglu. Jón Baldvin segir að þetta hafi ekki verið á tölvuöld, það hafi verið faxvélar sem notaðar voru og hann hafi gripið það bréfsefni sem var tiltækt. Hann segir það aðfinnsluvert að lögregla skrái málið svo. Hún verði að svara fyrir það. „Ég bað ekki um það. Misnotkun á valdi? Trúir því einhver að sendiherra sé valdspersóna? Hann er engin valdspersóna. Ef þessi bréfshaus hefði ekki verið, vissu menn þá ekki að ég væri sendiherra? Allir vissu það. Þetta eru aukaatriði máls. Misnotkun? Kannski brýtur þetta í bága við reglur. En mín lokaorð um þetta: Nauðsyn brýtur lög og það hvarflaði ekki að mér sú hugsun hvað stæði í bréfshaus blaðsins, það voru ekki önnur blöð til staðar.“ Málið tengist utanríkismálum Íslands Eins og fram hefur komið er þetta löng saga, hún teygir sig í ýmsar áttir og varða samskipti Íslands við önnur ríki. Eitt gagna Jóns Baldvins í málinu er ódagsett bréf Snæfríðar heitinnar til Aldísar þar sem hún átelur hana harðlega fyrir að ásakanir í gerð Jóns Baldvins. Aðdragandi þess er sá að um svipað leyti átti Snæfríður í harðvítugri forræðisdeilu við barnsföður sinn ítalskan Marco Brancaccia. Hann hafði sent bréf til sendiráða víða um heim þar sem fram koma ásakanir um barnaníð Jóns Baldvins. Að hann hafi misnotað allar dætur sínar ungar. Jón Baldvin segir það hafa verið lið í að spilla málstað Snæfríðar. Í bréfinu, sem í aðalmeðferð kom fram að Kolfinna og Glúmur Baldvinsson börn Jóns hafi komið að því að semja, vísar Snæfríður þessum ásökunum á bug og telur Aldísi standa á bak við þær ásakanir. „Hún er sár og trúir því ekki að systir hennar sé höfundur slíks óhróðurs í þessu samhengi,“ segir Jón Baldvin. Telur Aldísi standa á bak við #metoo-síðu helgaða sér Gunnar Ingi, lögmaður Aldísar, tók þá til við að spyrja Jón Baldvin út í framburð hans og önnur tengd mál. Hann sagði ekki um það deilt að tilefni þessa dómsál væri viðtalið í Morgunútvarpinu. Hann sagði að skömmu áður en viðtalið var tekið hefðu birst viðtöl við fjórar konur í Stundinni sem báru á Jón sakir. Alls 19 ónafngreindar konur hafi stigið fram og leitað til rannsóknarlögreglu. Jón kannaðist við þetta og það einnig að hann teldi þær ásakanir að undirlagi Aldísar. Hún hafi skrifað kærur og átt aðild að málum. Gunnar Ingi spurði og sagði svo að það gæti ekki talist sanngjarnt að Aldís ætti aðild að því, að hún hafi spunnið þessar sögur upp? „Ef þetta er spurning almennt séð um hverjir standa á bak við þessum klögumálum? Já, tiltölulega fámennur hópur stendur að baki þessu þar sem dóttir mín er frumkvöðull að þessu.“ Þetta er með vísan til sérstakrar #metoo-bloggsíðu sem tileinkuð er Jóni Baldvin en þar hafa birst 23 nafnlausar sögur frá jafn mörgum konum. Jón Baldvin telur að um fámennan hóp sé að ræða sem að þessu stendur. Gunnar Ingi spurði Jón Baldvin með vísan til viðtals við Jón Baldvin í Silfri Ríkissjónvarpsins í framhaldi af viðtalinu í Morgunútvarpinu, að sögurnar megi rekja til haturs Aldísar á Jóni, hvort sú væri hans skoðun; Að ásakanir á hendur honum megi rekja til þess? Jón Baldvin Hannibalsson mætti í Silfri Ríkissjónvarpsins til að svara fyrir ásakanirnar. Fram kom við aðalmeðferð í máli hans gegn Aldísar að það viðtal hafi farið mjög fyrir brjóstið á Aldísi.vísir/vilhelm Jón Baldvin dregur í efa að um skoðun sé að ræða, heldur ályktun af því sem fram hefur komið. Hann lýsti því að til hans hafi hringt velviljaðir kunningjar og vinir árið 2019 og lýst því að það hafi fengið upphringingar; „þar sem kerfisbundið var verið að safna óhróðri um þann mann sem hér situr. Ég álykta að það hafi verið ritstjórn, það hafi verið plan og það hafi ekki verið tilviljun.“ Jón Baldvin sagðist vilja tala varlega um geðveiki dóttur sinnar, þar væri um að ræða sára og bitra lífsreynslu sem um væru til gögn. En hann hafi svarað öllum þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar í þeim tilvikum sem um nafngreinda einstaklinga sé um að ræða. Það allt sé aðgengilegt á heimasíðu hans. Hver og einn geti dæmt um hvort þetta eru trúverðugar ásakanir, hvort þessar sögur eru uppspuni að hluta? „Viltu fara að ræða innri mál Samfylkingarinnar?“ Jón Baldvin segir að sér hafi ofboðið við lestur #metoo-síðunnar. Og þá hafi hann séð læknisvottorð þar sem læknar votti að Aldís eigi ekki við geðrænan vanda að etja. Mörgum árum síðar? Jón Baldvin taldi best að hafa sem fæst orð um það. Gunnar Ingi spyr hvort þessu gæti ekki verið öfugt farið, að skoðanir hennar hafi mótast af þessum frásögnum fremur en að um samsæri Aldísar hafi verið að ræða? Jón Baldvin sagði að fimm atrennur hafi verið gerðar, með að kæra en fimm sinnum hefur þeim kærum verið vísað frá. „Fyrsti kærandi var dóttur mín, hún stóð þétt að baki Guðrúnu Harðardóttur; dóttir mín hefur frumkvæðið bæði í fjölmiðlum og gagnvart lögreglu. Svör liggja fyrir að það hafi ekki verið tilefni til ákæru um mannréttindabrot og vísað í sjúkraskýrslur um veikindi Aldísar. þetta eru bara staðreyndir.“ Gunnar Ingi segir að ýmsir trúi þessum frásögnum, svo sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Karl Th. Birgisson virðast leggja trúnað á þessar frásagnir en Jón Baldvin spurði hvasst á móti: „Viltu fara að ræða innri mál Samfylkingarinnar? Þetta eru ekki vinir mínir.“ Þá sagði Jón Baldvin að þau hafi gefið Aldísi kost á að leysa þetta með sáttagjörð; neyðarbrauð hafi verið að fara í þetta mál. Hafnar því að hafa komið að ákvörðunartöku um nauðungarvistun Gunnar Ingi, lögmaður Aldísar, segir að málið snúist meðal annars um ólöglega nauðungarvistun hennar og spurði Jón Baldvin hvort hann hefði komið að þeirri ákvörðunartöku? Jón segir svo ekki vera. „Við vorum samferða 1992 þegar Aldís leitaði sér aðstoðar sjálfviljug. Það eru einu beinu afskipti mín af málinu,“ sagði Jón Baldvin og svo eitt skipti þegar Aldís hafi verið týnd. Hann hafi aldrei átt neina aðild að ákvarðanatöku um hvort hún yrði lögð inn. Það hafi verið ákvörðun lækna sem verða að leita staðfestingu annarra lækna. Þá telur Jón Baldvin það af og frá að hann hafi nokkru sinni komið að ákvörðun um lyfjagjöf. Og hvað varðaði meint sifjaspell, þá hafi hann ekki heyrt neitt slíkt fyrr „Heyrði ekki neitt slíkt fyrr en 2002 og þá í Washington DC. Hún sagðist hafa nefnt þetta sifjaspell í kæru 2013. En ég heyrði þessa fráleitu sögu fyrst í útvarpinu í viðtali við þennan herramann sem þarna situr,“ sagði Jón Baldvin og beindi höfði sínu í átt að Sigmari Guðmundssyni. Jón sagðist ekki hafa orðið vitni að því þegar Aldís bar ásakanir upp á hendur sér í Washington, þær hafi Aldís borið upp við móður sína. Og þær hafi verið ærnar. „Hún spurði með hvers konar kynferðisbrotamanni hún byggi, tengdamóðir hennar, vinkonur, systur, börn,“ segir Jón Baldvin. Ein ásökunina hafi verið sú að hann hafi misnotað dóttur Aldísar en hann bar hana upp stiga og lagði í rúm móður hennar. „Eftir þennan tíma er varla til nokkur kvenpersóna í fjölskyldunni sem ég á ekki að hafa haft mök við. Þó ekki hana sjálfa fyrr en seinna.“ Vísir birti í dag grein eftir Jón Baldvin þar sem hann fer nánar í saumana á málinu öllu og ásökunum á hendur sér. Dagskráin hvellsprungin Gunnar Ingi dvaldi við nauðungarvistun Aldísar og hvernig hana bar að. Jón Baldvin endurtók að hann teldi að um mistök við skráningu í lögregluskýrslu væri að ræða í því sem sneri að tengslum við sendiráðið. Lögreglumenn brutu sér þá leið inn í íbúð Aldísar en hún lýsti því seinna sjálf við réttarhöldin. „Ég hef aldrei sigað lögreglu á dóttur mína. Og hef ekkert vald til þess,“ sagði Jón Baldvin; „ég hef ekkert vald til að þvinga fólk á sjúkrastofnanir, siga lögreglu á það … þetta er bara út úr kú.