Erlent

Átta ungmenni höfða mál gegn stærstu súkkulaðiframleiðendum heims

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ekkert ríki heims framleiðir jafn mikið af kakó og Fílabeinsströndin.
Ekkert ríki heims framleiðir jafn mikið af kakó og Fílabeinsströndin. epa/Legnan Koula

Átta ungmenni sem segjast vera fórnarlömb barnaþrælkunar á kakóplantekru á Fílabeinsströndinni hafa höfðað mál á hendur nokkrum af stærstu súkkulaðiframleiðendum heims.

Þau segja stórfyrirtækin samsek í ólöglegri þrælkun „þúsunda“ barna á kakóplantekrum þaðan sem þau kaupa hráefni í framleiðslu sína.

Meðal fyrirtækjanna eru Nestlé, Mars og Hershey en það er International Rights Advocates sem sækir málið fyrir hönd ungmennanna. 

Öll eru ungmennin frá Malí en þau krefjast skaðabóta vegna þrælkunarinnar, auk þess sem þau vilja að fyrirtækin gjaldi fyrir það að hafa hagnast á misgjörðunum og viðhafa ekki eftirlit með þeim aðilum sem þau voru að versla við.

Þetta mun vera í fyrsta sinn sem hópmálsókn af þessu tagi er höfðuð í Bandaríkjunum. Í málsókninni segir að reynsla ungmennanna endurspegli veruleika þúsunda annarra undir lögaldri.

Um 45% kakóframleiðslu heimsins kemur frá Fílabeinsströndinni. Framleiðsla þess hefur löngum verið tengd við mannréttindabrot, fátækt og barnaþrælkun.

Í kærunni greinir frá því hvernig börnin voru beitt blekkingum og flutt frá Malí til vinnu á kakóplantekrum. Þar unnu þau, oft árum saman, án þess að fá greitt fyrir og án þess að hafa hugmynd um hvort þau kæmust nokkurn tímann heim aftur til fjölskyldna sinna.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×