Eftirlitsmenn á vegum Vegagerðarinnar fylgjast með umferð um brúna alla helgina en aðeins er hægt að aka yfir hana frá níu á morgnana til sjö á kvöldin. Brynjar Örn Ástþórsson verkstjóri hjá Vegagerðinni á Húsavík er nú á svæðinu og segir hann enn hættu vegna klakastíflunnar sunnan við brúna.
„Það er auðvitað enn þá bara rosalega mikill klaki. Bara þak yfir þessu öllu saman. Hún er eitthvað aðeins að byrja að opna sig þarna að ofanverðu og það getur að minni bestu vitund verið gott merki og það getur líka verið slæmt merki. Það er enn þá að koma krapi þarna niður og það sást á myndum sem voru teknar þarna í gær,“ segir Brynjar.
Samkvæmt mælum Veðurstofunnar þá hefur vatnshæðin lækkað við brúna síðan í gær en er nú rúmir 470 sentimetrar. „Það er búið að hengja utan í brúna brúsa. Maður hefur séð að spottarnir eru stundum slakir og stundum bara sterktir. Þannig þetta er að hækka og lækka.“
Brynjar segir nú sjást í ána þar sem ekki sást í hana áður. „Það eru komin göt þar sem voru ekki göt áður.“
Erfitt er að meta nú hversu lengi takmarkanir verða á umferð yfir brúna. „Það er eiginlega alveg ómögulegt að segja hversu langan tíma þetta tekur. Þetta verður metið aftur betur á mánudaginn.“