“ Þá sagðist Jón vera sakaður um að hafa misnotað dætur sínar ungar allar þrjár. Þetta væri svívirðilegur rógur. Og aðrar ásakanir hreinn tilbúningur eða uppspuni, eða þetta er svo skrumskælt að það nær engu tali. Jón Baldvin sagðist hafa heimsótt dóttur sína á geðdeild en hann hafi aldrei farið með hana út af henni. Þegar þarna var komið sögu mátti ljóst vera að dagskráin var hvellsprungin hvað varðaði tíma sem málinu var gefinn. Stefán réttargæslumaður Sigmars kom að einni spurningu sem varðaði það að Jón Baldvin kannaðist ekki við að reynt hafi verið að ná í sig í tengslum við útvarpsviðtalið. Hann lagði fram ljósrit af SMS-skilaboðum frá Sigmari frá 16. janúar. Jón Baldvin kannaðist ekki við að hafa fengið þau boð og greindi frá því að símanúmerið sem um var að ræða hafi löngum verið sameiginlegur sími þeirra Bryndísar. Þá var vísað til umfjöllunar Stundarinnar um ásakanir á hendur Jóni Baldvin, hvort hann kannaðist ekki við að hafa tjáð sig í samhengi við þær og hvort ekki væri rétt eftir haft? „Blaðamaðurinn hringdi til málamynda til að fullnægja þeirri formskyldu að þau hafi náð í fórnarlambið áður en ofsóknirnar fóru af stað,“ sagði Jón Baldvin þá. „Ég þekkti þetta fólk ekkert sérstaklega vel“ Vitnisburður Jóns Baldvins, spurningar og svör, stóð talsvert lengur en gert var ráð fyrir í dagskrá. En næst í vitnastólinn var Aldís sem sagðist hafa árið 2012 breytt nafni sínu úr Baldvinsdóttur í Schram. Hún sagði á sér deili og rakti feril sinn, hún sé útskrifuð úr lögfræði árið 1987, lærði til leikkonu í London, tók fréttamannapróf, stundaði námi í guðfræði í tvö og hálft ár en hafi sinnt ýmsum störfum frá árinu 2006, svo sem samningu kennsluefnis, íslensku fyrir útlendinga. Aldís lýsti því að hún hafi ekki búið nema brot sinnar barnæsku hjá foreldrum sínum heldur ólst að mestu upp hjá ömmu sinni. Hún hafi búið á unglingsárum um hríð þegar Jón Baldvin var skólastjóri Menntaskólans á Ísafirði en vildi svo fara heim aftur. Lögmaður Aldísar tekur á móti henni þegar hún mætti í Héraðsdóm Reykjavíkur.vísir/vilhelm „Eftir fimmtán ára aldur er ég í litlum samskiptum við hann. Árið 1991 hermi ég upp á hann kynferðisglæp og ég hef ekki fengið frið fyrir þeim síðan. Nauðsynlegt að það komi fram, ég þekkti þetta fólk ekkert sérstaklega vel.“ Framburður Aldísar fór þannig fram að lögmaður hennar, Gunnar Ingi spyr og nefnt er viðtal sem birtist við Aldísi í DV árið 2013; Stimpluð geðveik. Árið 2012 steig Guðrún Harðardóttir fram og að sögn Aldísar uppástendur Jón Baldvin að hún standi á bak við það. Og hafi haldið því fram þá að þetta mál ætti ekkert erindi við fjölmiðla, ekki frekar en geðveiki dóttur hans. „Þá var mér gersamlega ofboðið. Ekki nóg með það, í kommentakerfum blaðanna þarf ég að sætta mig við það að fólkið í landinu er að tala um hvort ég sé geðveik eða ekki,“ segir Aldís. Og að þær greinar hafi verið margar með viðtölum við Jón Baldvin, Bryndísi og Kolfinnu, sem hún hafi ekki svarað. Enda verið að berjast við að tóra. „Mér er illt í hjartanu þegar ég segi þetta. Nú er nóg komið,“ sagði Aldís sem segist hafa farið fram á sáttafund með þriðja aðila 2008, 2009, 11 og 2012. „En þegar ég les allar þessar ógeðslegu níðgreinar um mig, frá móður, föður og systur ákvað ég að leita réttar míns.“ Heiður stórfjölskyldunnar Aldís segir rangt sem fram komi í lögregluskýrslu að hún hafi ekki getað sætt sig við að vera útmáluð geðveik. „En að ég sé lygin og ill að ljúga þessu upp á hann, það get ég ekki sætt mig við. Ég verð alltaf reið þegar ég hugsa um þetta, afsakið. óbærilegt að dóttir mín þyrfti að lesa níðgreinar afa síns, ömmu og móðursystur. Það var óásættanlegt.“ Forsíðuviðtal í DV við Aldísi kom við sögu við aðalmeðferðina.timarit.is/skjáskot „Heiður stórfjölskyldunnar?“ spyr Aldís og segir að það hafi verið Jón Baldvin sem hafi farið með þetta í fjölmiðla, hann hafi með skammarlegum hætti flutt þetta mál fyrir dómstól götunnar. Hann haldi því fram að hún sé forsprakki umræddrar metoo-síðu, sem sé rangt. Elísabet Þorgeirsdóttir sé ritstjóri og fjöldi kvenna lagt þar fram, að sér forspurðri, vitnisburð. Aldís segist nauðbeygð hafa farið í viðtalið 2013 því þá hafi hún aftur og aftur verið búin að heyra í útvarpi, kannski sjónvarpi, viðtal eftir viðtal eftir viðtal; Neineinei, þetta er bara uppspuni geðveikrar dóttur minnar. Neineinei, þessar ásakanir eiga rót að rekja í geðveiki dóttur minnar. Gunnar Ingi lögmaður Aldísar spurði hana hvort hún viti til þess að stefnandi hafi gert tilraun til að fá hana vistaða á geðdeild? Aldís segir svo vera, hún hafi átt fund með Stefáni Eiríkssyni þáverandi lögreglustjóra í viðurvist Harðar Jóhannessonar sem þá var aðstoðarlögreglustjóri þar sem hún greindi frá því að hún ætlaði að sækja Jón Baldvin til saka. Vísir hefur fjallað um þetta mál og má lesa nánar um það hér neðar. Framburður Aldísar er á þá leið að Bryndís hafi í kjölfarið hringt í yfirgeðlækni vinkonu sína á geðdeild og „lýsir yfir meintum áhyggjum sínum“. Þetta hafði Bryndís gert með góðum árangri, að sögn Aldísar, en varð ekki kápan úr því klæðinu að loka hana inni því hún hefði grun um að það gæti gerst. Og hafði búið svo um hnúta að heimilislæknir þyrfti að samþykkja ef loka ætti hana inni. Aldís segir að Bryndís hafi þá hringt í heimilislækni sinn til að klaga hennar meintu geðveiki. Aldís segist hafa farið í viðtalið og skýrslutöku meðal annars til að tryggja stöðu sína. Og hafi svo flúið í skjól. Lögmaður Aldísar spyr hana hvort nauðungarvistanir sem hún mátti sæta hafi verið ólögmætar. Aldís telur það svo vera, þær þurfi að bera undir ráðuneyti og öðru lagi dóm. Lögmaður segir stefnanda Jón Baldvin hafa lýst því hvernig þetta bar að en Aldís segir að hans sé ekki getið í komunótu. „Hvað hafði gerst stuttu áður. Laufey Ósk Arnórsdóttir hafði komið áður, ég hafði þá gift mig skömmu áður, og greint mér frá því að hún hefði sætt kynferðisbroti af hálfu Jóns Baldvins. Hann hafði upplýst mig um það áður, að hann hefði haft mök við ákveðna aðila í móðurætt, 1998. Ég er lögfræðingur að mennt. Ég ber hann þá þessum sökum.“ Vildi gjarnan eiga einvígi við þennan mann Aldís beinir orðum sínum hvöss til Jóns Baldvins en dómari biður hana vinsamlegast um að beina orðum sínum að sér. Aldís biðst afsökunar. Ég vildi gjarnan eiga einvígi við þennan mann. Hún segir að Jón Baldvin hafi farið með sig á spítalann undir fölsku yfirskyni því að þau væru að fara að heimsækja afa hennar. En þess í stað farið á geðdeildina. „Ég veit ekki hvernig þetta gekk fyrir sig, hann hlýtur að hafa orðið að tala við einhvern geðlækni um sína geðveiku dóttur. Fengið eitthvað meint viðtal. Herra hæstvirtur utanríkisráðherra og hins vegar hin meinta geðveika dóttur. Hvorn skyldi nú menn taka trúanlega?“ Aldís segir mat á geðrænu ástandi sínu hæpið, hún spyr til dæmis hvernig læknirinn geti gefið sér að hún eigi við ítrekað þunglyndi að stríða þegar hann hefur aldrei séð sig fyrr? Aldís telur þetta ekki ganga upp og segir, þegar lögmaður hennar spyr hana hvort stefnandi hafi þá sigað á hana lögreglu: „Siga? Er ekki talað um að siga hundi. Hundurinn er annar en Jón Baldvin þá. Ég skal reyna að vera varkár í orðalagi, hvað sýna gögn?“ spyr Aldís. Aldís sagði meðal annars að hún væri því fegin að þessi mál væru loksins komin fyrir dómstóla.vísir/vilhelm Hún rekur þá að þau leiði í ljós að innrás lögreglu og Kolfinnu, sem Aldís kallar málpípu Jóns Baldvins, hafi farið fram. Í viðurvist barnsins tveggja ára. Aldís segist hafa verið búin að kveða á vettvang Einar Gaut Steingrímsson lögmann og lögregla þurfti frá að hverfa. „Aðför kallast aðstoð við erlent sendiráð. Sem leiddi til þess að þó það komi fram í lögregluskýrslu, að barn mitt væri vel haldið, var ég handtekin í kyrrstæðum bíl mínum. Jón Baldvin hélt því fram að ég væri hátt uppi, hefði verið að skemmta mér en var samt vistuð vegna þunglyndis, sprautuð af mikilli sprautu. Þrátt fyrir þetta var ég í góðu jafnvægi.“ Segir Bryndísi hafa beitt sér í málinu Aldís segir að Bryndís hafi hringt og kallað eftir leit að sér eftir að hún hafði heyrt allan sannleikann um kynferðisbrot Jóns Baldvins. Hún segist hafa grannskoðað sjúkragögn og ekki fundið eitt einasta gagn um að það hafi verið læknar sem fóru fram á handtöku. Aldís segir Hörð Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóra hafa komið upp um „kauða Jón Baldvin“. Þegar Jón Baldvin sveiflaði til sönnunar því að hann hafi aldrei komið nálægt handtöku á sér, fimm sinnum, í títtnefndu viðtali í Silfri 3. febrúar 2019, skjali aðstoðarlögreglustjóra með stimpli lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Að í þessu plagi lögregluembættisins stæði að hjónin hafi aldrei leitað eftir aðstoð þeirra. Stefáni Eiríkssyni þá lögreglustjóra mátti vera fullljóst að gögn málsins, 5. janúar 2012, innihéldu ummæli um að hann væri líka að misnota ung börn. Aldís segir að þá þegar hefðu verið komnar fram ásakanir um kynferðisbrot Jóns Baldvins, hún vissi um nokkrar sem höfðu stigið fram og aðrar. „Að hann hefði gerst brotlegur gegn sex, og ég fæ „flash back“, endurlit, rifjast upp fyrir mér minning óbærileg, frá mér fimm ára gamalli 1986, þegar ég svo … auðvitað ætlaði ég ekki að fara til útlanda að vera leiðinleg, en ég er fimm ára þegar þetta er, hann er þá líka í litlum börnum,“ segir Aldís. Hún segir jafnframt afstætt hvað barn er, fyrir henni sé það til 18 ára. „Konurnar sem stíga fram eru allar börn, fjórar af þessum átta sem stíga fram eru öll börn, kynferðisbrot hefjast þegar Guðrún Harðardóttir er í 8. bekk. Mér var þá ljóst að ég gæti ekki skilið barn eftir í hans umsjá,“ segir Aldís og vísar til uppgjörsins í Washington-heimsókn hennar og dóttur hennar. En til stóð að þær Bryndís færu á ballett og dóttir hennar yrði þá eftir í umsjá Jóns Baldvins. Eldhúsréttarhöldin Aldís segir að fólk geti ímyndað sér hvernig samtal hennar og Bryndísar var í því sem nefnd voru í héraðsdómi „eldhúsréttarhöld“, í heimsókn Aldísar til foreldra sinna í Bandaríkjunum. Aldís segist þá hafa sagt móður sinni Bryndísi af kynferðisbrotum Jóns Baldvins. „Ef þú ert að segja sannleikann gefstu ekkert upp. Sannar sannleiksgildi sitt. Jón Baldvin segir að við höfum talað, við gerðum það sannarlega. Ég spring á limminu og bunaði þessu út úr mér. Bryndís fer að gráta. Hann kemur, þær láta sig hverfa, móðir mín og systir. Þær hurfu, við fórum uppá efri hæð og þar áttum við einvígi og hann ýmist bar því við að hann væri saklaus eða fullur.“ Aldís ráðgast við lögmann sinn, Gunnar Inga Jóhannsson.vísir/vilhelm Aldís lýsir því að þær mæðgur gátu ekki farið strax heim til Íslands, skrifstofur flugfélagsins voru lokaðar. Aldís telur sig hafa heimildir fyrir því að foreldar hennar hafi kært sig þá í millitíðinni til félagsþjónustu og að þau hafi sett sig í samband við Halldóru Ólafsdóttur yfirlækni geðdeildar og lýst yfir áhyggjum af geðheilbrigði hennar. Það sé augljóst því spítalinn hugsi ekki með sér uppúr þurru: Já, Aldís er geðveik. Greinst geðveik samkvæmt þessari ómarktæku, hlálegu og fáránlegu greiningu, að sögn Aldísar. Við svo búið vék sögu að ákærulið númer tíu, ummælum Aldísar á Facebook-síðu sinni þar sem hún talar um barnaníðingabandalag Jóns Baldvins. Aldís segir að það sé mikilvægt að það komi fram að fjórar konur hafi vaknað upp við Jón Baldvin um nótt, við káf hans og staðfest sé að faðir Guðrúnar Harðardóttir, hafi séð þegar hann læddist upp í herbergi þar sem tíu ára stúlka var sofandi. „Að Jón Baldvin skuli voga sér að bera það upp á mig að bera ljúgvitni um náungann. Mér sárnar það mjög.“ Barnaníðingabandalagið Aldís vísar til áðurnefnds viðtals við Jón í Silfrinu þar sem hún segir að Jón Baldvin hafi veist að æru sinni og æru dóttur hans sem aldrei hafi sakað hann um kynferðisbrot. Og það hafi verið sem blaut tuska framan í þær konur sem hafa skrifað sína sögu með tárum. Aldís nefnir að Jakob Frímann hafi stigið fram magsinnis og lýst yfir stuðningi við Jón Baldvin. Hann hafi sagt við sig þegar hún hitti hann að sér væri alveg sama. Þetta reyndist Aldísi hugljómun en hún hafi verið afar sár eftir viðtalið við Jón Baldvin í Silfrinu, fyrir sína hönd, fyrir hönd barns síns og margra annarra. Að verið væri að breiða yfir níð gegn börnum. Þá sagðist Aldís vera sár fyrir hönd barnsföður síns, sem nú er látinn. „Hann var af rússneskum aðalsættum, vonandi get ég gefið út ljóðin hans, en að veitast að æru hans var lítilmannlegt en hann var ekki viðstaddur þegar þessi orð féllu.“ Sprautuð með forðasprautu Aldís furðaði sig ennfremur á þeirri kenningu að hún væri á bak við allan þann framburð sem fyrir liggur um kynferðislega áreitni Jóns Baldvins og velti því fyrir sér hvernig það hefði farið fram: Sæl. Heyrðu, ertu til í að búa til fyrir mig smá um kynferðisbrot? „Mér þætti vænt um að fá nánari útlistun Jóns Baldvins á þessari samsæriskenningu?“ sagði Aldís og taldi hans framgöngu hvað þetta varðaði lítilmótlega og löðurmannlega, svo vitnað sé til orða hennar: Og lygari væri hún ekki. Lögmaður Aldísar spurði hvort á henni hafi verið framkvæmd geðrannsókn og Aldís upplýsti að í tvígang hafi hún verið flutt í járnum á geðdeild, í viðurvist barns síns. „Ég fékk ekkert viðtal heldur sprautuð strax með forðasprautu. Fyrir mér er sprauta það skelfilegasta sem ég veit. Öll þessi skipti; læknisvottorð voru skrifuð eftir á.“ Þá nefndi Aldís, öðru sinni, að mat lækna á því að hún væri haldin ranghugmyndum um kynferðisbrot Jóns Baldvins gæti ekki verið yfir allan vafa hafið. Hún vísaði til mats Gunnars Hrafns Birgissonar sálfræðings, doktors í klínískri sálarfræði og sem sé einn vandaðasti maður sem Aldís hafi kynnst um dagana. „Hann komst að þeirri niðurstöðu eftir mörg viðtöl og próf. Sjálf hafði ég í lögfræðinni verið látin taka persónuleikapróf, átta aðilar sem hafa komist að þeirri niðurstöðu,“ sagði Aldís sem komi ekki heim og saman við mat þeirra á Landsspítala „Og þó maður sé greindur með geðhvarfasýki er maður ekki lygari. Nema helst siðblinda, skilst mér.“ Eins og hún sé föst í hryllingsmynd Gunnar Ingi lögmaður spurði skjólstæðing sinn þá að því hvaða áhrif þetta hefði haft á persónulegt líf hennar og Aldís sagðist varla eiga til orð. „Mér líður eins og ég sé föst í einhverri hryllingsmynd. Þetta er martröð. Ég reyndi hvað ég gat að fyrirgefa og lagði til sátt,“ sagði Aldís. Hún sagðist hafa boðið í afmælisboð dóttur sinnar. Kolfinna hafi mætt þangað en á milli hennar og systkina hafi framan af verið hlýtt; hún kenndi þeim á klukku, að lesa og hafi verið þeim góð. „Það var helvíti á jörð að vera uppi á geðdeild. Fyrirlitningin og ókurteisin af hálfu geðlækna sem sögðu mér að halda kjafti þegar ég vildi tala um kynferðisbrot Jóns Baldvins. Ég er nýbúin að losna við ótta við lögreglubíl,“ segir Aldís og lýsir því þegar hurð að heimili hennar var hrundið upp árið 2002 og barnið tekið grátandi úr faðmi hennar. Aldís segir málið allt hafa verið martröð líkast.vísir/vilhelm Hún hélt að móðir sín væri á leið í fangelsi. Aldís segir að fyrir hafi legið beiðni Jóns Baldvins, sendiherrans og utanríkisráðherrans og hún hafi ekki átt möguleika. „Ég grét og grét og grét á geðdeild og spurði um barnið mitt.“ Árið 2012 hafi orðið straumhvörf, í ofanálag ólögmætar nauðungarvistanir fyrir orðastað þeirra, „að það eigi að núa mér uppúr þeim vistunum með níðgreinum til að sverta ímynd mína til að bjarga sinni. Sé ég að segja satt hef ég ekki bara upplifað kynferðisbrot heldur meiðyrðabrot og það endalaust, Það var hræðilegt að lesa þessar níðgreinar 2012 ég hélt ég myndi deyja.“ Aldís segist hafa átt sér stóra drauma. Hún væri lögfræðimenntuð en lífið sé lexía. Ekkert komi henni á óvart lengur. En „þessar ógeðslegu aðfarir hafa styrkt samband mitt við dóttur mína.“ „Við bitum á jaxlinn og héldum kjafti“ Spurð um Mannlífsviðtalið sem ítrekað var vitnað í af stefnanda og stuðningsfólki hans, þar sem fram kemur að gott hafi verið á milli þeirra Jóns Baldvins, segir Aldís að ólíkt Jóni Baldvini sé æra, heiður og sómi nokkuð sem hún telji að beri að virða. Það hafi Bryndís kennt henni. Það voru aðrir tímar þá, núna sé vandamál í blöðunum, hver eigi erfiðast. „Við bitum á jaxlinn og héldum kjafti. Metoo breytti því. ég elskaði Jón Baldvin,“ sagði Aldís við vitnaleiðslunar. Og Jón Baldvin hafi í þrígang sagst elska hana. Orð sem ég þráði að heyra en hann sagði þau uppi í rúmi hjá mér um miðja nótt. Aldís segir að Jón Baldvin hafi verið ógáfulegur og rifjaði upp senu þegar hann rembdist við að vinna dóttur hennar barnunga í skák, rauður í framan og hafi þá ekki verið gáfulegur á svipinn. „Aldís segir að hún hafi verið bullandi reið út í Jón Baldvin 2002 og „búin að segja að ég vildi ekki sjá hann meir.“ En í nýrri bók eftir Bryndísi hafi hún talið 75 lygar um sig og ekki vísað í nein gögn. „Ég þakka fyrir þessi réttarhöld hér,“ sagði Aldís og sagði að endingu, í vitnaleiðslum undir spurningum lögmanns síns, að það væri „algjör lygi“ að hún hafi lagt barnsföður Snæfríðar lið. Hún hafi þvert á móti beðið Hróbjart Jónatansson, hinn virta hæstaréttarlögmann, að hjálpa systur sinni. Sem hún þáði. Æra Jóns Baldvins var æra mín Lögmaður Jóns Baldvins, Vilhjálmur, tók þá til við að spyrja Aldísi út úr, fyrst um aðdragandann að viðtalinu í Morgunútvarpinu, sem málið sem nú er rekið snýst um - þau ummæli sem féllu þar. Aldís tók þá að rekja að það hafi verið sér mikið áfall, eins og áður sagði, að lesa það frá Jóni Baldvin að hún væri geðveik. „Ill og hættuleg og að ég væri að pína fjölda kvenna til að bera vitni gegn Jóni Baldvin.“ Aldís sagðist ekki muna tildrögin í smáatriðum, hvort það hafi verið Sigmar eða Helgi Seljan, sem vann að viðtalinu ásamt Sigmari, sem hafði samband við sig upphaflega. Aldís sagðist hafa farið til fundar við þá klyfjuð gögnum sem hún lét þeim í té? Aldís er þá spurð hvernig andlegri heilsu hennar hafi verið háttað 1995 en Aldís sagðist aldrei hafa skilgreint sig sem geðsjúka. Og það staðfesti mat átta sérfræðinga sem kemur ekki heim og saman við þetta eina plagg sem kveði á um það frá Landspítalanum. Hún sagði að því hafi verið sagt að hún væri haldin ranghugmyndum um kynferðisbrot föður hennar en hún minntist þess að Jón Baldvin hafi haldið því fram að hafa riðlast á ömmu hennar. Heilagri konu, sem og systur móður hennar og einni mágkonu. Vilhjálmur spyr út í viðtal systranna margumrætt í Mannlífi en Aldís segist hafa 1993 upplifað kraftaverk, en trú á geðdeild teljist geðveiki. „Ég var endalaust að fyrirgefa. Æra Jóns Baldvins var æra mín. Ég sagði sannleikann geðlæknum bundnum þagnaskyldu. 1995 var ég ekki búin að fá sjúkraskýrsluna í hendur, né bréf Guðrúnar.“ Meira um hið meinta barnaníðingabandalag „Telur þú að stefnandi beri ábyrgð á frelsissviptingu þinni?“ spyr Vilhjálmur og Aldís segist alltaf hafa sagt að hann hafi knúið hana fram, lagt fram beiðni; hún uppástandi það. Nauðungarvistun og hafi misnotað aðstöðu sína. En hvorki hún né Sigmar hafi sagt það. Um barnaníðingabandalagið jánkar Aldís því að ekki sé gaman að fá slíkt yfir sig en hún hafi verið helsár eftir svívirðilegar ærumeiðingar föður hennar um sig; „þar sem ég er aðalumræðuefni og barnsfaðir minn heitinn. Lítið gert úr okkur, ég sökuð um óheiðarleika og að pína fólk til að saka hann um … ég er mjög reið og ég segi, ég mun sigra hann og hans barnaníðingabandalagið. Hann hefur níðst á eigin barni. Þeir sem vilja breiða yfir kynferðisbrot hans og samþykkja kenningu hans að ég standi þarna að baki, ásökunum á hendur honum. Hann er barnaníðingur, barnaníðingabandalag … þá er ég að tala um kjósendur þessa alþýðuflokksbandalags, ekki að halda fram að þetta sé einhver stofnun, sem gera lítið úr kynferðisbrotum.“ Endurlit eða „flash back“ Þá vék Vilhjálmur að lið 14 í stefnu þar sem því er haldið fram að Jón Baldvin hafi framið sifjaspell. Vilhjálmur heldur því til haga að þetta séu ummæli sem stefni Sigmar nefnir en eiga að vera höfð eftir Aldísi með einhverjum hætti. Til hvaða atvika er vísað hér? „2012, þetta hryllingsár þegar ég sat undir gengdarlausum meiðyrðaskrifum foreldra minna birtist vitnisburður við Valgarð Bragason. Jón Baldvin sagði ásakanir Aldísar algerlega fráleitar.vísir/vilhelm (Valgarður hefur lýst því að hann hafi fengið einskonar endurlit og áttað sig á því löngu síðar að hann var eitt fórnarlamba Séra Georgs og Margrétar Muller í Landakotsskóla í frægu máli.) Aldís lýsti því að móðir Valgarðs, Nína Björk heitin Árnadóttir, það hafi verið fram bréf, meðal annars prest. Tveir aðilar hafi svo tjáð henni að vitað væri að Jón Baldvin sæki í börn í kynferðislegum tilgangi. Það sé ekki oft sem hægt er að staðfesta ásakanir um kynferðisbrot, þau séu framin að baki luktum dyrum. Segir Kidda rót hafa sótt sig á geðdeildina Hvenær átti þetta sifjaspell sér stað og með hvaða hætti, spyr þá Vilhjálmur. Aldís vísar í skýrslu sem Vilhjálmur hafi fengið en nánast frá þeim degi sem hún stígi fæti á geðdeild fái hún forðasprautu. Hún hafi aldrei farið til sálfræðings, fyrir utan þessa rannsókn hjá Gunnari Hrafni, og hún hafi misst minnið vegna sprauta. „En ég man eftir leðursætunum og man eftir kynfærunum á honum í bílnum. Þetta gerist þegar ég er rænulaus uppá geðdeild og ég get ekki vitað í hvaða nauðungarvistun.“ Aldís á greinilega afar erfitt með að tala um þetta en segir að hún minnist þess að Kiddi rót, sem var þekktur einkabílstjóri Jóns Baldvins, hafi sótt sig og keyrt fram og til baka í sund á kostnað ríkisins. Aldís bandar þessu frá sér og bendir Vilhjálmi á að lesa lögregluskýrslunnar. Vilhjálmur vísar til Árna Stefáns Árnasonar, fyrrverandi lögmanns Aldísar, með að almannarómur hafi verið á geðdeild að stefnandi hafi misnotað hana? Aldís á augljóslega afar erfitt með að ræða þetta. Hún hryllir sig, nefnir að hún hafi fimm ára fengið verklega kennslu í sjálfsfróun, þetta sé ógeðslegt og erfitt að tala um þetta. En Jón Baldvin hafi heimsótt sig á geðdeildina til að nauðga sér. Um það sé fjallað í dómsskjali 88, kæruskýrslu árs 2013. Aldís segist ætla til dávalds, í dáleiðslu, það verði sárt en hún geti ekki staðið í þessari baráttu meðan hún sé í sárum. Það bíði betri tíma, hún verði að læknast af því sem gerðist. Viðtalið ekki tekið í tómarúmi Þá var komið að Sigmari Guðmundssyni að setjast í vitnastólinn. Hann gerði grein fyrir því aðdraganda viðtalsins, sagði að hann og félagi hans Helgi Seljan, hafi hitt Aldísi í tvígang og farið yfir mikið magn gagna sem hún afhenti þeim. Þá sagði hann og lagði fram gögn þess efnis, að hann hafi gert ítrekaðar tilraunir til að hringja í Jón Baldvin, sent honum tölvupóst og SMS-skeyti. Sigmar Guðmundsson mætti vel undirbúinn í héraðsdóm.vísir/vilhelm Sigmar benti á, í þessu sambandi þó hann væri ekki að segja að svo hafi verið í þessu tilfelli, að þess væru dæmi að menn vildu drepa mál með því að láta ekki ná í sig. Og það væri ekki boðlegt. Sigmar sagði að það yrði að gæta að samhenginu, viðtalið sprytti ekki upp úr tómarúmi. Metoo-umræðan hafði verið í umræðunni, í fréttum og allt það í mikilli deiglu. Þá greindi Sigmar frá því að fjórum dögum áður en viðtalið við Aldísi, sem var tekið upp, klippt var birt hefðu þeir verið með Guðrúnu Harðardóttur í viðtali. Hún hafði komið fram með sitt mál fyrir löngu en taldi sig hafa mætt ákveðnu tómlæti. En nú væri meira hlustað, vegna Metoo. „Í framhaldi af því fannst okkur rökrétt að tala við Aldísi Schram, hvort hún vildi tjá sig um hennar mál. Fjölskyldan hefur alltaf haldið því fram að rót hennar sagna eigi rót sína að rekja til geðveiki hennar,“ sagði Sigmar og sagði þá telja hana hafa átt rétt á því að fá að segja sína sögu. Þeir útvarpsmenn höfðu samband við hana þremur dögum áður en viðtalið var tekið, hittu hana tvisvar áður en það var tekið upp. Gögnin höfðu þeir til hliðsjónar þegar viðtalið var klippt og þegar komin var mynd á það var hringt ítrekað í símanúmer Jóns Baldvins. „Og þegar leið á daginn fyrir birtingu sendi ég SMS og tölvupóst til Bryndísar, að við yrðum með þessa umfjöllun og honum stæði til boða að koma fram með sín sjónarmið.“ Simmi og Villi Sigmar sagði að Aldís hafi setið undir ásökunum um að hún sé geðveik, að allt eigi sér rætur í því en svo eftir Metoo hafi verið fullkomlega eðlilegt að Aldís segði sína hlið; hvernig stóð á því að hún var lögð inn? Fólk sem er greint með geðhvarfasýki, ef þú ert með geðhvarfasýki, lifir ekki í stöðugum stöðugum ranghugmyndaheimi í svefni og vöku. Sigmar segir þá Helga hafa metið það hvort hún virtist í maníu eða einhverju slíku en því var ekki til að dreifa. Hún kom þeim fyrir sjónir sem mjög skýr og vísaði ætíð réttilega í gögnin sem þeir spurðu hana út í fram og til baka. „Að manneskja væri talin geðveik og svipt, hún ætti allan rétt á í heimi að tjá sig. Þannig blasir þetta við okkur sem fréttamönnum. Við eru ekki dómstóll eins og Jón Baldvin hélt fram ranglega, ekki frekar en Silfrið þar sem hann var í viðtali,“ sagði Sigmar. Að ýmsu leyti hafi fjölmiðlar brugðist Aldísi með að leggja trúnaði við að hún væri geðveik og ætti þannig ekki rétt á að tjá sig. Aldís, Sigmar og lögmenn þeirra.vísir/vilhelm Útvarpsmaðurinn svaraði spurningum stefnanda með því að ávarpa hann Villa og greip þá dómari inn í og bað hann um að ávarpa réttinn með viðeigandi hætti. Sigmar, sem reyndar Vilhjálmur hafði áður kallað Simma, baðst afsökunar á því og sagði það rétt að þetta væri of kumpánlegt miðað við aðstæður. Varðandi ákæruliðina sem að honum sneru benti Sigmar á að þetta væru ekki hans orð né Helga. Þeir væru fjölmiðlamenn og bæru ekki ábyrgð á því sem aðrir segðu. Varðandi stiklu, þar sem Sigmar greinir frá því að Aldís saki föður sinn um sifjaspell, en ekki var komið inná það í viðtalinu sjálfu, segir Sigmar bagalegt að Helgi sé ekki þarna einnig. Því þeir hafi unnið þetta saman og líklegt sé að Helgi hafi skrifað textann þó hann hafi flutt. Hann muni ekki hvernig það var. En benti jafnframt á að það atriði hefði þegar komið fram opinberlega. Þeir hafi einungis verið að greina frá því og ekkert umfram það. Bryndís látin sverja drengskaparheit Næst í skýrslutöku var Bryndís Schram, eiginkona Jóns Baldvins, móðir Aldísar. Vitnaleiðslurnar höfðu tekið mjög á viðstadda, óhætt er að segja það og enn hertist róðurinn þegar Bryndís bar vitni á vegum lögmanns Jóns Baldvins. Framburður Bryndísar var með þeim hætti að það fór um viðstadda og lengstum var Aldís með tárin í augum. En Bryndís bar vitni í gegnum síma, hún treysti sér ekki til að mæta í réttarsal sökum veikinda. Það vakti athygli þegar dómari greindi frá því að fyrir lægi beiðni frá stefndu að Bryndísi yrði gert að sverja eið þess efnis að hún segði satt og rétt frá. Ef vitni hefur unnið slíkan eyð og í ljós kemur að um rangan framburð sé að ræða geti það leitt til refsiþyngdar fyrir viðkomandi í dómsmáli. Bryndís sagðist ætla að vera opinská og gekkst inná það að sverja drengskaparheit. Hún sagðist ekki trúa á Guð og því var hún látin rétta upp hægri hönd og hafa eftir Jóhannesi Rúnari dómara: „Ég lýsi því yfir, og legg við drengskap minn, og heiður, að ég hef sagt það sem ég veit sannast og réttast, og ekkert dregið undan.“ Í stuttu samtali við blaðamann Vísis eftir fyrri hluta aðalmeðferðar staðhæfði Aldís að þær Kolfinna og Bryndís hafi farið með rangt mál og viðbúið að fram komi kærur sem grundvallist á því. Átakanlegur vitnisburður Bryndísar Vilhjálmur lögmaður bað Bryndísi að lýsa veikindum Aldísar sem dæsti, sagði þetta langa sögu. „Þegar ég lít til baka man ég að Aldís var mjög gott barn, gekk vel í skóla, átti stóran hóp vina. Við bjuggum lengi í húsi foreldra minna, en þegar við fluttumst vestur var hún þar en kaus svo að fara til baka. Hún lauk stúdentsprófi á mettíma,“ segir Bryndís. Hún segir að það hafi ekki verið fyrr en löngu síðar sem þau hjón tóku að hafa áhyggjur, þegar Aldís var í leiklistarnámi í London komin yfir þrítugt og svo í dularfullu ferðalagi í Ísrael. Bryndís segir að Aldís hafi verið komin í sambúð um tvítugt og það hafi ekki verið svo að þau hafi fylgst með lífi hennar frá degi til dags. Bæði á kafi í vinnu. Því kom það í hlut annarra að takast á við það þegar hún þurfti á læknishjálp að halda: borgarlæknir, félagsmálastofnun, stuðningsforeldri, barnavernd og svo framvegis, auk ættingja. „Ég vonaði að þetta væri tímabundið og þetta myndi allt lagast. Eftir að móðir mín dó, 1991, sem Aldís tók mjög nærri sér en þær voru nánar, keyptum við íbúð handa henni við Tryggvagötu. Við fórum að hafa áhyggjur af því að hún gæti aldrei séð sér farborða í lífinu og um það leyti var hún komin með nýjan kærasta.“ Þekkti varla dóttur sína Bryndís segir að veikindi Aldísar hafi verið óbærileg lífsreynsla. „Satt best að segja þekkti ég ekki þessa dóttur mína þegar ég heimsótti hana á geðdeild. Við vorum læstar inni á herbergi sem hún hafði ein. Hún hjúfraði sig upp að mér, gróf sig inn í mig og mér fannst eins og hún vildi gerast barn aftur, ég varð hrædd og treysti mér aldrei til að upplifa þessari lífsreynslu óbærileg sem aldrei gleymist.“ Bryndís segist spurð um geðhvarfasýki ekki hafa hugleitt svona sjúkdóma né vissi hún hvernig hún átti að hugsa þetta. „Það var eins og ég væri búin að tapa dóttur minni og gæti aldrei nálgast hana aftur.“ Helgi Seljan vann viðtalið við Aldísi ásamt Sigmari. Málið er hins vegar á hendur Sigmari því hann flutti textann sem þeir skrifuðu saman. Í samtali við Vísi segir Helgi það ábyggilega svo, eins og Sigmar minnti og fram kom í vitnisburði hans, að hann hafi skrifað klausuna um sifjaspell, sem ákært er fyrir.vísir/vilhelm Bryndís rekur, eins og Jón Baldvin hafði áður gert, að þegar Aldís var 33 ára 1992 hafi hún farið sjálfviljug inn á geðdeild, eins og hún gerði sér grein fyrir því að hún væri hjálparþurfi. Bryndís segir að við hafi tekið góður tími, hún hafi notið þeirrar umönnunar og verndar sem þurfti frá samfélagsstofnunum. Svo fluttu þau hjón af landi brott 1998 og Bryndís segist aldrei hafa kynnst barnabarni sínu, því hafi verið haldið frá sér. Væri löngu búin að slíta samskiptum við slíkan ræfil og öfugugga „Aldís, af trúarástæðum held ég, hætti að nota lyf,“ sagði Bryndís og undirstrikaði að það væri í höndum lækna að meta ástand sjúklings hverju sinni. Nauðungarvistun á þeim tíma hafi aðstandendur þurft að veita samþykki sitt fyrir. En frumkvæði kom frá læknum og það þyrftu aðstandendur að samþykkja. Sem bitnaði harkalega á þeim. „Oftar en ekki beinir sjúklingurinn hatri sínu að sínum nánustu og það var það sem gerðist í okkar tilfelli.“ Vilhjálmur spurði Bryndísi hvort það gæti verið svo að þessar ólögmætu frelsissviptingar séu á ábyrgð Jóns Baldvins. Það taldi Bryndís af og frá. Hún minnist þess að Jón hafi fylgt dóttur sinni í eitt skipti inn á geðdeild, þegar hún fór þangað sjálfviljug. „Aldís tók það fram skriflega að hann einn mætti fyrir hönd aðstandenda samþykkja frelsissviptingu. Á þeim árum vorum við búsett erlendis. Hann varð lögum samkvæmt að veita samþykki sitt og það var með sérstakri heimild Aldísar. Vilhjálmur benti á að hluti ásakana væru þær að Jón Baldvin hafi framið sifjaspell gagnvart dóttur sinni. Hvenær Bryndís hafi heyrt af því fyrst? „Fyrir stuttu, ég hafði aldrei heyrt það, það kom fram í útvarpinu, 2019. Ef það væri eitthvert sannleikskorn í þessari svívirðilegu ásökun sem er ruddaleg gagnvart okkur og mér, væri ég ekki hér, 20 árum síðar, að halda hlífiskildi yfir glæpamanni. Ég væri fyrir löngu búin að slíta samskiptum við slíkan ræfil og öfugugga.“ Þá er hann sakaður um að vera barnaníðingur? „Já, barnagirnd, ég er búin að svara því, þetta er svo niðurlægjandi, svo óhugnanlegt fyrir mig sem er búin að vera gift þessum manni í allan þennan tíma, aldrei staðið hann að öðru eins ógeði. Nálgast að vera morð, slíkur maður hann ætti að vera í fangelsi. Horfinn af sjónarsviðinu og ég hefði aldrei látið slíkt líðast,“ sagði Bryndís og lagði ríka áherslu á orð sín. Hún sagði þetta orð nýtt ár í tungumálinu. „Ef eitthvað slíkt hefði gerst á mínu heimili hefði ég gengið út og aldrei látið sjá mig aftur. Það er alveg satt.“ Óhætt er að segja að orð Bryndísar hafi verið afar dramatísk eins og þau hljómuðu um hátalarakerfi héraðsdóms. Bryndís hefur áður sagt óhugsandi að hún væri í tygjum við annan eins mann og þann sem Jóni Baldvini er nú lýst í tengslum við ásakanir um kynferðisbrot. Vilhjálmur vék næst tali að bréfi Snæfríðar til Aldísar. Bryndís segir að það hafi verið ódagsett því þau hafi farið yfir það saman. Og síðar hafi Snæfríður fengið Kolfinnu og Glúm, börn þeirra hjóna, til að skrifa undir. „Eftir þetta sleit Snæfríður öllum samskiptum við Aldísi, sem henni var þungbært,“ segir Bryndís og nefnir það sem fram hafi komið áður að barnsfaðir hennar hafi sent sendiráðum víða um heim bréf þar sem hann lýsir þessari meintu hegðan föður gegn dætrum sínum. Vilhjálmur spurði Bryndísi því næst út í margumrætt viðtal við systurnar í Mannlífi, og hin lofsamlegu orð sem Aldís lætur þar falla um föður sinn. Viðtalið við Mannlíf. Lofsamleg orð sem Aldís lætur falla um föður sinn? Bryndís segir það viðtal dásamlegt og hún sé með það í bók sinni nýútkominni, Brosað í gegnum tárin, en þar heldur Bryndís uppi vörnum fyrir eiginmann sinn. Spurð segist Bryndís ekki átta sig á því hvað það var sem breyttist. Sennilega sé það þetta með sjálfræðissviptinguna. Hún hafi komið til föður síns, sagt að hann væri eini maðurinn sem hún treysti til að bera ábyrgð á lífi sínu. „Þú einn mátt skrifa undir.“ Reið sögusögnum um að hún væri drukkin í að grípa um kynfæri karla Tónninn í röddu Bryndísar hafði fram til þessa verið sár en hún er hvöss þegar hún vísar í málsskjöl þar sem sagt er um hana að hún sé alveg eins og Jón Baldvin; oftast sauðdrukkin og grípi þá um kynfæri karla á öllum aldri. „Ef þið trúið þessum sögum um mig er engin ástæða til að trúa neinum sögum. Þetta er sama sjúka hugsun og hjá dóttur minni sem neitar því að vera veik. Ef hin sjúka hefði viðurkennt sjúkdóm sinn og leitað til læknis hefðu þessi fáránlegu málaferli aldrei átt sér stað.“ Gunnar Ingi, lögmaður Aldísar, tekur nú til við að spyrja Bryndísi út úr og hann nefnir að þau hafi verið nokkur skiptin sem Aldís mátti sæta nauðungarvistun? Bryndís svaraði því svo til að aðkoma þeirra hjóna hafi aldrei verið neinn. Og svo einkennilega vildi til, og á það hafi einhver bent að hún verði alltaf veik þegar hún Bryndís sé ekki heima. Því lenti þetta á systrum hennar tveimur og bræður tveimur, Björgvin og Ellert, og vinkonum hennar tveimur, vinkonum Aldísar að bregðast við ástandinu. „Ég fór aldrei með henni uppá spítala, heimsótti hana einu sinni á spítala en það var mér óbærilegt og fór aldrei aftur.“ Gunnar Ingi spyr þá hvernig það megi vera að í málsskjali 14 liggi fyrir undirrituð ósk frá henni, ósk um nauðungarvistun? Bryndís segir að í sig hafi verið hringt frá lögreglu, hún man ekki til þess að hafa farið á lögreglustöðina. Það rifjist upp fyrir henni þegar Gunnar Ingi nefnir það, að hringt hafi verið í sig. Jón Baldvin þá ekki heima og hún hafi þá verið staðgengill hans. Þannig að þú undirritar þetta án þess að hafa hugmynd um málið af nokkru leyti, spyr þá Gunnar Ingi. Bryndís svarar því til að hún muni ekki eftir þessu en rámi í að fylgt hafi læknisvottorð. Aldís vilji fara út af geðdeild þegar henni þóknaðist og hafi alfarið neitað alfarið að taka lyf. Þá hafi komið fram beiðni um nauðungarvistun og fylgt læknisvottorð frá Kjartani Kjartanssyni. Yfirheyrsla lögmanns Aldísar Gunnar Ingi spyrði þá um hvort þau hjón hafi haft aðkomu að nauðungarvistun Aldísar 2002, 13. apríl. En það er eftir að Aldís kemur heim frá Washington. Bryndís telur það ólíklegt og segist ekki muna eftir því að hafa þurft að koma að málum Aldísar á þeim árum. „Það hlýtur að hafa verið hart lagt að mér af lögreglu en ég segi það satt að ég man ekki eftir því að ég gæti komið í stað Jóns Baldvins. Ótrúlegt að heyra þetta núna.“ Bryndís segir að foreldrar Aldísar hafi haft áhyggjur af henni, og Jón Baldvin hafi verið staddur í Kanada, en Bryndís segist ekki átta sig á því hvernig hún gæti hafa komið að þessari ráðstöfun með því að prenta út skjal, undirrita og senda í faxi. Hún muni bara ekki eftir því. En kannast þú við að hafa óskað eftir því að það yrði leitað að henni 2002? Bryndís segist hafa verið í Ameríku en hún muni að bróðir hennar var að leita að henni. Hún hafi yfirleitt bara verið látin vita. Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður Aldísar yfirheyrði Bryndísi um ýmis atriði sem tengjast málinu.vísir/vilhelm Gunnar Ingi vitnaði þá í dagbók lögreglu þar sem fram kemur að móðir Aldísar hafi ætlað að senda fax og óska eftir leit. Hefur þú komið að einhverjum þessum málum? Bryndís spyr þá á móti hvort ekki sé eðlilegt að áhyggjufull móðir biðji einhvern að leita að barni sem gæti farið sér að voða. Gunnar Ingi spurði Bryndísi þá hvaða upplýsingar hún hafi haft á þeim tíma, þess efnis að Aldís gæti farið sér að voða? Bryndís svarar því til að hún hafi verið með fjögur börn heima á Íslandi sem yfirleitt upplýstu sig um hvað væri í gangi. „Man eftir því að hún lét sig hverfa og allir mjög hræddir, sem móðir hafði ég áhyggjur af dóttur minni.“ Gunnar Ingi spyr hvort einhver gögn séu til, skrifleg, sem borist hafi yfiröldum eða læknum þar sem þessum áhyggjum sé lýst? Bryndís telur svo ekki vera, oftast hafi verið hringt í þau hafi eitthvað komið uppá. Hún viti ekki hvaða gögn Jón Baldvin fékk send en þau voru aldrei send til hennar. Kannastu við að Aldís hafi borið kynferðisbrot uppá stefnda fyrir 1988? „Nei, það hafði ég aldrei heyrt. Þau voru nánir vinir, hún elskaði föður sinn meira en mig.“ Sakaður um að hafa nauðgað öllum tiltækum konum Þegar Bryndís er spurðu hvenær hún hafi frétt af ásökununum segist hún fyrst hafa heyrt það í þessu fári núna. Hún hafi aldrei heyrt þessi ljótu orð fyrr, barnaníð. Gunnar Ingi nefnir þá heimsóknin örlagaríku 2002 til Washington. Bryndís segir að hún hafi endað með skelfingu en því lýsi hún í bók sem hún sé nýbúin að gefa út. Að Aldís komi þung og byrji að tala um að hann væri barnaníðingur, að hann hafi snert dóttur sína. Og hún haldi áfram að tala um þetta; „að hann hafi nauðgað móður sinni, systrum hennar, vinkonum, vinkonum sínum, frænkum …Bara öllum tiltæku konum. Ég stóð sem lömuð við eldavélina.“ Bryndís segir að sárt hafi verið að hlusta á þetta allt saman. Spurningu Gunnars Inga um hvort rangt hafi þá verið það sem hún sagði áður svaraði Bryndís sem svo að Aldís hafi ekki talað við sig í tuttugu ár. Og hún kannaðist ekki við að hafa verið boðið í afmælisveislu dóttur Aldísar, sem frá hefur verið greint fyrr. Bryndís Schram en myndin er tekin þegar útkomu uppgjörsbókar hennar Brosað í gegnum tárin var fagnað að heimili þeirra Jóns Baldvins í Mosfellsbæ.Hallgrímur Sveinn Bryndís mundi ekki eftir ballettsýningu sem Aldís segir að til hafi staðið að fara á í Washington né ummæli þess efnis að Aldís vildi ekki skilja dóttur sína eftir í umsjá afa síns. Bara þetta að Jón Baldvin hafi borið barnið sofandi upp og lagt til hvílu og nú væri hann orðinn glæpamaður sem væri búinn að nauðga öllum konum í fjölskyldunni. Spurð segist Bryndís fljótlega heyrt af bréfaskrifum til Guðrúnar Harðardóttur. Jón Baldvin hafi skrifað fjórum konum, sér, Kolfinnu, Snæfríði og svo Guðrúnu. Hún sé meðvituð um efni þessara bréfa því Jón hafi sagt sér af þeim, að hann hafi gert hræðileg mistök. Það hafi hann sagt sér um 2000. Hún segir að þá hafi verið búið að stofna leshóp, Guðrún hafi verið lesblind og þeim hafi þótt vænt um þessa stelpu. „Þetta var ekkert stórmál fyrr en elsta dóttir okkar gerði mál úr þessu.“ Gæti best trúað að Aldís hafi skrifað allt á Metoosíðuna Bryndís segist spurð aldrei hafa séð Metoo-síðu sem sérstaklega er tileinkuð Jóni Baldvini. Hún hafi aldrei litið á það, ekki haft áhuga á því. „Þær hata mig hryllilega og eru að ná sér niður á mér með því að ráðast á Jón Baldvin. Bryndís er alveg eins og Jón Baldvin grípur um kynfæri karla á fylleríum…“ sagði Bryndís. Gunnar Ingi segir þá að efni síðunnar sé í stuttu máli það að þar séu tugir kvenna sem haldi því fram að Jón Baldvin hafi leitað á þær, einnig sem börn og spyr Bryndísi hvort hún sé þeirrar skoðunar að þetta sé uppspuni frá rótum? Bryndís segir já við því og hún gæti best trúað að Aldís hafi skrifað hvert einasta orð sem þarna kemur fram. Hún segist hafa lesið Stundina, þar sem greint var frá ásökunum á hendur Jóni, líka það sem stóð um sig. „Það var allt lygi, þarna er verið að lýsa einhverju fólki … við erum ekki ruddar, ekki sóðar, ekki ógeð, við erum bara ekki þannig fólk. Ég væri þá ekki vel upp alin að hafa verið gift þessum manni í 62 ár.“ Sólvarnarkrem á Ítalíu Bryndís segist að Guðrún hafi viljað vera með þeim og varðandi meint káf bónda síns þá hafi það verið svo að Guðrún var með þeim hjónum auk Kolfinnu og tveggja barna hennar. Frænku hennar hafi langað svo með til útlanda. Það hafi verið 40 stiga hiti við sundlaug og hún hafi beðið Jón um að bera sólarkrem á þessi börn. „Hvarflaði ekki að neinum að það væri eitthvað óeðlilegt við það.“ Svo lýsir Bryndís því að Jón Baldvin hafi verið fenginn til að henda henni út í öldurnar sem þótti þá mjög spennandi en orðið að sakamáli löngu seinna. „Jón Baldvin talar við alla eins og fullorðna, líka börn, og ég held að það sé orsökin fyrir þessu.“ Bryndís segist hafa hitt Aldísi í eitt skipti, áðurnefnt, á geðdeild. Hún hafi verið sjúk, fáklædd, hafi hjúfrað sig upp að sér. „Ég hef aldrei séð geðveika manneskju áður,“ segir Bryndís. Það hafi ekki verið fyrir hennar atbeina að hún var vistuð á geðdeild 2013. Þetta hafi verið eina skiptið sem hún hafi séð dóttur sína geðveika í alvöru. Afar kalt milli þeirra systra Kolfinna dóttir þeirra Jóns Baldvins og Bryndísar, systir Aldísar, var næst í vitnastúkuna. Hún var mætt sem vitni Jóns Baldvins og ekki fór á milli mála, að teknu tilliti til radd- og líkamsbeitingar að afar stirt er milli þeirra systra. Það átti eftir að koma betur í ljós því stóru orðin voru hvergi spöruð. Kolfinna var einnig, líkt og Bryndís, látin vinna drengskaparheit. Hún sagðist hafa í nokkur skipti þurft að hafa afskipti af Aldísi í geðrofi og hún lögð inn í maníukasti. Kolfinna sparaði ekki stóru orðin, sagði systur sína djöful í mannsmynd og hún gæti eyðilagt hvern sem er. Hér mæta þau feðgin, Kolfinna og Jón Baldvin í héraðsdóm á miðvikudaginn.vísir/vilhelm Lögreglan hafi leitað til ættingja og í tvö skipti var það svo að hún var ein á landinu. Þá hafi einnig verið hringt í aðra ættingja. Þannig byrjaði ferlið. Lögreglu hafi þá þurft að kalla til og læknar þurftu að meta hvort hún verði áfram inni, sjálfviljug eða svo eru það læknar sem meta hvort það beri að svipta hana sjálfræði. Kolvinna sagðist einu sinni hafa verið kölluð inná heimilið þar sem hún Aldís hafi verið búin að lokað sig inni á herbergi og hótaði að drepa barn sitt. Átakanlegt, sagði Kolfinna, að horfa upp á stóru systur sína sem hún hafði ávallt litið upp til og gaman að vera með henni í ævintýrum. En lögreglumaður hafi hringt í bróður móður sinnar, sem svo hafði haft samband við sig. Kolfinna segir að það hafi oft þurft að hafa afskipti af Aldísi, hún hafi farið á flakk en stofnanir hafi meira haft auga á henni en ættingjarnir sjálfir. Aldís sögð fær um að eyðileggja hvern sem er Kolfinna var spurð um hvort henni hafi verið kunnugt um ásakanirnar, um frelsissviptingu, að Jón Baldvin hafi leitað á hana og verið haldinn barnagirnd? Kolfinna segir skrítið að svara þeirri spurningu. Og skrítið viðtal sem tekið var við hana af þekktum og reyndum blaðamönnum. Stofnanir hafi lokað fólk inni, það hafi þar verið til rannsóknar. Allt þetta hafi tekið mjög á fjölskylduna, móðir hennar væri buguð en hún hafi átt við veikindi að stríða. „Ég ákvað sjálf að hætta öllum samskiptum við hana 1988. Fékk mig fullsadda og vildi ekki neitt hafa meira saman við hana að sælda, vildi ekki hafa hana í mínu lífi,“ sagði Kolfinna og bætti því að Aldís væri djöfull í mannsmynd sem gæti eyðilagt hvern sem er. Hún hafi ætíð verið helsti aðdáandi pabba þeirra, talað um hann sem dásamlegan, hlýjan og gáfaðan og talið að hann ætti að njóta sannmælis. Því skilji hún ekki hvers vegna hún sjálf er nú að halda þessu fram. Kolfinna greindi þá frá því að hún hafi unnið að áðurnefndu bréfi Snæfríðar, hún hafi skrifað illa og því var ekki handskrifuð undirskrift en bréfið væri reyndar frá þeim systkinunum. Skilur ekki hvað þeim gangi til að berja á 82 ára gömlum manninum Gunnar Ingi lögmaður Aldísar spurði Kolfinnu nánar um hver afskipti hennar væru af þessum málum? Að Aldís hafi hótað stúlkunni lífláti, og þá gat Aldís ekki stillt sig í sæti sínu og ávarpaði dómarann, herra dómari! Þetta væru meiðandi orð og ljót, lygi og henni ofbjóði. Gunnar Ingi hélt áfram eftir þá truflun, rakti að lögregla hafi verið kvödd á staðinn, Kolfinna þar stödd og kallaður til lásasmiður. Síðan hafi verið farið yfir íbúðina. Var Aldís að gera óskunda, spyr lögmaðurinn. Kolfinna svaraði spurningu Gunnars Inga lögmanns Aldísar um ummælin djöfull í mannsmynd með spurningu: Hvort hann hefði séð manneskju í geðrofi?vísir/vilhelm Kolfinna segir að íbúð Aldísar hafi verið vöktuð í tvær vikur. Móðurbróðir hennar hafi haft samband við sig og hún hafi verið í sambandi við geðdeild og félagsstofnun sem hafði eftirlit með barninu. Enn var farið yfir atriði sem áður höfðu verið rakin. Gunnar Ingi spurði Kolfinnu út í ummæli hennar, „djöfull í mannsmynd“ og Kolfinna spurði þegar á móti hvort hann hafi séð manneskju í geðrofi? Nei. Sjúkdómurinn taki yfir. Þá spurði Gunnar Ingi um hvort Kolfinna hafi haft samband við önnur vitni í málinu og Kolfinna sagði svo hafa verið. Um væri að ræða Margréti móðursystur hennar. Sem oft hafi notið gestrisni foreldra þeirra. Hún vissi svo ekki hvað hafi orðið til þess að hún „snérist“, þá á sveif með Aldísi í þessum miklu fjölskyldudeilum. Og Hildigunnur dóttir Margrétar sem endurnýjaði vinskap við sig þar sem hún sagði henni í trúnaði af hennar fjölskyldumálum. „Þetta kemur mér allt saman mikið á óvart. Hvað þeim gengur til að berja á 82 ára gömlum föður mínum?“ Kolfinna birti nýlega grein á Vísi þar sem hún fór yfir málið eins og það horfði við sér. Segir fráleitt að halda því fram að Aldís standi að baki sögunum Nú var ljóst að dagskráin var komin mjög úr skorðum og langt liðið á daginn. Enn átti eftir að leiða fram þrjú vitni, öll á vegum Aldísar; þrjár konur sem komu einkum til að staðfesta réttmæti ásakana sem þær höfðu áður sett fram á hendur Jóni um kynferðislega áreitni. Fyrst þeirra var Margrét Schram sem sagði á sér deili, að hún væri móðursystir Aldísar. Hún sagðist hafa veitt Stundinni viðtal í janúar 2019. Frásögn sem hafði birst í Meetohóp og Margrét var spurð hvort það væri eitthvað hæft í því að það sem frá henni væri komið í þeim efnum væri uppspuni Aldísar. „Nei það er nú haugalygi, algjörlega.“ Margrét sagði það einnig af og frá að það hafi verið fyrir tilstuðlan Aldísar sem hún kom fram undir nafni. Hún hélt að blaðamenn Stundarinnar hafi haft samband við sig eftir að hafa lesið sig til í Metoo-sögum. Þetta væri ekkert leyndarmál og var á allra vitorði. Margrét lýsti í stórum dráttum hvernig atvik sem Jóni tengist hafi komið til, hún hafi verið að fljúga sem flugfreyja en komið sem farþegi til baka frá Kaupmannahöfn. Það hafi verið millilent í Glasgow þar sem hún ætlaði að heimsækja Bryndísi sem þá var ekki heima. Margrét sagðist hafa tekið því sem höfnun, að biðja sig að koma en vera svo ekki heima. Margrét er þá beðin um að staðfesta það sem áður hafði komið fram sem hún gerði um kynferðislega tilburði Jóns Baldvins sem hún og gerði. „Ég var í sambandi við mann, sem ég ætlaði að giftast, ég fer ekki til Glasgow til að hitta þennan mann.“ Það býr enginn til svona sögur Margrét kannast ekki við að Aldís Schram standi á bak við metoo-sögurnar og spurði hvort það væri ekki allur heimurinn. Hún þekki ekki aðra sem hefðu sett þar inn sögur, nema dóttur hennar. Þá taldi Margrét af og frá að frásagnirnar séu, eins og stefnandi hefur haldið fram, samsæri öfgafemínista. „Konur sem senda þarna inn sögur sínar hafa þjáðst allt sitt líf,“ sagði Margrét og sagði að ýmsar þeirra væru orðnar sjúklingar, aðrar látnar. „Það býr enginn svona til. skáldskapurinn nær aldrei veruleikanum.“ Aldís mætir í aðalmeðferðina en með henni er Hildigunnur Hauksdóttir sem bar vitni í málinu. Þar sagði hún meðal annars frá því að kvöldið fyrir réttarhöldin hafi henni borist Facebookskilaboð frá Kolfinnu sem hún taldi ógnvænleg.vísir/vilhelm Margrét sagði það rétt vera að henni hafi borist bréf frá Jóni Baldvin, eitt hafi verið af sérlega kynferðislegum toga og svipaði í þeim efnum til bréfs til Guðrúnar Harðardóttur, eitthvað um mann að ofan en dýr að neðan. „Ekki geðslegt.“ Spurð sagðist Margrét kannast við að sögusagnir af sifjaspellum, eins og Aldís hafi sagt og því hafi verið lýst að hafi gerst á geðdeild. „Það fylgdi sögunni að það vissu þetta allir á spítalanum en það vissi enginn hvernig ætti að höndla þetta.“ Atvik í sundlaug Næst í vitnastúkuna var Hildigunnur Hauksdóttir, en móðir hennar er Margrét Schram sem bar vitni á undan henni. Hún gekkst fúslega við því að ein sagnanna sem finna má á Metoo-síðu helgaða Jóni Baldvin sé frá henni komin. Hildigunnur rakti svo þá sögu skilmerkilega og lét sér hvergi bregða þó Jón Baldvin sæti steinsnar frá henni. Sagan er á þessa leið, eins og hún birtist á síðunni og tekur til atviks sem gerðist fyrir 45 árum. 10 ára stúlka í grillveislu „Fyrir mörgum árum var ömmu minni boðið í grillveislu í sumarbústað í Mosfellssveit hjá foreldrum Bryndísar og tók hún mig með. Margt fólk var þar með börnin sín. Sólin skein og allir í góðum gír. Mesti spenningurinn var þó vegna nýrrar sundlaugar við bústaðinn. Ég var 10 ára og hlakkaði til að prófa laugina. Hún var hins vegar troðfull af krökkum þegar við komum svo ég ákvað að bíða aðeins. Þegar allir voru kallaðir í mat sætti ég færis og skaust alein í laugina. Umhverfis hana var hár veggur með hliði þannig að enginn tók eftir mér. Ég var varla komin ofan í laugina og yfir í djúpa endann þegar Jón birtist þarna á skýlunni í miðju borðhaldinu. Hann var ölvaður. Hann heilsaði undarlega og ég áttaði mig strax á því að þetta væru ekki góðar aðstæður fyrir mig. Hann hoppaði ofan í laugina og synti rakleiðis yfir til mín þar sem hann reyndi að króa mig af við bakkann. Hann þrýsti sér upp að mér og umlaði eitthvað sem ég skildi ekki. Ég hugsaði með mér að hann væri of fullur til að ráða við mig. Ég náði að setja hnén upp og ýta honum aðeins frá mér. Þannig gat ég sett hælana í magann á honum og sparkaði af öllum kröftum þannig að hann þeyttist í burt. Ég stökk upp úr og hljóp inn. Ég held að ég hafi ekki endilega áttað mig á því hvað væri að gerast. En ég gerði mér fulla grein fyrir því að hér væri hættulegur maður á ferð sem ég skyldi alltaf passa mig á. Síðan þá hef ég fyrirlitið þennan mann. Jón Baldvin er kynferðisglæpamaður og hefur alla tíð verið. Hann leggst á börn jafnt sem konur og skiptir þar engu þótt um hans eigin dóttur sé að ræða.“ Sjáumst í fyrramálið! Hildigunnur segist hafa látið setja þessa sögu inná nafnlaust því að hún vildi hlífa Kolfinnu. „Mér finnst mjög slæmt að hún þurfi að þola þetta.“ Hildigunnur taldi það af og frá að saga hennar væri hugarburður Aldísar Schram og upplifun hennar hafi verið sú að atferli Jóns Baldvins væri af kynferðislegum toga. Þá greindi Hildigunnur frá því að Kolfinna hafði samband við sig undir miðnætti með skilaboðum á Facebook: „Sjáumst í fyrramálið!“ Hildigunnur segir þetta hafa slegið sig út af laginu, hún hafi upplifað þetta sem ógn og hún hafi ekki svarað. Þá hafi Kolfinna bætt við: Kemur Johan með, og þá varð henni ljóst að Kolfinna væri að reyna að fá sig inná Facebook. Þetta hafi leitt til þess að hún svaf illa nóttina fyrir réttarhöldin. Dimmitering á Ísafirði Að endingu var hringt til Danmerkur og rætt við Sigríði Huldu Richardsdóttur sem þar býr. Sigríður greindi frá og staðfesti frásögn sem tekur til atburða á dimmisjón Menntaskólans á Ísafirði. Sigríður sagðist vera vinkona Aldísar, þær hafi kynnst fljótlega eftir stúdentspróf. Sigríður sagðist standa við frásögn sína, hún væri nákvæmlega eins og hún upplifði hana. Hún hafi borið frásögnina undir fjórar skólasystur sínar sem lásu hana yfir og sögðu hana ríma við sína upplifun. Og það væri ekki svo um væri að ræða uppspuna úr Aldísi. Vísir sagði af frásögn Sigríðar á sínum tíma og er hana að finna hér undir. Þar með lauk vitnaleiðslum og skýrslutöku. Á föstudaginn fluttu lögmennirnir þrír svo málið og hefur það verið lagt í dóm. Nánast engar líkur eru á því að með dómi í þessu máli, sem snýst um meiðyrði sem féllu í viðtali við Aldísi í Morgunþætti Rásar 2 þó allar þessar ásakanir milli málsaðila séu óhjákvæmilega undir, verði settur punktur aftan við mál þessi. …
Ummælin fjórtán sem málið snýst um Ummæli Aldísar í Morgunútvarpinu. 1. … hann fær mig undir fölsku yfirskini til að heimsækja afa minn … mér var haldið inni þarna í mánuð sem sagt ólöglega.“ 2. … já Fimm sinnum á næstu 10 árum kastast í kekki milli mín og Jóns Baldvins Hannibalssonar og því lyktaði ávalt með því að (sic) sigaði á mig lögreglu sem handtók mig, hann var náttúrlega utanríkisráðherra … 3. Hann gat bara þaðan í frá, þáverandi utanríkisráðherra og síðar sendiherra, virðist vera að hringja bara í lögreglu og þá var ég þar með handtekin, umsvifalaust í járnum, farið með mig upp á geðdeild … 4. … hann er þá líka að misnota lítil börn. 5. … ég neita að skilja þau eftir í umsjón karls sem káfar á litlum stúlkubörnum. 6. Og sem sagt 10 mínútum eftir að ég kæri Jón Baldvin þá hringir dyrabjallan. Þar ruddust þarna inn tveir lögreglumenn ef ekki þrír og ég, þegar ég sé það þá reyni ég að loka en auðvitað tókst mér það ekki, þeir ryðjast þá þar með inn og þeir svara mér engu, ryðjast inn í stofu þar sem dóttir mín 5 ára gömul er að lesa og þegar barnið er tekið frá mér þá verð ég æf. 7. … það er faðir minn sem stendur fyrir því að hér eigi að loka mig inni. 8. Fíkn, auðvitað er barnagirnd fíkn, þetta er fíkn. 9. … nauðungarvistun án dóms og laga er þá ólögmæt frelsissvipting… Facebook, 5. febrúar 2019, höfundur stefnda Aldís. 10. … og sigra hann og hans barnaníðingabandalag. Morgunútvarp, Rás 2, 17. janúar 2019, höfundur og flytjandi stefndi Sigmar, til vara stefnda Aldís. 11. … að Jón Baldvin hafi notað aðstöðu sína sem sendiherra til að láta nauðungarvista hana á geðdeild. 12. Sá fundur Aldísar og Jóns Baldvins segir hana hafa reynst sér örlagaríkur og orðið til þess að hún var í fyrsta sinn nauðungarvistuð á geðdeild. 13. … að Jón Baldvin hafi sett sig í samband við félagsmálayfirvöld og geðdeild með það fyrir augum að fá hana nauðungarvistaða í enn eitt skiptið. 14. Þar segir hún einnig að Jón Baldvin hafi framið sifjaspell þegar hún var fullorðin kona.
10 ára stúlka í grillveislu „Fyrir mörgum árum var ömmu minni boðið í grillveislu í sumarbústað í Mosfellssveit hjá foreldrum Bryndísar og tók hún mig með. Margt fólk var þar með börnin sín. Sólin skein og allir í góðum gír. Mesti spenningurinn var þó vegna nýrrar sundlaugar við bústaðinn. Ég var 10 ára og hlakkaði til að prófa laugina. Hún var hins vegar troðfull af krökkum þegar við komum svo ég ákvað að bíða aðeins. Þegar allir voru kallaðir í mat sætti ég færis og skaust alein í laugina. Umhverfis hana var hár veggur með hliði þannig að enginn tók eftir mér. Ég var varla komin ofan í laugina og yfir í djúpa endann þegar Jón birtist þarna á skýlunni í miðju borðhaldinu. Hann var ölvaður. Hann heilsaði undarlega og ég áttaði mig strax á því að þetta væru ekki góðar aðstæður fyrir mig. Hann hoppaði ofan í laugina og synti rakleiðis yfir til mín þar sem hann reyndi að króa mig af við bakkann. Hann þrýsti sér upp að mér og umlaði eitthvað sem ég skildi ekki. Ég hugsaði með mér að hann væri of fullur til að ráða við mig. Ég náði að setja hnén upp og ýta honum aðeins frá mér. Þannig gat ég sett hælana í magann á honum og sparkaði af öllum kröftum þannig að hann þeyttist í burt. Ég stökk upp úr og hljóp inn. Ég held að ég hafi ekki endilega áttað mig á því hvað væri að gerast. En ég gerði mér fulla grein fyrir því að hér væri hættulegur maður á ferð sem ég skyldi alltaf passa mig á. Síðan þá hef ég fyrirlitið þennan mann. Jón Baldvin er kynferðisglæpamaður og hefur alla tíð verið. Hann leggst á börn jafnt sem konur og skiptir þar engu þótt um hans eigin dóttur sé að ræða.“
Dómsmál Kynferðisofbeldi Fjölmiðlar Fréttaskýringar Mál Jóns Baldvins Hannibalssonar MeToo Mest lesið Skip úr skuggaflotanum hægði grunsamlega mikið á sér Erlent Spennan magnast fyrir fundi sem óvænt á að fresta Innlent Reyndu að ræna hraðbanka Innlent Áfengissala á helgidögum þjóðkirkjunnar stöðvuð af lögreglu Innlent Hættulega heitir dagar fleiri og mannskæðari en áður Erlent Rússar vara við því að hrapað sé að ályktunum áður en rannsókn lýkur Erlent Komu hesti til bjargar úr gjótu Innlent Spáir stillu og miklu svifryki um áramótin Veður Holtavörðuheiði enn lokuð Innlent Lögregla hafi hálfpartinn „hrökklast frá“ Innlent Fleiri fréttir Leit við Meradali vegna neyðarboðs Búið að opna Holtavörðuheiði á ný Þungar vikur framundan Skilaréttur neytenda ríkari ef varan er keypt á netinu Lögregla hafi hálfpartinn „hrökklast frá“ Hæstiréttur fer beint í búvörulagamálið Spennan magnast fyrir fundi sem óvænt á að fresta Grímuskylda og ósáttir vínsalar Holtavörðuheiði enn lokuð Reyndu að ræna hraðbanka Komu hesti til bjargar úr gjótu Icelandair skoðar næstu skref í þróun flugflotans Áfram töluverð snjóflóðahætta á Vestfjörðum Áfengissala á helgidögum þjóðkirkjunnar stöðvuð af lögreglu Snjóflóðahætta á Vestfjörðum og frumsýning Yermu Holtavörðuheiðinni lokað aftur í kvöld Sex voru fluttir með þyrlunni Gamla ríkið falt og milljónir fylgja Telja skemmdir í Bláfjöllum minniháttar Súðavíkurhlíð opin til 16 Alvarlegt bílslys í Öræfum Rólegt á aðfangadag en mikil aðsókn í viðtalstíma í desember Snjóflóð féllu á Súðavíkurhlíð Rúta rann yfir rangan vegarhelming út í móa Týndu vagni með jólamáltíðum sjúklinga á bráðamóttökunni Snjóflóð féll á Súðavíkurhlíð og rólegt í Kvennaathvarfinu Skógaskóli verður hótel Grímuskylda á Landspítalanum Búið að opna Hellisheiði og Holtavörðuheiði Strætó rann á bíl og ruslaskýli Sjá meira